Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 296 . mál.


588. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 49/1991, um grunnskóla, sbr. og lög nr. 1/1992.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið er felur í sér að framlengd er frestun á framkvæmd ákvæða grunnskólalaga um skólamáltíðir, lengingu kennslutíma, fækkun nemenda í bekkjardeildum og að komið skuli á skólaathvörfum við hvern grunnskóla. Frestun á framkvæmd ákvæða þessara var fyrst ákveðin með lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og er nú framlengd í samræmi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993. Við umfjöllun um málið fékk nefndin á sinn fund Svanhildi Kaaber og Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Arthur Morthens frá Barnaheillum, Unni Halldórsdóttur frá Landssamtökunum Heimili og skóla, Áslaugu Brynjólfsdóttur frá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis, Helga Jónasson frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis, Sigþór Magnússon frá Skólastjórafélagi Íslands, Örlyg Geirsson, Sólrúnu Jensdóttur og Ólaf Darra Andrason frá menntamálaráðuneytinu. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Kennarasambandi Íslands, Landssamtökunum Heimili og skóla og lagðar voru fram tölulegar upplýsingar frá menntamálaráðuneytinu og fræðslustjóra Reykjanesumdæmis.
    Til að gera ákvæði 2. gr. frumvarpsins skýrara leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. gr. orðist svo:
    Á eftir orðunum „1992–1993“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi: og skólaárið 1993–1994.

Alþingi, 11. jan. 1993.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Árni Johnsen.