Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 145 . mál.


590. Framhaldsnefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1993.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem dreift var á Alþingi fyrir jól og dagsett er 21. desember, er sett fram hörð gagnrýni á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeiri­hlutans í efnahagsmálum. Dregið var í efa að til staðar væri heildaryfirsýn yfir áhrif skattahækkana og annarra aðgerða stjórnarinnar sem margar hverjar urðu til með skyndiákvörðunum án nokkurs undirbúnings.
    Nú hefur a.m.k. í einu tilviki sannast rækilega að varnaðarorð stjórnarandstöðunnar og gagnrýni á ómarkviss vinnubrögð áttu rétt á sér. Útreikningar hagdeilda ASÍ og VSÍ sýna að afleiðingar þeirr­ar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við byggingu og viðhald íbúðarhúsnæðis voru verulega vanmetnar.
    Breyting, sem átti að skila ríkissjóði 400 millj. kr. tekjum á árinu, mundi engu skila þar sem hækkun vísitölutengdra frádráttarliða frá sköttum og ýmissa bótaliða, auk hærri vaxtagjalda, gerir meira en að éta upp 400 millj. kr. lægri endurgreiðslu virðisaukaskatts. Á næsta ári, 1994, yrðu áhrif breytinganna sannanlega neikvæð fyrir ríkissjóð svo nemur hundruðum milljóna.
    Alvarlegast er þó að vísitöluhækkanir í kjölfar þessara breytinga mundu að mati ASÍ og VSÍ valda 4 milljarða kr. raunhækkun skulda, þ.e. um 4 milljarðar kr. færast frá skuldurum til lánar­drottna og valda aukinni greiðslubyrði lána í þjóðfélaginu upp á um 1.250 millj. kr. Þá er rétt að minna á að þessi ákvörðun með sínum vísitölu- og verðbólguáhrifum átti sinn þátt í vaxtahækkunum bankanna.
    Því ber að fagna að aðilar vinnumarkaðarins hafa afhjúpað þessi vinnubrögð, sýnt fram á að rík­isstjórnin hefur ekki haft hugmynd um áhrif eigin ákvarðana og síðast en ekki síst megnað að reka ríkisstjórnina á flótta. Að öðru leyti vísast til greinargerðar hagdeildanna um frekari rökstuðning.
    Minni hlutinn fagnar þessari niðurstöðu og hvetur eindregið til þess að fleiri af misheppnuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar verði dregnar til baka.
    Á fund efnahags- og viðskiptanefndar í dag komu einnig fulltrúar Stéttarsambands bænda og fóru yfir forsendur þeirra hækkana búvöru sem leiðir af lækkaðri endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þessi aðgerð er um margt skyld hinni fyrri, að skerða endurgreiðslu virðisaukaskatts í húsbygging­um, og veldur miklum verðhækkunum og hefur ýmis óæskileg afleidd áhrif. Því væri tvímælalaust skynsamlegt að draga einnig þessa ákvörðun til baka.
    Frá ríkisstjórninni hafa komið óskir um nokkrar viðbótartillögur við frumvarpið, þar á meðal varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Margt virðist mæla með því að reynt verði að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti en á þessari stundu vantar nánari upplýsingar um stöðu fyrirtækisins og framtíðarhorfur.
    Þá vill minni hlutinn vekja athygli á bréfi frá Samtökum lífeyrissjóðanna sem efnahags- og við­skiptanefnd hefur borist þar sem fram koma varnaðarorð í sambandi við þá fjármuni sem ríkisstjórn­in gerir ráð fyrir að afla innan lands til húsnæðismála á árinu og þá væntanlega fyrst og fremst frá lífeyrissjóðunum. Samtök lífeyrissjóðanna telja að þessar auknu lántökur muni valda enn frekari vaxtahækkunum. Það má öllum ljóst vera að íslenska hagkerfið þolir ekki frekari vaxtahækkanir. Átelja verður það sambandsleysi sem greinilega hefur verið milli aðila í þessu tilviki eins og fleir­um.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar telur rétt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á ríkisfjármála­dæminu fyrir árið 1993. Minni hlutinn telur ólíklegt að öll kurl séu komin til grafar, enda má búast við að frekari endurskoðunar og leiðréttinga verði þörf á vanhugsuðum aðgerðum ríkisstjórnarinn­ar. Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar mun því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.

Alþingi, 12. jan. 1993.



    Steingrímur J. Sigfússon,     Halldór Ásgrímsson.     Kristín Ástgeirsdóttir.
    frsm.          

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.





Fylgiskjal I.


Bréf formanna ASÍ og VSÍ til forsætisráðherra


ásamt greinargerð hagdeilda ASÍ og VSÍ.


(8. janúar 1993.)




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)





Fylgiskjal II.


Minnisblað frá Stéttarsambandi bænda.


(11. janúar 1993.)




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)







Fylgiskjal III.


Landbúnaðarráðuneyti:

Fréttatilkynning.


(6. janúar 1993.)


    Vegna fréttar í fjölmiðlum um breytingu á verði búvara 1. janúar 1993 í tengslum við lækkun endurgreiðslna á virðisaukaskatti hefur ráðuneytið ákveðið að koma fram eftirfarandi skýringum.
    1. Framlög til endurgreiðslu á virðisaukaskatti voru lækkuð um 250 m.kr. eða úr 460 m.kr. í 210 m.kr. milli fjárlaga 1992 og 1993. Þessi breyting veldur breytingum á verði afurða alifugla, svína, hrossa og nautgripakjöts. Að teknu tilliti til ógreiddra reikninga frá desember sl. og með tilliti til stöðu fjárlagaliðarins um sl. áramót ákvað landbúnaðarráðuneytið að lækka endurgreiðslu á hverja einingu þessara afurða að meðaltali um 64,7%.
    2. Verðlagsnefndum landbúnaðarins var tilkynnt í lok sl. árs um framangreinda ákvörðun ráðu­neytisins sem skyldi koma til framkvæmda 1. janúar 1993. Í framhaldi af því fór fram verðlagning og nýskráning verða fyrir afurðir alifugla, nautgripa og hrossa. Eftirfarandi breytingar voru gerðar (sjá einnig fskj.).

a. Egg.
    Vegna breytinga á endurgreiðslum úr ríkissjóði hækkar verð eggja um 7,28%. Almennar verð­lagsbreytingar að mati sexmannanefndar frá 1. mars 1992 nema 4,12% nettó. Samtals nam því verð­hækkunarþörfin 11,40%. Mest munar í almennum verðlagsbreytingum um hækkun kjarnfóðurverðs (vegna gengisbreytingar og erlendrar fóðurhækkunar) sem metin er 3,13%. Nefndin lækkaði rekstr­arkostnað verðlagsgrundvallarins sem nemur álögðu aðstöðugjaldi þar sem það fellur niður frá og með 1. janúar sl. Að tillögu fulltrúa bænda í verðlagsnefndinni var frestað rúmum helming hækkun­arinnar til 1. mars nk. Því var einungis um að ræða 5% hækkun á verði eggja frá framleiðendum þann 1. janúar sl.

b. Kjúklingar.
    Breyting á endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna kjúklingakjöts hækkar verð þess um 11,14%. Almennar verðlagsbreytingar að mati sexmannanefndar frá 1. mars 1992 nema 4,08%. Samtals nam því verðhækkunarþörfin 15,22%. Slátur- og heildsölukostnaður kjúklinga er talinn haldast óbreyttur. Í almennu verðhækkuninni munaði mest um hækkun kjarnfóðurs, en hún var 3,4%. Rekstrarkostnaðurinn var lækkaður vegna afnáms aðstöðugjalds. Niðurstaða verðlagningar­innar var í samræmi við framkomnar verðhækkanir og endurgreiðslulækkun.

c. Nautgripakjöt UNI.
    Breyting á endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna nautgripakjöts hækkar verð þess um 13,48%. Engar almennar verðlagsbreytingar voru gerðar til bænda af sexmannanefnd til hækkunar eða lækkunar. Slátur- og heildsölukostnaður hélst óbreyttur. Samtals nam því verðhækkunin 13,48%.

d. Svínakjöt.
    Breyting á endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna svínakjöts hækkar verð þess um 8,65%. Al­mennar verðlagsbreytingar að mati framleiðenda frá 1. október 1992 eru taldar nema nettó 3,11% eftir að lækkað hefur verið vegna afnáms aðstöðugjalds. Af þessari hækkun telur fóðurverð 3,4%. Samtals nemur áætluð verðhækkunarþörf 11,76%. Þar sem ekki er um að ræða opinbera verðskráningu á verði svínakjöts er ekki vitað á þessu stigi hver hin endanlega verðhækkun verður en það er á valdi hvers og eins framleiðenda.

Fskj.

Yfirlit um verðbreytingar á afurðum alifugla,


svína og nautgripakjöti 1. janúar 1993.


    Kr.     %-breyting
Egg, 1. verðflokkur:
Verðlagning 1. janúar 1993:
Verð til bænda 1. mars 1992          247,70
Nýtt verð til bænda frá 1. janúar 1993          275,94
Mismunur til hækkunar          28,24     11,40
Skipting hækkunar:
Vegna lækkunar endurgreiðslna frá ríkissjóði          18,03     7,28
Vegna hækkunar á rekstrargjöldum frá 1. mars 1992          10,21     4,12
Framkvæmd verðbreytingar 1. janúar 1993:
Geymd hækkun til 1. mars 1993          15,78     6,37
Hækkun til framkvæmda 1. janúar 1993          12,46     5,03

Kjúklingar, 1. verðflokkur:
Verðlagning 1. janúar 1993:
Verð til bænda 1. mars 1992          260,79
Nýtt verð til bænda frá 1. janúar 1993          300,48
Mismunur til hækkunar          39,69     15,22
Skipting hækkunar:
Vegna lækkunar endurgreiðslna frá ríkissjóði          29,05     11,14
Vegna hækkunar á rekstrargjöldum frá 1. mars 1992          10,64     4,08
Framkvæmd verðbreytingar 1. janúar 1993:
Hækkun til framkvæmda 1. janúar 1993          39,69     15,22

Nautgripakjöt UNI:
Verðlagning 1. janúar 1993:
Breyting á verði til bænda          0,00     0,00
Heildsöluverð 1. desember 1992          356,00
Nýtt heildsöluverð 1. janúar 1993          404,00
Mismunur til hækkunar          48,00     13,48
Skipting hækkunar:
Vegna lækkunar endurgreiðslna frá ríkissjóði          48,00     13,48
Vegna hækkunar á rekstrargjöldum frá 1. desember 1992          0,00     0,00
Framkvæmd verðbreytingar 1. janúar 1993:
Hækkun til framkvæmda 1. janúar 1993          48,00     13,48

Svínakjöt:
Verðlagning 1. janúar 1993:
Verð til bænda, október 1992          306,57
Nýtt verð til bænda frá 1. janúar 1993          342,62
Mismunur til hækkunar          36,05     11,76
Skipting hækkunar:
Vegna lækkunar endurgreiðslna frá ríkissjóði          26,53     8,65
Vegna hækkunar á rekstrargjöldum frá 1. mars 1992          9,52     3,11
Framkvæmd verðbreytingar 1. janúar 1993:
(Eftir 1. janúar 1993 — frjáls verðlagning)*          ?     ?
* Ekki liggur fyrir hversu mikill hluti þessarar hækkunar er kominn fram í verðlagi í dag

Fylgiskjal IV.


Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti:

Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar.


(11. janúar 1993.)


    Íslenska járnblendifélagið hf. á Grundartanga hefur að undanförnu átt við mikla rekstr­arörðugleika að etja sökum verðfalls á kísiljárni og söluörðugleikum. Verið er að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins sem m.a. mundi felast í því að eigend­ur leggi fram nýtt hlutafé til þess og að þeir veiti fyrirtækinu jafnframt víkjandi lán eft­ir því sem um semst.
    Ríkissjóður á 55% hlutafjár í verksmiðjunni og er gert ráð fyrir að hann taki þátt í hlutafjáraukningu og/eða veiti lán og ábyrgðir í sama hlutfalli af heildarfjárstuðningi eigenda við fyrirtækið.
    Ekki sér enn fyrir endann á samningaviðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins sem tengjast einnig nýjum samningum um raforkuverð og verð á fleiri aðföng­um til verksmiðjunnar og tengjast munu hugsanlegu samkomulagi um breytingar á mark­aðshlutdeild félagsins í sölukerfi meðeigenda ríkissjóðs, norska fyrirtækisins ELKEM og japanska fyrirtækisins Sumitomo.
    Hins vegar þykir nú nauðsynlegt að fjármálaráðherra sé veitt heimild á lánsfjárlög­um til þess að veita félaginu bráðabirgðalán að fjárhæð allt að 150 millj. kr. í því skyni að rekstur þess stöðvist ekki áður en samið hefur verið um fjárhagslega endurskipulagn­ingu félagsins. Þá er einnig farið fram á að fjármálaráðherra verði heimilað að leggja fram fé til hlutafjáraukningar og í formi víkjandi láns til félagsins ef samningar milli eigenda um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins nást og að fjármálaráðherra fái jafnframt heimild til nauðsynlegrar lántöku ríkissjóðs í því sambandi.
    Er þess óskað að slíkri heimildagrein verði bætt við í fyrirliggjandi frumvarpi til láns­fjárlaga.

Eiður Guðnason, starfandi iðnaðarráðherra,


Jón Ingimarsson.





Fylgiskjal V.


Landssamband lífeyrissjóða,
Samband almennra lífeyrissjóða:


Bréf til efnahags- og viðskiptanefndar.


(11. janúar 1993.)


    Samkvæmt frumvarpi til lánsfjárlaga 1993, eftir breytingartillögur meiri hluta efna­hags- og viðskiptanefndar er gert ráð fyrir lántökum Byggingarsjóðs ríkisins að fjár­hæð 3.860 millj. kr. og Byggingarsjóðs verkamanna að fjárhæð 6.870 millj. kr., eða samtals 10.730 millj. kr. innan lands og þá væntanlega hjá lífeyrissjóðunum.
    Landssamband lífeyrissjóða og Samband almennra lífeyrissjóða vilja vekja athygli nefndarinnar á þeirri staðreynd að lántökur fyrrgreindra sjóða hjá lífeyrissjóðunum námu 7.363 millj. kr. á öllu árinu 1992. Þannig er gert ráð fyrir auknum lántökum hjá lífeyris­sjóðunum um 3.367 millj. kr. eða um 45,7% á árinu 1993. Fyrrgreindar lánveitingar koma til viðbótar kaupum lífeyrissjóðanna á húsbréfum en útgáfa húsbréfa á árinu 1993 er tal­in verða álíka mikil og á árinu 1992.
    Eins og fyrrgreindar tölur bera með sér er stefnt að stórauknum lántökum Húsnæðis­stofnunar hjá lífeyrissjóðunum á næsta ári og verður ekki annað séð en afleiðingin yrði raunvaxtahækkun en ekki lækkun raunvaxta eins og stefnt er að. Lífeyrissjóðasamtökin harma að fulltrúar þeirra hafa ekki verið kallaðir fyrir nefndina þannig að benda megi nefndarmönnum á hversu stórfelld mistök hér eru í uppsiglingu.

Virðingarfyllst,



f.h. Sambands almennra lífeyrissjóða,


Hrafn Magnússon,


f.h. Landssambands lífeyrissjóða,


Þorgeir Eyjólfsson.