Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 377 . mál.


670. Skýrsla



um norrænt samstarf frá febrúar 1992 til febrúar 1993.

Frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs.



1. Inngangur — breytingar á starfsháttum Norðurlandaráðs.
    Störf Norðurlandaráðs árið 1992 mörkuðust af þeim tillögum um breytingar á áherslum og starfsháttum sem lagðar voru fram og ræddar á árinu. Á aukaþingi ráðsins í Maríuhöfn í nóvember 1991 höfðu forsætisráðherrar Norðurlanda gefið hina svonefndu Maríuhafnaryfirlýsingu um fram­tíð norræns samstarfs og skipað nefnd til að leggja fram tillögur um framtíðarskipan samstarfsins í ljósi þróunarinnar í Evrópu. Fulltrúi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í nefndinni var Matthías Á. Mathiesen, fyrrverandi utanríkisráðherra. Fyrir 40. þing Norðurlandaráðs í mars 1992 í Helsinki lagði sú nefnd fram hlutaskýrslu en lokaskýrslu sína lagði hún fram í ágúst sama ár. Forsætisráð­herrar landanna gerðu tillögur nefndarinnar í meginatriðum að sínum með samþykkt hinnar svo­nefndu Borgundarhólmsyfirlýsingu á fundi sínum á Borgundarhólmi 17. ágúst 1992.
    Í Borgundarhólmsyfirlýsingunni lögðu forsætisráðherrarnir áherslu á að það væri nú í fyrsta sinn í langan tíma sameiginlegt áhugamál Norðurlanda að taka þátt í uppbyggingu evrópsks samstarfs um utanríkismál, varnarmál og efnahagsmál. Þeir lögðu í yfirlýsingunni sérstaka áherslu á að for­sætisráðherrarnir tækju pólitíska forustu í norrænu samstarfi; að forustuhlutverk þess lands, sem hefði formennsku hverju sinni, yrði virkara á hinum ýmsu sviðum samstarfsins; að utanríkis- og varnarsamstarf Norðurlanda yrði þróað og aukið; að menningarsamstarfið yrði styrkt og að skrif­stofur forsætisnefndar og ráðherranefndar Norðurlanda yrðu fluttar saman.
    Forsætisráðherrarnir lýstu því þá jafnframt yfir að skýrslan yrði lögð fyrir 41. þing ráðsins í nóv­ember sama ár í Árósum, eins og gert var, og að lagðar yrðu fram tillögur um breytingar á Helsinki-­samningnum eftir það þing og verða þær tillögur lagðar fyrir 42. þing ráðsins í mars 1993 í Ósló. Jafnframt skipuðu forsætisráðherrarnir nýja nefnd til að fylgja eftir tillögum fyrri nefndarinnar og leggja fram tillögur um breytingar á starfsháttum Norðurlandaráðs og ráðherranefndar Norðurlanda sem rétt væri að gera vegna þeirra breyttu áherslna sem yrðu í samstarfinu. Af hálfu Íslands sat Matthías Á. Mathiesen einnig í þessari nefnd. Sú nefnd skilaði svo lokaskýrslu sinni að loknu Norð­urlandaráðsþingi í Árósum. Hún lagði m.a. til að lögð yrði megináhersla á sjö svið norræns sam­starfs: menningarmál, rannsóknar- og menntamál, umhverfismál, réttindi Norðurlandabúa, efna­hagsmál og lagaleg málefni. Einnig lagði hún til að menningarsamstarfinu yrði veittur forgangur og að árið 1996 yrði helmingi norrænu fjárlaganna varið til menningar-, mennta- og rannsóknarsam­starfs.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs skipaði við lok 41. þingsins þriggja manna vinnuhóp til að gera tillögur um breytingar á innra starfi Norðurlandaráðs. Þar situr Halldór Ásgrímsson sem fulltrúi miðjuhópsins í Norðurlandaráði, en formaður er Ilkka Suominen, forseti Norðurlandaráðs. Vinnu­hópurinn á að leggja fram lokaskýrslu fyrir 42. þing Norðurlandaráðs í mars 1993 í Ósló.
    Þær breytingartillögur, sem fyrrnefndar nefndir og vinnuhópar hafa fjallað um, hafa einnig verið til formlegrar og óformlegrar umfjöllunar í landsdeildum, nefndum og flokkahópum Norðurlanda­ráðs, auk þess sem um þær hefur að sjálfsögðu verið fjallað á vettvangi ráðherranefndar Norður­landa.
    Þegar skýrsla þessi er skrifuð hafa nánast engar endanlegar ákvarðanir verið teknar um breyting­ar. Ljóst er þó að sá umfangsmikli nýi menningarsjóður, sem fyrri nefnd forsætisráðherranna lagði til, verður ekki stofnaður að svo stöddu og að ekki verður af því að skrifstofur forsætisnefndar Norð­urlandaráðs og ráðherranefndar Norðurlanda verði fluttar saman. Þær tillögur, sem lagðar verða fyr­ir 43. þing Norðurlandaráðs í Ósló, fjalla m.a. um styrkingu menningarsamstarfsins, meðferð nor­rænu fjárlaganna, aðild ráðherra Norðurlanda að Norðurlandaráði og ef til vill um fækkun ráðherra­nefnda og embættismannanefnda.

2. Þing Norðurlandaráðs.
2.1. 40. þing ráðsins.
    Norðurlandaráð hélt 40. þing sitt í Helsinki 3.–6. mars 1992. Að venju hófst þingið á almennum umræðum. Að þessu sinni var aðalefni almennu umræðnanna Norðurlönd eftir 1992 þó að sérstök umræða um Norðurlönd eftir 1992 hefði verið síðasta dag þingsins, þar sem fimm þingmannatillög­ur, ein ráðherranefndartillaga og skýrsla ráðherranefndar Norðurlanda um starfsáætlun næsta árs voru bornar undir atkvæði. Ýmis sjónarmið um þróunina í Evrópu og áhrif hennar á norrænt sam­starf voru ásamt sjónarmiðum um hlutaskýrslu fyrri nefndar forsætisráðherra Norðurlanda sem rauður þráður gegnum umræðuna. Af hálfu forsætisnefndar Norðurlandaráðs var því haldið fram að Maríuhafnaryfirlýsing forsætisráðherranna yki vonir manna um framtíð norræns samstarfs og um norrænt samráð í utanríkis- og varnarmálum og að aukin ábyrgð forsætisráðherranna væri til bóta fyrir norrænt samstarf.
    Í almennu umræðunum tóku til máls eftirgreindir íslenskir fulltrúar: Davíð Oddsson forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, Eiður Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, Kristín Einarsdóttir, Geir H. Haarde, Hjörleifur Guttormsson og Árni M. Mathiesen, og í umræðunum um Norðurlönd eftir 1992: Eiður Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, Geir H. Haarde, Sighvatur Björgvinsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Hjörleifur Guttormsson, Árni M. Mathiesen og Kristín Einarsdóttir.
    Að loknum almennu umræðunum tóku við umræður um málefni nefndanna. Fyrir þingið voru lagðar ársskýrslur ráðherranefndar Norðurlanda, átta ráðherranefndartillögur og 35 þingmannatil­lögur. Auk þess voru bornar fram 55 fyrirspurnir. Í framhaldi af tillögunum voru gerðar 32 sam­þykktir og tvær yfirlýsingar samþykktar. Tilmælin og yfirlýsingarnar fylgja skýrslu þessari sem fskj. I.
    Í upphafi þingsins var Ilkka Suominen, forseti finnska þingsins, kosinn forseti í stað Ankers Jørgensen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur.
    Helmut Kohl var heiðursgestur þingsins og hélt þar ræðu og svaraði fyrirspurnum, einni frá hverjum flokkahópi.
    Á þinginu var samþykkt þingmannatillaga sem Halldór Ásgrímsson lagði fram um samstarf á heimskautssvæðinu (sjá lið 5.2).
    Hjörleifur Guttormsson bar fram fyrirspurn til ríkisstjórna Norðurlanda um að minnka notkun ósoneyðandi efna á Norðurlöndum og Kristín Einarsdóttir bar fram fyrirspurn til ríkisstjórnanna um losun klórsambanda í hafið.

2.2. 41. þing ráðsins.
    Norðurlandaráð hélt fyrsta reglulega haustþing sitt í Árósum 9.–11. nóvember 1992. Með þessu þingi var þeim hætti komið á að halda regluleg þing ráðsins að jafnaði tvisvar á ári, en áður höfðu verið haldin fjögur aukaþing án þess að það væri árleg venja.
    Mikilvægustu mál þingsins voru framtíð norræns samstarfs og umræðan um utanríkismál.

2.2.1. Framtíð norræns samstarfs.
    Skýrsla fyrri nefndarinnar sem forsætisráðherrar höfðu skipað til að fjalla um framtíð samstarfs­ins og ræða Gro Harlem Brundtlands, forsætisráðherra Noregs, sem hún flutti fyrir hönd forsætis­ráðherranna, lágu til grundvallar umræðunum um framtíð samstarfsins.
     Gro Harlem Brundtland lýsti því m.a. í ræðu sinni að norrænt samstarf yrði markvissara við það að fækka þeim sviðum, þar sem samstarf er, úr tuttugu og niður í um það bil sjö. Meðal annars hefði þetta í för með sér aukna möguleika á samráði við Norðurlandaráð við gerð fjárlaganna. Eðlilegt væri að gefa Norðurlandaráði færi á að koma með tillögur um breyttar áherslur innan fjárlagara­mmans og ef ráðið héldi sig innan rammans bæri ráðherranefndinni að fara að tillögunum. Gerði hún það ekki skyldi færa fyrir því sérstök rök. Í ljósi þeirrar andstöðu, sem komið hefði fram hjá menningarmálanefnd Norðurlandaráðs og menningar- og menntamálaráðherrum landanna gegn stofnun og uppbyggingu þess sjálfbæra menningarsjóðs sem lagt hefði verið til að stofna, kvað hún nú hafa verið horfið frá slíkri stofnun. Í staðinn væri lagt til að fjárveitingar til menningar-, mennta- og rannsóknarsamstarfs yrðu auknar um 25% á fjárlögum ársins 1994 og árið 1996 yrðu þær komn­ar upp í 50% fjárlaganna. Hún kvað ráðherrana leggja til að fjárveitingar til umhverfismála yrðu a.m.k. ekki lægri en nú er og að þessari uppbyggingu yrði mætt með niðurskurði á öðrum sviðum. Hún lagði áherslu á að þingmenn og ráðherrar menningarmála tækju þátt í mótun menningarsam­starfsins og á virka og pólitíska formennsku í stað embættismannastýringar. Hún kvað standa til að hafa áfram norræna samstarfsráðherra. Hún taldi nauðsyn á að endurskipulag innra starfs Norður­landaráðs færi fram á vegum Norðurlandaráðs sjálfs og eðlilegt að það færi fram í samvinnu við þjóðþingin. Varðandi það hvort ráðherrar yrðu, eins og verið hefði, fulltrúar í Norðurlandaráði kvað hún aðalatriðið vera að þeir sæktu þing ráðsins en ekki hvort þeir væru formlegir fulltrúar í ráðinu.
    Skoðanir flokkahópa ráðsins voru skiptar um þær hugmyndir sem komu fram í skýrslunni og ræðu norska forsætisráðherrans.
     Miðflokkahópurinn taldi það forsendu virkrar pólitískrar stýringar að ekki yrði þrengt um of að norrænu skrifstofunum sem gætu verið og ættu að vera driffjöður starfsins. Ef of mörgum embættis­mannanefndum yrði slegið saman gerði það starf þeirra of þungt í vöfum. Sjálfsagt væri að gefa ákveðnum samstarfssviðum forgang, en það mætti þó ekki valda því að ómögulegt yrði að halda uppi skynsamlegu starfi á öðrum sviðum. Þó að miðflokkarnir styddu að menningarsviði yrði veitt­ur forgangur væri erfitt að sætta sig við þann niðurskurð á öðrum sviðum sem af því leiddi að helm­ingur fjárlaganna rynni til menningarmála.
     Halldór Ásgrímsson talaði af hálfu miðflokkanna í umræðunni.
     Flokkahópur hægri manna studdi tillögurnar í aðalatriðum en lagði áherslu á að ráðherrar yrðu áfram fulltrúar í Norðurlandaráði. Segja mætti að það væri órökrétt að þeir sætu þar án atkvæðisrétt­ar, en þessi skipan hefði þó reynst vel og því væri ástæðulaust að breyta henni. Hópurinn taldi rétt að einfalda skipulag samstarfsins og leggja meðferð á norrænu fjárlögunum beint til fjármálaráð­herranna. Aukin þátttaka utanríkisráðherranna minnkaði einnig þörfina á sérstökum norrænum sam­starfsráðherrum. Þá vildi hópurinn halda forsætisnefndarskrifstofunni en taldi að til greina gæti komið að flytja hana og ráðherranefndarskrifstofuna saman ef þær héldu hvor um sig sjálfstæði sínu. Hópurinn lagði áherslu á þörfina á auknum völdum þingmanna Norðurlandaráðs varðandi skiptingu norrænu fjárlaganna.
     Jan P. Syse talaði af hálfu hægri manna.
     Flokkahópur Vinstri sósíalista gagnrýndi skýrsluna og taldi að verið væri að veikja norrænt samstarf, draga úr fjármagni til þess og losa ráðherra og ríkisstjórnir undan ábyrgð á störfum þeim sem færu fram innan Norðurlandaráðs. Hópurinn taldi sig geta fallist á að gefa þeim sjö samstarfs­sviðum sem lagt var til forgang en lagði áherslu á að ekki yrði dregið úr félagslegum þáttum sam­starfsins og að standa bæri vörð um velferð þeirra sem minna mega sín. Tillögur um stofnun nefndar háttsettra embættismanna í nánum tengslum við forsætisráðherrana í stað norrænu samstarfsráð­herranna taldi hópurinn varhugaverðar enda væri hætta á að völd slíkrar nefndar mundu með tíman­um aukast um of. Hópurinn lagðist gegn tillögum um að ráðherrar yrðu ekki lengur fulltrúar í Norð­urlandaráði enda væri það forsenda norræns samstarfs að þar færu fram skoðanaskipti þingmanna og ráðherra á jafnréttisgrundvelli.
     Birgitte Husmark talaði af hálfu Vinstri sósíalista.
     Flokkahópur frjálslyndra kvað skýrsluna mótast af óskum um aukin ríkisafskipti sem væri gagnstætt þeim straumum sem væru ráðandi annars staðar í heiminum og varðandi menningarsam­starfið væri einkavæðing þess það sem stefna bæri að. Þó að hópurinn teldi að leggja ætti niður Norðurlandaráð hefði hann þó skoðanir á starfsemi þess. Auka ætti hlutverk forsætisráðherranna, gera forustuhlutverk forseta Norðurlandaráðs sterkara, styrkja flokkasamstarf, leggja niður lands­deildarskrifstofurnar og samræma störf forsætisnefndarskrifstofunnar og skrifstofu ráðherranefnd­arinnar.
     Pia Kjærsgaard talaði af hálfu frjálslyndra.
     Flokkahópur sósíaldemókrata studdi í aðalatriðum skýrsluna og þakkaði framtak forsætisráðherranna. Hópurinn kvað nauðsynlegt að vinna markvisst á norrænum grundvelli að sameiginlegum hagsmunamálum eins og fullri atvinnu og umhverfismálum. Einnig þyrfti að þróa norrænan heima­markað og auka menningar- og menntamálasamstarfið. Það þyrfti að auka pólitíska stýringu, inn­leiða virka formennsku í nefndum þingmanna og ráðherra, minnka völd embættismanna og styrkja til muna flokkasamstarfið. Í Norðurlandaráði ættu að sitja þingflokksformenn og forustumenn í ut­anríkismálum landanna. Hópurinn fagnaði þeim merkjum sem komið hefðu fram um að auka ætti völd þingmanna hvað varðaði skiptingu fjárlaganna.
     Kirsti Kolle Grøndahl talaði af hálfu sósíaldemókrata.
    Auk áðurgreindra tóku eftirfarandi íslenskir fulltrúar til máls: Geir H. Haarde, Friðrik Sophus­son fjármálaráðherra, Eiður Guðnason, samstarfsráðherra Norðurlanda, Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra og Sigríður A. Þórðardóttir.

2.2.2. Umræðan um utanríkismál.
    Þetta var fyrsta sinn sem sérstök umræða um utanríkismál fór fram á þingi Norðurlandaráðs, en slík umræða verður hér eftir fastur liður á haustþingum ráðsins.
     Thorvald Stoltenberg, utanríkisráðherra Noregs, flutti skýrslu um utanríkismál og kvað aðalefni hennar vera „Norðurlönd í Evrópu“. Gagnstætt því sem upphaflega hafði verið áformað talaði Stoltenberg ekki fyrir hönd hinna utanríkisráðherranna. Stoltenberg kom í ræðu sinni inn á flest þau ut­anríkis- og varnarmál sem efst eru á baugi frá sjónarhóli Norðurlanda. Hann ræddi m.a. um EES-samningana, fjölgun ríkja í EB og EFTA, svæðissamstarf í Evrópu, þar á meðal Eystrasalts­samstarfið og Barentshafssamstarfið, breytt viðhorf í öryggismálum, áhrif breytinganna í Aust­ur-Evrópu og Atlantshafsbandalagssamstarfið.
    Síðar á þinginu var svo almenn utanríkismálaumræða sem 35 þingmenn og ráðherrar tóku þátt í.
    Geir H. Haarde talaði þar af hálfu hægri manna en auk hans tóku þar til máls Jón Sigurðsson við­skiptaráðherra, Hjörleifur Guttormsson og Rannveig Guðmundsdóttir.

2.2.3. Umræður um málefni nefndanna.
    Fyrir þingið voru lagðar tillögur um norræn fjárlög ráðherranefndar Norðurlanda fyrir árið 1993, ein ráðherranefndartillaga og 19 þingmannatillögur. Þingið gerði 17 samþykktir sem fylgja skýrslu þessari sem fskj. I.
    Á þinginu voru samþykktar tvær tillögur, sem Hjörleifur Guttormsson var fyrsti flutningsmaður að, um aðgerðir til hjálpar þeim þjóðfélagshópum sem eru félagslega illa settir og um sjálfbæra skipulagningu í orkumálum á Norðurlöndum (sjá nánar í lið 5.4).

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
3.1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild og fastanefndir Norðurlandaráðs.
    Þann 24. október 1991 kaus Alþingi eftirtalda þingmenn til setu í Norðurlandaráði til eins árs: Geir H. Haarde, Rannveigu Guðmundsdóttur, Árna M. Mathiesen, Sigríði A. Þórðardóttur, Halldór Ásgrímsson, Hjörleif Guttormsson og Kristínu Einarsdóttur.
    Varamenn voru kosnir: Sturla Böðvarsson, Karl Steinar Guðnason, Árni Johnsen, Ingi Björn Albertsson, Valgerður Sverrisdóttir, Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Á fundi 5. nóvember 1991 skipaði Íslandsdeild þannig með sér verkum að Geir H. Haarde var kjörinn formaður Íslandsdeildar og tilnefndur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans. Hjörleifur Guttormsson var kjörinn varaformaður Íslandsdeildar og fulltrúi í efnahagsmálanefnd. Halldór Ásgrímsson var kjörinn í félagsmálanefnd og tilnefndur í for­sætisnefnd. Kristín Einarsdóttir var kjörin í umhverfisnefnd og tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt. Sigríður A. Þórðardóttir var kjörin í menningarmálanefnd og Rannveig Guð­mundsdóttir í laganefnd. Árni M. Mathiesen var kjörinn í fjárlaganefnd og tilnefndur í ritstjórnar­nefnd tímaritsins Nordisk Kontakt.
    Á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki 3. mars 1992 var kosið í trúnaðarstöður í samræmi við of­angreindar tilnefningar Íslandsdeildar. Svavar Gestsson var kosinn í stjórn Norræna menningar­sjóðsins og Hjörleifur Guttormsson var kosinn í kjörnefnd. Í tilefni þess að Rannveig Guðmunds­dóttir var kosin formaður menningarmálanefndar gerði Íslandsdeild þær breytingar á skiptingu í nefndir að Rannveig tók sæti í menningarmálanefnd, Sigríður A. Þórðardóttir í félagsmálanefnd og Halldór Ásgrímsson í laganefnd.
    Þann 3. nóvember 1992 kaus Alþingi á ný fulltrúa til setu í Norðurlandaráði. Sömu þingmenn hlutu þá kosningu og árið áður. Á fundi Íslandsdeildar sama dag voru ekki aðrar breytingar gerðar á verkaskiptingu en þær að Halldór Ásgrímsson var kosinn formaður Íslandsdeildar og Geir H. Haarde varaformaður.

3.2. Störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt 16 fundi á starfsárinu. Hún átti einn fund með Davíð Odds­syni forsætisráðherra, tvo með Eiði Guðnasyni samstarfsráðherra og einn með fulltrúum frá Nor­ræna félaginu.
    Skipulagsmál Norðurlandaráðs voru til umræðu á flestum fundum deildarinnar í tilefni þeirra tveggja skýrslna um framtíð samstarfsins sem lagðar voru fram á árinu.
    Norrænir fréttamannastyrkir voru á starfsárinu veittir átta íslenskum fréttamönnum. Samanlagt var styrkupphæðin jafnvirði 70.000 sænskra króna. Að fenginni umsögn stjórnar blaðamannafé­lagsins ákvað Íslandsdeild að eftirgreindir fréttamenn skyldu hljóta styrk: Arnar Guðmundsson, Bogi Ágústsson, Gissur Sigurðsson, Hallur Hallsson, Helgi Már Arthursson, Hjördís Finnbogadótt­ir, Ragnar Axelsson og Steingrímur Sigurgeirsson.
    Vegna þingmannaráðstefnunnar um samstarf á Eystrasaltssvæðinu (sjá lið 4.1.2) ákvað Íslands­deild að ályktun sú, sem þar var samþykkt, yrði þýdd á íslensku. Hún fylgir skýrslu þessari sem fskj. II.
    Á fundi deildarinnar með fulltrúum Norræna félagsins og forstöðumanni Norræna hússins, Lars Åke Engblom, var rætt um þær tillögur sem liggja fyrir Norðurlandaráði og sem tengjast störfum Norræna félagsins og norrænu upplýsingaskrifstofanna. Ákveðið var að halda sameiginlega fundi tvisvar á ári og að senda allar tillögur sem lagðar eru fyrir Norðurlandaráð til umsagnar Norræna félagsins.
    Einnig var rætt um aðhaldsaðgerðir í starfsemi deildarinnar, aukið samstarf við íslenska stjórnar­menn norrænna stofnana og við fréttamenn.
    Í samræmi við samþykkt sem gerð var á 40. þingi ráðsins verður haldin fjölþjóðleg ráðstefna um samstarf og málefni heimskautssvæðisins dagana 16. og 17. ágúst 1993 í Reykjavík. Forsætisnefnd boðar til ráðstefnunnar en skipaði fimm manna undirnefnd til að sjá um undirbúninginn. Halldór Ásgrímsson situr í þeirri nefnd af hálfu Íslands. Skrifstofa Íslandsdeildar sér um framkvæmdina hér á landi. Boðið verður fulltrúum 12 þjóðþinga og búist er við 120 þátttakendum.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
4.1. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
    Í forsætisnefnd sitja nú 11 fulltrúar. Á 40. þingi ráðsins var finnski þingmaðurinn Ilkka Suominen kosinn forseti til eins árs. Af hálfu Íslands sitja þar Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haar­de. Forsætisnefnd hélt 11 fundi árið 1992. Auk þess hélt forsætisnefnd á árinu tvo fundi með forsæt­isráðherrum Norðurlanda og tvo fundi með samstarfsráðherrum landanna.
    Skipulagsmálin og þróun alþjóðlegra samskipta Norðurlandaráðs hafa einkennt störf forsætis­nefndar á árinu. Frá skipulagsmálunum er skýrt á víð og dreif í skýrslu þessari, en hér verður getið helstu alþjóðaráðstefna og funda sem Norðurlandaráð hefur staðið að eða sótt.

4.1.1.
    Í október 1992 var að tillögu menningarmálanefndar Norðurlandaráðs haldin alþjóðleg menningarráðstefna í Helsinki. Aðalefni ráðstefnunnar var norræn og evrópsk menning og einkenni. Þátttakendur voru 150 frá Norðurlöndunum og öðrum Evrópuríkjum. Það sem vakti mesta athygli fjölmiðla var að rithöfundurinn Salman Rushdie, sem var meðal þátttakenda, kom þar fram opinber­lega og ræddi um kjör rithöfunda almennt og um stöðu sína í ljósi yfirlýsinga Íransstjórnar í hans garð.
4.1.2.
    Norðurlandaráð stóð fyrir þingmannaráðstefnu um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu í Ósló 22.–24. apríl 1992. Ráðstefnuna, sem var önnur í röðinni, sóttu rúmlega 60 þingmenn frá 18 þjóðþingum og 12 alþjóðastofnunum.
    Á ráðstefnunni var m.a. rætt um flutning sovéskra hermanna frá Eystrasaltsríkjunum og viðkom­andi ríkisstjórnir hvattar til að vinna að lausn þeirra vandamála sem óleyst væru milli ríkjanna. Skip­uð var nefnd á ráðstefnunni til að semja ályktun sem ráðstefnan samþykkti. Geir H. Haarde gegndi formennsku í þeirri nefnd. Ályktunin fylgir skýrslu þessari sem fskj. II. Jafnframt var samþykkt verkefnaskrá fyrir ráðstefnurnar sem ákveðið var að halda árlega í einhverju þátttökuríkjanna. Ráð­stefnuna sóttu auk Geirs H. Haarde, Halldór Ásgrímsson, en þeir mættu f.h. forsætisnefndar Norð­urlandaráðs og Alþingis, og Hjörleifur Guttormsson f.h. efnahagsmálanefndar Norðurlandaráðs.
    Ákveðið var að þriðja ráðstefnan yrði haldin í Gdansk í júní 1993 og verður aðalefni hennar svæðisbundið samstarf og umhverfisvernd á Eystrasaltssvæðinu.

4.1.3.
     Ráð Eystrasaltsríkjanna hélt tvö þing á árinu, það fyrra í Riga í janúar og það síðara í maí í Palanga í Litáen. Fulltrúar frá Norðurlandaráði sátu þingin sem áheyrnarfulltrúar. Halldór Ásgrímsson sat þingið í Riga f.h. forsætisnefndar Norðurlandaráðs.
    Undirritaður var á þinginu í Riga samstarfssamningur milli Norðurlandaráðs og ráðs Eystra­saltsríkjanna þar sem Norðurlandaráð lofaði aðstoð við skipulagningu og þinghald Eystrasaltsríkja­ráðsins.
    Vinnuálag í þjóðþingum Eystrasaltsríkjanna hefur nokkuð hamlað starfsemi Eystrasaltsríkja­ráðsins en meginmál þinga þess hefur verið það sameiginlega hagsmunamál ríkjanna að stuðla að því að rússnesku hersveitirnar dragi sig til baka út úr ríkjunum.

4.1.4.
     Forseti Norðurlandaráðs, Ilkka Suominen, heimsótti forseta Evrópuþingsins, Egon Klepsch, í maí og ræddu þeir aukið samstarf Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins. Í mars 1993 er fyrirhugað­ur fundur milli forsætisnefndar með utanríkis- og öryggismálanefnd Evrópuþingsins.

4.1.5.
    Ákveðið var 1992 að veita þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Rússlandi styrki til kynnisferða til Norðurlanda til að kynnast framkvæmd þingræðis og lýðræðis þar og auka faglega þekkingu þingmanna. Ákveðið hefur verið að veita 15 þingmönnum styrki árið 1993 og heim­sækja níu þeirra Ísland. Sá fyrsti, pólski þingmaðurinn Feliks Pieczka, heimsótti Ísland í janúar 1993 og átti fundi með fulltrúum Íslandsdeildar, utanríkis- og umhverfisnefndar, umhverfisráð­herra, forstöðumanni Norrænu eldfjallastöðvarinnar og sérfræðingum á Hafrannsóknastofnun. Næstu þrír þingmenn, sem heimsóttu Ísland, voru lettnesku þingmennirnir Janis Krumins og Valdis Steins og eistneski þingmaðurinn Mart Nutt sem dvöldu á Íslandi 17.–20. febrúar sl. og áttu fundi m.a. með formanni og varaformanni Íslandsdeildar, formanni utanríkismálanefndar, formanni alls­herjarnefndar, seðlabankastjóra og borgarritara og fulltrúum borgarstjórnar Reykjavíkur.


4.1.6.
    Ákveðið var í samræmi við ákvörðun 40. þings ráðsins að boða til ráðstefnu sumarið 1993 um málefni og samvinnu á heimskautssvæðinu (sjá lið 3.2).

4.2 Laganefnd.
    Sænski þingmaðurinn Hans Nyhage var kosinn formaður nefndarinnar á 40. þingi ráðsins í mars 1992 en fram að þeim tíma var danski þingmaðurinn Helge Adam Møller formaður. Íslenski fulltrú­inn í nefndinni fram til loka 40. þings ráðsins í mars 1992 var Rannveig Guðmundsdóttir en þá tók Halldór Ásgrímsson þar sæti í stað Rannveigar.
    Laganefnd hélt sjö fundi á starfsárinu auk fundar með dómsmálaráðherrum og ráðherrum þeim sem fara með málefni flóttamanna, fundar með ráðherrum þeim sem fara með neytendamál og fund­ar með jafnréttisráðherrum landanna.
    Nefndin hafði m.a. til umfjöllunar á starfsárinu þingmannatillögu um reiknilíkan til að meta ólaunuð störf og voru tilmæli um þá tillögu samþykkt á 41. þing ráðsins í Árósum.
     Málefni flóttamanna voru til umræðu á fundi nefndarinnar með dómsmálaráðherrum. Nefndin og ráðherrarnir voru sammála um að auðveldara væri nú fyrir borgara þeirra ríkja sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og borgara Austur-Evrópu að komast til Norðurlanda og annarra ríkja Vestur-Evr­ópu. Því hefði fylgt aukning auðgunarbrota og fíkniefnasmygl. Þess vegna þyrfti að auka samstarf lögregluyfirvalda landanna og væri nú unnið að því. Dómsmálaráðherrar hafa hafið umræður um aðgerðir sem grípa gæti þurft til ef bylgja flóttamanna bærist til Norðurlanda, t.d. vegna borgara­styrjaldar eða hungursástands. Nefndin og ráðherrar voru sammála um að best væri að leitast við að koma í veg fyrir slíkt ástand og, ef það væri ómögulegt, að hjálpa nauðstöddum í heimalöndum þeirra.
    Nefndartillaga um stuðning við þróun á sviði löggjafar í Eystrasaltsríkjunum var samþykkt í nefndinni og á 40. þingi ráðsins í Helsinki. Nefndin hefur boðið fulltrúum frá Eystrasaltsríkjunum þremur til fundar til að ræða á hvern hátt Norðurlönd geti best aðstoðað þau á sviði stjórnskipunar og lagasetningar.
    Nefndin ræddi á árinu við formann embættismannanefndarinnar um neytendamál. Hann skýrði frá framtíðaráformum um samstarfið á sviði neytendamála, m.a. með tilliti til reglna og fyrirætlana Evrópubandalagsins. Á fundi nefndarinnar með neytendamálaráðherrunum var m.a. rætt um nor­ræna starfsáætlun um neytendamál en markmið hennar er m.a. það að hafa áhrif á þróun þeirra mála innan Evrópubandalagsins.
    Í janúar 1993 var haldinn fundur með ráðherrum þeim sem fara með jafnréttismál. Var þar rætt um samstarfsáætlunina um jafnréttismál og fyrirhugað FORUM norrænna kvenna í Åbo 1994.
    Nefndin fjallaði á árinu, eins og aðrar nefndir ráðsins, um skýrslu norrænu forsætisráðherranna um framtíð norræns samstarfs. Varðandi þau samstarfssvið, sem samkvæmt skýrslunni skyldu njóta forgangs, benti nefndin á að skipulag samgöngumála og rannsóknir væri eðlilegur hluti af efnahags­málasamstarfi, en það var eitt forgangssviðanna.
    Nefndin lagði áherslu á að Norðurlandaráð ætti að fá aukin áhrif á skiptingu norrænu fjárlag­anna.
    Til nefndarinnar verður vísað í febrúar þeim tillögum um breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem boðaðar hafa verið af forsætisráðherrum landanna.


4.3. Menningarmálanefnd.
    Á 40. þingi ráðsins í Helsinki var Rannveig Guðmundsdóttir kosin formaður í stað norska þing­mannsins Thea Knutzen.
    Menningarmálanefnd hélt átta fundi á starfsárinu auk tveggja funda með menningar- og mennta­málaráðherrum Norðurlanda og eins fundar með félagsmálanefnd ráðsins.
    Menningarmálanefnd skipaði á starfsárinu vinnuhóp til að fjalla um tillögur fyrri nefndar forsæt­isráðherranna um framtíðarskipan norræns samstarfs enda voru þar lagðar til umfangsmiklar breyt­ingar og aukning norræns menningar-, mennta- og rannsóknasamstarfs. Á grundvelli umfjöllunar vinnuhópsins lagði menningarmálanefnd á 41. þingi ráðsins áherslu á að eðlilegra væri að beina þeim fjármunum, sem nota ætti til að styrkja menningarsamstarfið, beint til þeirra verkefna og stofn­ana sem fyrir hendi væru en að stofna nýjan sjálfberandi sjóð. Yrði slíkur sjóður hins vegar stofnað­ur þyrfti að gæta þess að stjórn sjóðsins yrði þannig skipuð að nefndin ætti þar aðild og að sjóðurinn væri rekinn í nánu samstarfi við aðra starfsemi sem fyrir hendi er.
    Á þinginu í Árósum lagði seinni nefnd forsætisráðherranna fram sínar tillögur sem ekki voru í fullu samræmi við tillögur fyrri nefndarinnar og var þá ekki lengur á dagskrá stofnun nýs sjóðs held­ur lagt til að fjórðungur norrænu fjárlaganna 1994 rynni til menningar- og menntamála og rann­sókna og árið 1996 rynni helmingur þeirra til þessara málaflokka. Jafnframt lögðu ráðherrarnir á það áherslu að menningar- og menntamálaráðherrarnir undirbyggju í samráði við menningarmála­nefnd ráðherranefndartillögu um framtíðarskipan menningar-, mennta- og rannsóknasamstarfsins sem lögð yrði fyrir 42. þing ráðsins í Ósló 1993. Af því tilefni héldu formaður ráðherranefndarinnar um menningar- og menntamál, Åse Kleveland, og formaður menningarmálanefndar Norðurlanda­ráðs, Rannveig Guðmundsdóttir, fund í desember til að leggja grunninn að tillögugerðinni. Vinnu­hópur sá, sem menningarmálanefnd hafði skipað fyrr á árinu, fékk það hlutverk að vinna áfram að undirbúningnum af hálfu menningarmálanefndar og síðan héldu menningarmálanefnd og menning­ar- og menntamálaráðherrarnir fund um tillögugerðina í janúar. Varðandi efni ráðherranefndartil­lögunnar, sem liggur ekki enn þá fyrir í endanlegri mynd, leggur menningarmálanefnd áherslu á að NORDPLUS, Norræni menningarsjóðurinn, sem starfað hefur frá 1966, Kvikmyndasjóðurinn, Norðurlönd sem menningarlegur heimamarkaður og sjónvarpssamstarf verði svið sem fái forgang. Nefndin leggur og til að alþjóðlegt rannsóknasamstarf á Norðurlöndum verði samræmt og athugað verði hvort unnt sé að gera norræna samstarfsáætlun um rannsóknir á sviði hugvísinda (sjá og lið 4.4).
     Félagsmálanefnd Norðurlandaráðs bauð menningarmálanefnd til fundar í mars 1992 til að ræða málaflokka sem tengdust nefndunum báðum, svo sem menntun táknmálstúlka, menntun þroskaheftra og kennslu lesblindra.
    Dagana 12.–14. október var haldin menningarráðstefna á Hanaholmen í Finnlandi.
    Síðan árið 1991 hafa starfað á vegum menningarmálanefndar þrír vinnuhópar um tengslin við Evrópuþingið, tengslin við Evrópuráðið og tengslin við Eystrasaltsríkin.
    Vinnuhópurinn um tengslin við Evrópuþingið lagði fram skýrslu í september þar sem hópurinn kveður Maastricht-samkomulagið ekki hindra Norðurlönd í að halda stefnu sinni í menningarmál­um. Vinnuhópurinn um tengsl við Evrópuráðið kveður Evrópuráðið leggja í störfum sínum áherslu á sömu mál og Norðurlandaráð og leggur áherslu á mikilvægi þess að halda uppi sambandi, ekki síst óformlegu, og veita gagnkvæmar upplýsingar um störfin. Vinnuhópurinn um tengslin við Eystra­saltsríkin taldi mikilvægast að styrkja tengslin við þingmenn í Eystrasaltsríkjunum og koma á sam­starfsverkefnum í samvinnu við þá. Mikilvægustu sviðin voru talin vera menntun, nemenda- og kennaraskipti og fullorðinsfræðsla.
    Menningarmálanefnd fjallaði á árinu um ráðherranefndartillögu um samstarfsáætlun um fullorðinsfræðslu og lagði til að hún yrði samþykkt. Ráðið féllst á tillögu nefndarinnar á 40. þingi sínu.
    Nefndin fjallaði einnig um þingmannatillögu um aukið norrænt dagskrárefni í hljóð- og sjónvarpi og féllst 40. þing ráðsins á tillögu nefndarinnar um samþykkt. Hún fjallaði og um tillögur um samstarf um umferðarfræðslu, norræn sumarnámskeið í listvefnaði og norrænt samstarf félaga áhugaleikara sem allar voru samþykktar á 40. þingi ráðsins. Nefndin lagði fram nefndartillögu um hækkun verðlaunaupphæðar bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs upp í 200.000 danskar krónur og var sú tillaga samþykkt á 41. þing ráðsins.

4.4. Félagsmálanefnd.
    Sænski þingmaðurinn Lena Öhrsvik er formaður nefndarinnar og íslenski fulltrúinn þar fram til loka 40. þings ráðsins var Halldór Ásgrímsson, en þá tók Sigríður A. Þórðardóttir við sæti Hall­dórs.
    Nefndin hélt sjö reglulega fundi á starfsárinu, auk þriggja funda með félagsmálaráðherrum Norðurlanda og eins fundar með menningarmálanefnd og eins með umhverfisnefnd ráðsins. Nefnd­in hélt á árinu námsstefnu um atvinnuleysi og óheilbrigði og fund með sérfræðingum um norrænan vinnurétt og fjallaði sérstaklega um samnorrænar aðgerðir gegn neyslu áfengis. Vinnuhópur, sem nefndin skipaði, hélt í janúar 1993 fund með fulltrúum frá helstu heildarsamtökum fatlaðra á Norð­urlöndum. Á sumarfundi nefndarinnar var gefin skýrsla um ástandið á vinnumarkaðnum á Norðurlöndum. Þar kom fram að vorið 1992 var fjöldi atvinnulausra á Norðurlöndum nálægt 1 milljón manna eða 8% vinnufærra. Nefndin skrifaði af því tilefni bréf til forsætisnefndar þar sem bent var sérstaklega á hversu alvarlegt það væri að svo stór hluti atvinnulausra væri ungt fólk. Forsætisnefnd tók málið upp á fundi sínum með forsætisráðherrum í Árósum og ákvað að atvinnuleysi og afleið­ingar þess yrðu aðalefni 42. þings ráðsins í Ósló 1993.
    Á 40. þingi ráðsins í Helsinki voru samþykkt tilmæli frá félagsmálanefnd um ráðherranefndartil­lögu um byggingar- og húsnæðismál.
    Árið 1992 var unnið á vegum ráðherranefndarinnar að endurskoðun á þeirri áætlun sem legið hefur til grundvallar starfinu á sviði félags- og heilbrigðismála. Félagsmálanefnd hafði ætlað að leggja sjónarmið sín um drögin fram á þingi ráðsins í Árósum en þá var tilkynnt að endurskoðunar­starfinu hefði verið frestað þar til tekin hefði verið heildarákvörðun um framtíð samstarfsins. Nú mun endurskoðuninni hafa verið frestað um óákveðinn tíma og félagsmálanefnd telur það afar nei­kvætt fyrir framhald norræns samstarfs á þessu sviði.
     Stefnan í áfengismálum á Norðurlöndum hefur verið til umræðu á tveimur fundum nefndarinnar með ráðherranefndinni á árinu 1992. Nefndin telur rétt að Norðurlönd samþykki starfsáætlun um 25% minnkun á áfengisneyslu fram til ársins 2000 en ráðherranefndin hefur ekki orðið við þessu.
    Á fundum nefndarinnar með menningarmálanefnd og umhverfisnefnd var rætt um málefni sem heyra undir báðar nefndirnar. Samið var á báðum fundunum um að nefndirnar fylgdust í sameiningu með þeim málefnum sem heyra undir þær báðar.
    Að venju sótti formaður nefndarinnar hið árlega ILO-þing í Genf í júní.

    Í október héldu fulltrúar nefndarinnar fund með fulltrúum framkvæmdanefndar Evrópubandalagsins og starfsmönnum Evrópuþingsins í Brussel.
    Varðandi tillögur nefnda forsætisráðherranna um framtíð norræns samstarfs leggur félagsmála­nefnd áherslu á að til verkefna á sviði menningar, menntamála og rannsókna, sem eiga að njóta for­gangs, verði gerðar sömu gæðakröfur og til annarra samstarfsverkefna. Sú mikla áherslubreyting, sem lögð er til, getur haft í för með sér að starfsemi á öðrum mikilvægum sviðum, sem hefur gefið góða raun í mörg ár, verði lögð niður. Nefndin leggur áherslu á að áhrifin verði skoðuð vandlega áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar um að færa fjármuni frá mikilvægum forgangssviðum til menningarmálasviðsins.

4.5. Umhverfisnefnd.
    Á 40. þingi ráðsins var finnski þingmaðurinn Anneli Jäätteenmäki kosin formaður nefndarinnar í stað danska þingmannsins Dorte Bennedsen. Fulltrúi Íslands í nefndinni var Kristín Einarsdóttir. Nefndin hélt tíu fundi á árinu og var einn þeirra með sjávarútvegs- og umhverfisráðherrum Norður­landa, einn með umhverfisráðherrum einum sér, einn með samgönguráðherrum og þeim ráðherrum sem fara með umferðaröryggismál og einn með byggðamálaráðherrum.
    Af þeim þingmannatillögum, sem nefndin fjallaði um fyrir 40. þing ráðsins, lagði hún til að þrjár yrðu samþykktar. Það voru tillaga um samvinnu á norrænum landamærasvæðum, tillaga um sam­eiginlegan tíma í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og tillaga um framtíð Eystrasaltsins. Nefndin lagði einnig til að ráðherranefndartillaga um norræna samstarfsáætlun um sjávarútvegsmál yrði samþykkt. Þingið fór að tillögum nefndarinnar.
    Nefndin lagði til að 41. þing ráðsins samþykkti tillögur um alþjóðlegar hegðunarkröfur á sviði umhverfismála, um öryggi á sviði kjarnorkumála á norðurslóðum og takmarkanir á útflutningi úrgangs sem er hættulegur umhverfi. Hún lagði fram nefndartillögu um verndum friðaðra fuglategunda og lagði til að ráðherranefndartillaga um starfsáætlun um að gætur verði hafðar á að umhverfiskröfur séu virtar yrði samþykkt. Þingið fór að tillögum nefndarinnar.
    Á fundi nefndarinnar með sjávarútvegsráðherrum og umhverfisráðherrum var rætt um ráðherra­nefndartillöguna um nýja samstarfsáætlun á sviði sjávarútvegs, nýtingu auðlinda hafsins og hreinsun Eystrasaltsins.
    Á fundi nefndarinnar með samgönguráðherrum og ráðherrum þeim sem fara með umferðarör­yggismál var rætt um mengun frá umferð, fjárfestingar í samgöngukerfum, sameiginlega norræna stefnu í umhverfismálum og samstarfsáætlunina um umferðaröryggi.
    Á fundi nefndarinnar með byggðamálaráðherrum var rætt um áhrif stefnu Evrópubandalagsins í byggðamálum á stefnu Norðurlanda í byggðamálum.
    Á fundi nefndarinnar með umhverfisráðherrum var rætt um skipulag samstarfsins og um það hvernig ákveðnum samþykktum Ríó-ráðstefnunnar yrði fylgt eftir og um umhverfisvanda þann sem blasir við Norðurlöndum vegna mengunarinnar á Kolaskaga og í Eystrasalti.
    Vegna hugmynda forsætisráðherra landanna um að starfsemin á norrænum forgangssviðum verði fjármögnuð innan sama fjárlagaramma og með niðurskurði á öðrum sviðum hefur nefndin fjallað um framtíð starfsins á sínu sviði og komist að þeirri niðurstöðu að til þess geti komið að setja þurfi þá starfsemi aftast í forgangsröðina sem ljóst er að verði fjármögnuð áfram í löndunum ef nor­rænt fé fæst ekki. Umhverfisráðherrar hafa boðað að ekki verði framhald á starfinu samkvæmt gild­andi umhverfisáætlun. Í staðinn verði starfað eftir skammtímastarfsáætlunum sem taki örum breyt­ingum í samræmi við þarfir hvers tíma. Nefndin er sammála þessum breytingum en leggur áherslu á að opin umræða þurfi að fara fram milli ráðherra og nefndarinnar um stefnuna.

4.6. Efnahagsmálanefnd.
    Finnski þingmaðurinn Anneli Jäätteenmäki var formaður nefndarinnar þar til hún var kosin for­maður umhverfisnefndar en í mars 1992 var danski þingmaðurinn Helge Adam Møller kosinn for­maður. Fulltrúi Íslands í nefndinni var Hjörleifur Guttormsson.
    Nefndin hélt níu fundi á starfsárinu og var einn þeirra með fjármálaráðherrum Norðurlanda, einn með iðnaðar- og orkuráðherrunum og tveir með fulltrúum Eystrasaltsríkjaráðsins.
    Störf nefndarinnar mótuðust í aðdraganda 40. þings ráðsins öðru fremur af samrunaferlinu í Evrópu, EES-samningnum og því að Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Þessi mál mótuðu umræður nefndarinnar um ráðherranefndartillöguna um norrænt samstarf eftir 1992, þingmannatillöguna um Norðurlönd í nýrri Evrópu (sem lögð var fram af flokkahópi sósíaldemókrata), tillöguna um Norðurlönd í Evrópu (sem lögð var fram af flokkahópi hægri manna) og tillöguna um að norrænt samstarf skuli tengjast inn í Evrópubandalagið (sem lögð var fram af flokkahópi frjálslyndra). Á grundvelli tillagnanna fjögurra voru á 40. þingi ráðsins að tillögu meiri hluta nefndarinnar samþykkt ein tilmæli um Norðurlönd í nýrri Evrópu. Nefndin klofn­aði í málinu og voru því lögð fyrir þingið tvö minnihlutaálit frá fulltrúa vinstri sósíalista og fulltrúa frjálslyndra sem bæði voru felld, auk breytingartillögu frá fulltrúum sósíaldemókrata sem var sam­þykkt. Umræður um tillögurnar á þinginu báru það með sér að þær byggðu á mismunandi flokkspólitískri afstöðu til Evrópumálanna í heild. Um efni tilmælanna og minnihlutaálitanna, sem eru óvenju ítarleg, vísast til fskj. I. Eftir 40. þing ráðsins hafa Evrópumálin verið áfram á dagskrá nefndarinnar enda eru upplýsingar um stöðu landanna hvað þau varðar fastur liður á dagskrá nefnd­arinnar. Nefndin vinnur nú að áætlun um hvernig haga skuli alþjóðlegum samskiptum hennar m.a. við stofnanir Evrópubandalagsins, EES og EFTA, við Eystrasaltríkin og í heimskautamálefnum þannig að hún sinni sem best hlutverki sínu.
    Nefndin fjallaði um tvær þingmannatillögur frá þingmönnum vinstri sósíalista og var Hjörleifur Guttormsson fyrsti flutningsmaður annarrar þeirra. Tvö álit komu fram og að tillögu meiri hluta nefndarinnar samþykkti Norðurlandaráð að óska eftir því á 41. þingi ráðsins að ráðherranefndin legði fram sameiginlega umhverfis- og orkumálaskýrslu um það hvað liði framkvæmd markmiða þeirra sem sett hafa verið fram í orku- og umhverfismálum. Orkumál voru og á dagskrá á fundi nefndarinnar með orkumálaráðherrum landanna í tengslum við 41. þing ráðsins. Sérstaklega var fjallað um framtíð raforkusamstarfsins í ljósi þess að breytt hefur verið lögum um orkumál í Svíþjóð og Noregi. Nefndin hefur nú til umfjöllunar þingmannatillögu um framtíð NORDEL-samstarfsins.
    Auk áðurnefndra tillagna sem tengjast Norðurlöndum í nýrri Evrópu hafði nefndin tvær tillögur á dagskrá um iðnaðarsamstarf sem báðar voru samþykktar á 40. þingi ráðsins, aðra um aðgerðir til að stuðla að efnahagslegri nýsköpun og hina um að Norræni iðnþróunarsjóðurinn verði styrktur.
     Aðgerðir til styrktar Eystrasaltsríkjunum voru á dagskrá flestra funda nefndarinnar. Að ráði nefndarinnar samþykkti 40. þing ráðsins tillögu um fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin og að­gerðir ráðherranefndarinnar samkvæmt norrænu fjárfestingaráætluninni fyrir Eystrasaltsríkin hafa verið ræddar við ráðherrana. Nefndin hélt tvo fundi með efnahags- og félagsmálanefnd Eystrasalts­ríkjaráðsins og var þar rætt um þær hindranir sem væru í vegi fyrir stofnun fjárfestingarbanka fyrir Eystrasaltsríkin.
    Nefndin ræddi efnahags- og gengismál á fundi sínum með fjármálaráðherrunum í tengslum við 41. þing ráðsins þar sem ráðherrarnir lögðu fram skýrslu um stöðu efnahagsmála. Fjallað var þar um þörf þess að gripið yrði til samræmdra aðgerða til að örva efnahagslífið á alþjóðavettvangi í því skyni að vinna gegn atvinnuleysi og um þörf á sterkum bankastofnunum í löndunum.
    Nefndin lagði fyrir 41. þing ráðsins nefndarálit um þingmannatillögu um hagsmuni sama í tengslum við norrænt átak í ferðamálum og var tillagan samþykkt á þinginu.
    Á sviði þróunarmála fjallaði nefndin um þingmannatillögu sem gerð var samþykkt um á 41. þing ráðsins. Markmið tillögunnar var aukin samræming á norrænni þróunaraðstoð og aukið samstarf norrænna hjálparstöðva í þróunarlöndunum.

4.7. Fjárlaganefnd.
    Finnski þingmaðurinn Lauri Metsämäki var formaður nefndarinnar til loka 40. þings ráðsins, en þá tók norski þingmaðurinn Helga Haugen við formennsku nefndarinnar.
    Nefndin hélt tíu fundi á starfsárinu og var einn fundanna með fulltrúum annarra fastanefnda ráðsins og einn með samstarfsráðherrum landanna. Til fundar við nefndina hafa einnig komið starfsmenn ráðherranefndarskrifstofunnar og skýrt frá nýjum stjórnunaraðferðum sem verið er að prófa sig áfram með í fjármálastjórn norrænna verkefna.
    Nefndin fjallaði að venju um skýrslu ráðherranefndarinnar um starf liðins árs (C1/1992) og skýrslu ráðherranefndar um starfsáætlun næsta árs (C2/1992).
    Í nefndartillögu, sem samþykkt var á 40. þingi ráðsins, er gerð grein fyrir eftirlitsstörfum nefnd­arinnar á starfsárinu og fyrir þeim aðgerðum sem hún leggur til á grundvelli niðurstaðna sinna.
    Aðalstarf nefndarinnar er umfjöllun um norrænu fjárlögin. Sameiginleg niðurstaða hennar og hinna fastanefndanna er að norræn fjárlög ársins 1993 (að upphæð 650 millj. danskra króna) séu í raun lægri en fjárlög fyrra árs gagnstætt staðhæfingu ráðherranefndarinnar um að fjárlögin séu jafn­há fyrri fjárlögum. Nefndin átaldi að ekki skyldi í neinu hafa verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem hún hafði sett fram um fjárlagadrögin og íhugaði því alvarlega að ráðleggja 41. þinginu að sam­þykkja ekki fjárlögin heldur vísa þeim til baka. Frá því var þó horfið af hagkvæmnisástæðum.
    Nefndin fjallaði auk norrænu fjárlaganna um bókhaldsuppgjör ársins 1991 en óráðstafaðir fjár­munir þess árs reyndust við árslok vera 27,4 millj. danskra króna. Ráðherranefndin hafði ákveðið að nota þá fjármuni til verkefna til styrktar Eystrasaltsríkjunum, NORDPLUS-styrkja, verkefna á sviði sjávarútvegs og til aukningar á stofnfé iðnþróunarsjóðsins. Nefndin var sammála ráðherra­nefndinni um þessa ákvörðun.
    Á árinu 1992 lét nefndin gera úttekt á norrænu rannsóknasamstarfi á sviði landbúnaðar og skógræktar en hefur við gerð skýrslu þessarar ekki lokið umfjöllun sinni um málið.

5. Störf norrænu flokkahópanna.
5.1. Flokkahópur hægri manna.
    Fulltrúar í flokkahópi hægri manna voru við áramót 1992–1993 nítján talsins og flokkar þeir, sem þar áttu fulltrúa, voru sjö. Hópurinn hittist í heild í tengslum við janúarfundi nefnda ráðsins og 40. og 41. þing ráðsins. Auk þess hittast fulltrúar hópsins í tengslum við nefndarfundi. Jan P. Syse, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, tók við formennsku á 40. þingi ráðsins í Helsinki af Ilkka Suominen, forseta finnska þingsins.
    Í tengslum við janúarfundi ráðsins 1992 hélt hópurinn námsstefnu um EES og Evrópubandalagið. Í tengslum við 41. þing ráðsins í Árósum hélt hópurinn námsstefnu um áhrif niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Danmörku á Maastricht-samkomulagið.
    Auk Evrópumálanna hafa málefni Eystrasaltsríkjanna verið ofarlega á baugi og hópurinn hélt ráðstefnu í Riga að loknu 40. þingi ráðsins undir yfirskriftinni „Post Socialist Northern Europe“ með þátttöku u.þ.b. 40 þingmanna frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Geir H. Haarde og Sturla Böðvarsson sóttu þá ráðstefnu. Í samvinnu við Konrad Adenauer stofnunina hélt hópurinn í nóvember námsstefnu í Rostock, m.a. um málefni Eystrasaltsríkjanna, með tæplega 50 þátttakend­um. Þá ráðstefnu sóttu Árni Johnsen og Einar K. Guðfinnsson.

5.2. Flokkahópur miðjumanna.
    Fulltrúar í flokkahópi miðjumanna voru um áramót 1992–1993 tuttugu og þrír talsins og flokkar þeir, sem þar áttu fulltrúa, sautján. Formaður hópsins var finnski þingmaðurinn Anneli Jäätteenmäki. Hópurinn hélt ráðstefnu í tengslum við 41. þing ráðsins í Árósum um Norðurlönd í Evrópu, svæðisbundið samstarf í Evrópu og menningarmál á Norðurlöndum. Ráðstefnuna sátu auk fulltrúanna í flokkahópnum fulltrúar ungliðahreyfinga og kvennasamtaka miðflokkanna á Norður­löndum og fulltrúar miðjuflokka í Eystrasaltsríkjunum.
    Fulltrúar hópsins heimsóttu St. Pétursborg í janúar 1993 og var þar lagður grunnur að frekara samstarfi við stjórnmálaflokka þar.
    Hópurinn gerði þrjár samþykktir á starfsárinu: þá fyrstu í janúar 1992 um samstarf Norðurlanda við Eystrasaltsríkin, aðra í febrúar um samstarf á heimskautssvæðinu og um að halda norræna heim­skautsráðstefnu og þá þriðju um nýsköpun í norrænu samstarfi.
    Í tilefni samþykktarinnar um samstarf á heimsskautssvæðinu lagði Halldór Ásgrímsson f.h. flokkahópsins fram á 40. þingi ráðsins þingmannatillögu um samstarf á heimskautssvæðinu sem var samþykkt þar. Auk þess sem samþykkt var að halda heimskautsráðstefnu 1993 (sjá lið 3.2) var mælst til þess við ráðherranefndina að hún hefði frumkvæði að víðtæku samstarfi norrænu ríkis­stjórnanna um málefni heimskautssvæðisins.

5.3. Flokkahópur sosíaldemókrata.
    Fulltrúar í flokkahópi sosíaldemókrata voru við áramót 1992–1993 þrjátíu og tveir talsins og þeir flokkar sem þar eiga fulltrúa sjö. Norski þingmaðurinn Kristi Kolle Grøndahl tók í tengslum við 40. þing ráðsins við formennsku af finnsku þingmanninum Mats Nyby.
    Hópurinn hélt fimm fundi á árinu, vinnuhópur flokkahópsins átta fundi og þeir fulltrúar, sem set­ið hafa saman í nefnd, hafa haldið samráðsfundi um mikilvæg málefni.
    Hópurinn lagði á starfsárinu megináherslu á mótun framtíðar norræns samstarfs og lagði sjónarmið sín fram í formi þingmannatillögu. Hópurinn stofnaði einnig á árinu starfshóp til að gera tillögu um samstarf á sviði orkumála og lagði fram tvær þingmannatillögur á grundvelli þess starfs, aðra um framtíð NORDEL-samstarfsins og hina um aðgerðir gegn hættu þeirri sem stafar frá kjarnorkuverunum í Sosnovy Bor við St. Pétursborg og í Ignalina í Litáen.
    Hópurinn stóð einnig að þingmannatillögu um viðbót við norræna samninginn um vinnuvernd sem samþykktur var á 40. þingi ráðsins.

    Á 41. þing ráðsins í Árósum var samþykkt þingmannatillaga frá hópnum um öryggi á sviði kjarnorkumála á norðurslóðum.

5.4. Flokkahópur Vinstri sósíalísta.
    Í flokkahópi Vinstri sósíalista voru um áramót 1992–1993 sex fulltrúar og voru þeir fulltrúar fyrir fimm flokka.
    Í tengslum við 40. þing ráðsins varð norski þingmaðurinn Kjellbjörg Lunde formaður hópsins.
    Flokkahópurinn er á móti aðild Norðurlanda að EES og fleiri Norðurlanda að Evrópubandalag­inu. Fulltrúar hópsins hafa því á þingum ráðsins fært rök fyrir því að samningurinn hindri jákvæða þróun og þá styrkingu norræns samstarfs sem hópurinn æskir.
    Hópurinn leggur áherslu á að styrkja beri norrænt samstarf um utanríkis- og varnarmál, umhverfismál og velferðarmál í ljósi þeirrar hættu sem er á að Evrópusamstarfið leiði til þess að þeim félagslega verst settu verði minna sinnt. Hópurinn leggur og áherslu á að styrkja beri samstarf Evrópuríkja í heild og samstarf Norðurlanda við Austur-Evrópu, ekki síst við Eystrasaltsríkin.
    Hópurinn lagði fram þrjár þingmannatillögur á síðasta ári: um aðgerðir til hjálpar þeim þjóðfé­lagshópum sem eru félagslega illa settir, sem Hjörleifur Guttormsson var fyrsti flutningsmaður að, um hækkað hitastig á jörðinni og tækni til bættrar orkunýtingar og endurnýtanlega orkugjafa og þá þriðju um sjálfbæra skipulagningu orkumála á Norðurlöndum og um norrænar aðgerðir til að nýta betur orkulindir. Fyrsta tillagan var samþykkt á 41. þingi ráðsins en efnahagsmálanefnd klofnaði í afstöðu sinni til hinna tveggja og greiddu fulltrúar vinstri sósíalista atkvæði með minnihlutatillögu Hjörleifs Guttormssonar sem 41. þingið felldi.

5.5. Flokkahópur frjálslyndra.
    Í flokkahópi frjálslyndra sitja fjórir fulltrúar, þrír frá Framfaraflokknum í Danmörku og einn frá Framfaraflokknum í Noregi. Formaður var norski þingmaðurinn Carl I. Hagen og varaformaður danski þingmaðurinn Pia Kjærsgaard.
    Hópurinn hélt átta fundi á starfsárinu í tengslum við þing og nefndafundi ráðsins. Hópurinn lagði til á 40. þingi ráðsins í Helsinki að Norðurlandaráð verði lagt niður fyrir árið 1996 og að ráðherra­nefndin haldi áfram að vinna að því að fella norrænt samstarf inn í störf Evrópubandalagsins. Hóp­urinn styður þau markmið að forsætisráðherrar Norðurlanda taki virkari þátt í norrænu samstarfi því það muni gera störf þess markvissari en telur óþarfa að hafa norræna samstarfsráðherra. Hópur­inn telur að gera eigi formenn nefnda Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar virkari því það muni auka pólitíska ábyrgð þeirra í störfum. Hópurinn telur landsdeildarskrifstofur ráðsins kostnað­arsamar stofnanir sem kanna beri hvort unnt sé að leggja niður.

Alþingi, 25. febr. 1993.



    Halldór Ásgrímsson,     Geir H. Haarde,     Rannveig Guðmundsdóttir.
    form.     varaform.     

    Hjörleifur Guttormsson.     Árni M. Mathiesen.     Sigríður A. Þórðardóttir.

Kristín Einarsdóttir.



Fylgiskjal I.


Tilmæli sem samþykkt voru á 40. þingi


Norðurlandaráðs í Helsinki 1992.



Samþykkt nr. 1/1992 um aðgerðir gegn flogaveiki. (Félagsmálanefnd.)
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún beiti áhrifum sínum til að auka norrænar rannsóknir og upplýsingaflæði um lyf og meðferð ásamt því að auka þekkingu almennings á flogaveiki,
—    að hún láti kanna forsendur þess að almenningi verði kynnt meðferð og hjúkrun flogaveikra.

Samþykkt nr. 2/1992 um hækkun á stofnfé Norræna fjárfestingarbankans. (Efnahagsmálanefnd.)
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún samþykki, svo skjótt sem verða má, ráðherranefndartillögu B122/e um hækkun á stofnfé Norræna fjárfestingarbankans um 800 millj. SDR þannig að það verði 2.400 millj. SDR og að hækkunin taki gildi 1. apríl 1993.

Tilmæli nr. 3/1992 um viðbót við norræna samninginn um vinnuvernd. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda stuðli að því að bætt verði við norræna samninginn um vinnuvernd ákvæðum um framhaldsmenntun, hæfniþróun og þátttöku starfsmanna á öllum sviðum í ákvarðanatöku.

Tilmæli nr. 4/1992 um bættar tölfræðiupplýsingar um vinnuvernd á Norðurlöndum. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda láti sem lið í samstarfsáætluninni um vinnuvernd safna norrænum tölfræðiupplýsingum um m.a. vinnuskaða, sjúkraskráningar, hversu algengt sé að fólk fari á eftirlaun fyrir eftirlaunaaldur og
 —    að þessar upplýsingar verði notaðar sem grundvöllur sameiginlegra norrænna aðgerða.

Tilmæli nr. 5/1992 um eftirlaun sjómanna. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að í tengslum við undirbúning að nýjum samningi um félagsleg réttindi og með tilliti til EES-samningsins láti ráðherranefnd Norðurlanda gera könnun á því hvaða mismunur er á þeim reglum sem gilda um eftirlaun sjómanna eftir því hvort þeir starfa í heimalandi sínu eða öðru norrænu landi,
—    að ráðherranefnd Norðurlanda geri að könnuninni lokinni ráðstafanir til að norrænir sjómenn verði jafnsettir með tilliti til eftirlauna, hvort sem þeir búa í heimalandi eða öðru norrænu landi.


Tilmæli nr. 6/1992 um samstarfsáætlun um byggingar- og húsnæðismál. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að samþykkt verði ný norræn samstarfsáætlun um byggingar- og húsnæðismál fyrir tímabilið 1992–1996 og að í henni verði tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem félagsmálanefnd hefur sett fram.

Tilmæli nr. 7/1992 um norræna ferðaþjónustu fatlaðra. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að bætt verði inn í samning þann um félagslega þjónustu, sem verið er að vinna að, ákvæðum um að skírteini, sem veita fötluðum rétt á ferðaþjónustu, gildi alls staðar á Norðurlöndum.

Tilmæli nr. 8/1992 um samninga milli sveitarfélaga beggja vegna norrænna landamæra um ferðaþjónustu fatlaðra. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir norrænu landanna
—    að þær stuðli að því að sveitarfélög beggja vegna norrænna landamæra semji sín á milli um að réttur fatlaðra á ferðaþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi taki til ferða til sveitarfélaga handan landamæranna.

Tilmæli nr. 9/1992 um að samgöngutæki í milliríkjasamgöngum verði gerð aðgengileg fyrir fatlaða. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda
—    að samgöngutæki í millilandasamgöngum verði gerð aðgengileg fyrir fatlaða.

Tilmæli nr. 10/1992 um norrænt samstarf við Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópu á sviði heilbrigðis- og heilsuverndar. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að forsendur og fjármögnunarmöguleikar samstarfs við Eystrasaltsríkin á sviði heilbrigðis- og heilsuverndar verði könnuð.

Tilmæli nr. 11/1992 um réttindi Norðurlandabúa á Norðurlöndum. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að í tengslum við framkvæmd nýja samningsins um félagslegt öryggi og EES-samningsins verði teknar til umræðu þær tillögur sem settar voru fram í tilmælum nr. 33/1990 frá Norðurlandaráði um samstarfsáætlun um réttindi Norðurlandabúa á Norðurlöndum,
—    að jafnframt verði kannaðir möguleikar þess að auðvelda samstarf yfir landamærin og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem enn þá eru fyrir samstarfi og samskiptum yfir landamærin.

Tilmæli nr. 12/1992 um norræna kennsluáætlun um þróun félagslegrar þjónustu. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að samþykkt verði norræn kennsluáætlun um þróun á sviði félagslegrar þjónustu í samræmi við ráðherranefndartillögu B125/s og með tilliti til þeirra sjónarmiða sem félagsmálanefnd setti fram.
Tilmæli nr. 13/1992 um nýjan norrænan samning um félagslegt öryggi. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að samþykkja framlagða tillögu um nýjan norrænan samning um félagslegt öryggi og að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem félagsmálanefnd Norðurlandaráðs hefur sett fram,
—    að drög að norrænum samningi um félagslega aðstoð og þjónustu verði lagður fyrir Norðurlandaráð í formi ráðherranefndartillögu og að í þeim drögum verði tekið tillit til tillagna félags­málanefndar Norðurlandaráðs um ferðaþjónustu fatlaðra og réttindi Norðurlandabúa á Norður­löndum eftir því sem við á.

Tilmæli nr. 14/1992 um að Norræni iðnþróunarsjóðurinn verði styrktur. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að styrkja stöðu Norræna fjárfestingarbankans og auka þá starfsemi hans sem er til þess fallin að stuðla að auknu efnahagssamstarfi á Norðurlöndum.

Tilmæli nr. 15/1992 um fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda geri áætlun um tæknilegan og fjárhagslegan stuðning og um fjármögnun fjárfestinga í Eystrasaltsríkjunum og hagi því þannig að þær stofnanir, sem taka þátt, njóti jafnréttis og að starfsemin geti hafist í síðasta lagi 1. júní 1992.

Tilmæli nr. 16/1992 um aðgerðir til að stuðla að efnahagslegri nýsköpun. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að láta fara fram könnun og mat á aðgerðum til að örva uppfinningar og nýsköpun í atvinnulífi á Norðurlöndum.

Tilmæli nr. 17/1992 um aukningu stofnfjár Norræna þróunarsjóðsins. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda og ríkisstjórnir Norðurlanda
—    að samþykkja ráðherranefndartillögu B127/e um að halda áfram starfsemi Norræna þróunarsjóðsins ótímabundið og að auka stofnfé hans um 150 millj. SDR þannig að tillit verði tekið til sjónarmiða efnahagsmálanefndar Norðurlandaráðs og þannig að möguleikum þess að auka enn frekar stofnféð að lokinni þeirri úttekt, sem fara á fram 1995, verði haldið opnum.

Tilmæli nr. 18/1992 um sameiginlega norræna löggjöf um barnavernd. (Laganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda láti kanna möguleika á sameiginlegri norrænni löggjöf um vernd barna gegn misþyrmingum og ofbeldi.


Tilmæli nr. 19/1992 um samnorræna sérfræðimenntun á sviði barnaumönnunar. (Laganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda komi á samnorrænni sérfræðimenntun í formi framhaldsmenntunar á sviði barnaumönnunar.

Tilmæli nr. 20/1992 um þróun löggjafar í Eystrasaltsríkjunum. (Laganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess að ráðherranefnd Norðurlanda
—    aðstoði Eystrasaltsríkin við gerð áætlunar um samstarf þeirra um löggjafarmál í samvinnu við Norðurlandaráð,
—    veiti Eystrasaltsríkjunum sérfræðiaðstoð um afmörkuð löggjafarmálefni,
—    aðstoði Eystrasaltsríkin við að fá vísindarit og greinar um lagaleg málefni eftir þörfum,
—    kanni möguleika þess að stofnuð verði sameiginleg rannsóknamiðstöð fyrir Eystrasaltsríkin á sviði mannréttindamála,
—    að við ofannefndar aðgerðir verði tekið tillit til þess sem aðrir aðilar, bæði einstök norræn ríki og fjölþjóðleg samtök t.d. Evrópuráðið, eru að gera á ofangreindum sviðum.

Tilmæli nr. 21/1992 um samvinnu á norrænum landamærasvæðum. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að samnorrænar aðgerðir, sem kostaðar eru af norrænu fjárlögunum til styrktar norrænni samvinnu á landamærasvæðunum, verði ekki dregnar saman,
—    að hækkun á norrænu fjárlögunum verði m.a. notuð til fjármögnunar á þróun norrænnar samvinnu á landamærasvæðunum.

Tilmæli nr. 22/1992 um sameiginlegan tíma í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda kanni kosti og galla þess að innleiða sameiginlegan tíma fyrir Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð.

Tilmæli nr. 23/1992 um norræna samstarfsáætlun um sjávarútvegsmál. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að samþykkja norræna áætlun um samstarf á sviði sjávarútvegs og fiskveiða í samræmi við ráðherranefndartillögu B126/m og sjónarmið Norðurlandaráðs,
—    að ráðherranefnd Norðurlanda gefi árlega skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar í ársskýrslu sinni.

Tilmæli nr. 24/1992 um samstarf um umferðarfræðslu. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda láti útbúa til dreifingar og notkunar í skólum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga upplýsingaefni þar sem gerð er grein fyrir gildandi reglum á Norðurlöndum um umferðarfræðslu í því skyni að miðla reynslu milli norrænu landanna.

Tilmæli nr. 25/1992 um norræn sumarnámskeið í listvefnaði. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda láti kanna möguleika þess að haldin verði norræn sumarnámskeið fyrir veflistamenn.

Tilmæli nr. 26/1992 um norrænt samstarf félaga áhugaleikara. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að styðja þær áætlanir sem lagðar eru fram í tillögunni og taka jafnframt tillit til eftirgreindra sjónarmiða nefndarinnar:
    1.    menningarmálanefnd styður þingmannatillöguna sem hefur það markmið að auka möguleika ófélagsbundinna áhugamannahópa á þátttöku í norrænu menningarsamstarfi,
    2.    menningarmálanefnd leggur til að verkefnið verði styrkt í þrjú ár og vekur athygli á að búist er við að verkefnið verði fjárhagslega sjálfbært að þeim tíma liðnum,
    3.    menningarmálanefnd leggur áherslu á mikilvægi náins samstarfs við þau áhugamannasamtök sem eiga aðild að Norræna áhugamannaleikhúsráðinu.

Tilmæli nr. 27/1992 um aukið norrænt dagskrárefni í hljóðvarpi og sjónvarpi á Norðurlöndum. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að taka eins skjótt og auðið er ákvörðun um aukin skipti á norrænu hljóðvarps- og sjónvarpsefni. Í því sambandi er rétt að kanna þýðingu þess hve evrópskir sjónvarpshnettir eru orðnir öflugir.

Tilmæli nr. 28/1992 um starfsáætlun um fullorðinsfræðslu VOKS FREM (1992–1996). (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess
—    að ráðherranefnd Norðurlanda samþykki norræna starfsáætlun um aukna fullorðinsfræðslu, VOKS FREM (1992–1996), í samræmi við ráðherranefndartillögu B124/k og með tilliti til sjónarmiða menningarmálanefndar.

Tilmæli nr. 29/1992 um eftirlitsstörf fjárlaganefndar. (Fjárlaganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún taki í störfum sínum tillit til þeirra sjónarmiða sem fjárlaganefnd setti fram í yfirliti um eftirlitsstörf sín árið 1991 og gefi skýrslu til fjárlaganefndar um hvaða aðgerðir hafi af því leitt,
—    að hún hafi eftirfarandi í huga við mat á BRYT-verkefninu:
        —    Meiri áhersla verði lögð á undirbúning norrænna samstarfsverkefna og að markmið, forgangsröðun og fjárhagsleg og pólítísk ábyrgð verði skilgreind. Forkönnun fari fram áður en ákvörðun er tekin um viðameiri norræn samstarfsverkefni.
        —    Tillit verði tekið til mikilvægis þess að ráðnir séu hæfir og áhugasamir verkefnisstjórar og reynt að koma á þjálfun í einhverju formi í norrænni verkefnisstjórn.
        —    Að eftirgreindar ráðstafanir verði gerðar í tengslum við könnun á því hvað felist í ábyrgð vinnuveitanda:
                       Kannað verði hvort í vinnuveitandaábyrgð felist það sama alls staðar á Norðurlöndum, hvort inntak ábyrgðarinnar sé lögfest eða samningsbundið og hvort sú lögfesting eða samn­ingsbinding á vinnuveitendaábyrgð taki til norrænna stofnana.
                      Gerð verði sérstök könnun á ráðningasamningum og réttarstöðu starfsmanna norrænna stofnana.

Tilmæli nr. 30/1992 um sameiginlega sendifulltrúa norrænu ríkjanna í vissum nýstofnuðum ríkjum. (Forsætisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir norrænu ríkjanna
—    að þær vinni að aukinni samræmingu varðandi sendifulltrúa sína í vissum nýstofnuðum ríkjum.

Tilmæli nr. 31/1992 um samstarf á heimskautasvæðinu. (Forsætisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún hafi frumkvæði um víðtækt samstarf norrænu ríkisstjórnanna um málefni heimskautasvæðisins.

Tilmæli nr. 32/1992 um Norðurlönd í nýrri Evrópu. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda og ríkisstjórnir norrænu ríkjanna
Norðurlönd í Evrópu
—    að þau kanni möguleika og afleiðingar þess fyrir norrænt samstarf að öll eða flest Norðurlönd gangi í EB,
—    að þau með endurskoðun á Helsinki-samningnum í þeim samningum um aðild að EB, sem standa fyrir dyrum, og í tvíhliða samningum landanna við EB móti skýra stefnu um hvernig sam­ræming á svæðisbundnu samstarfi Norðurlanda við þá samrunaþróun, sem á sér stað í Evrópu, geti orðið á þann veg að tryggðir séu möguleikar ákveðinnar og metnaðarfullrar þróunar svæðis­bundins norræns samstarfs,
—    að þau vinni að samræmingu evrópskra reglna um stefnu í vinnumarkaðsmálum í því skyni að full atvinna sé tryggð og umhverfissjónarmiða, öryggis á vinnustöðum, jafnréttissjónarmiða og félagslegs öryggis sé gætt,
—    að þau vinni að því að auka á evrópskum vettvangi skilning á og stuðning við norrænar hugmyndir um markmið í þjóðfélagsmálum (den nordiske samfundsmodel) m.a. markmiðið um fulla atvinnu, jafnrétti, umbætur á umhverfissviði og varðandi vinnuumhverfi, félagslegt jafn­rétti og velferð í þeim tilgangi að unnið verði að samræmingu sameiginlegra evrópskra reglna um þessi mál,
—    að þau láti fara fram athugun á því hvernig best verði staðið að upplýsinga- og kynningarstarfinu í Brussel t.d. með stofnun norrænnar upplýsingaskrifstofu,
—    að þau efli samstarfið um utanríkismál á þeim sviðum þar sem hagsmunir falla saman innan ramma hins formlega norræna samstarfs,
—    að þau hafi samstarf í utanríkismálum um sameiginlega afstöðu í Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðastofnunum sérstaklega á sviði þróunar- og umhverfismála.
Samstarf Norðurlanda innbyrðis
—    að þau geri að forgangsverkefni að tryggja fulla atvinnu,
—    að þau veiti eftirleiðis sem hingað til norrænu samstarfi á sviði menningar- og menntunarmála, rannsókna, umhverfismála, jafnréttismála, neytendamála og félagsmála forgang,
—    að þau vinni að norrænni samstarfsáætlun um atvinnumál sem sé m.a. til þess fallin að samræma og styrkja aðgerðir í atvinnumálum, innra skipulag, samgöngur og upplýsingastreymi á Norður­löndum og hafi það að markmiði að styrkja efnahag og atvinnuástand á Norðurlöndum,
—    að þau auki samstarf sitt um „frelsin fjögur“ í því skyni að Norðurlönd verði án landamæra innan ramma EES-samningsins og síðar EB-samningsins hvað varðar öll eða flest norrænu ríkin,
—    að farið verði með náttúruauðlindirnar í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun.
Eystrasaltið — Eystrasaltsríkin
—    að þau þrói samstarfið á Eystrasaltssvæðinu og Norðurkollusvæðinu og leggi aðaláherslu á umhverfismál, sjálfbæra þróun og aðgerðir í atvinnumálum þannig að þetta samstarf verði hluti af víðtæku norðurevrópsku samstarfssvæði.
Breytingar á skipulagi norræns samstarfs
—    að auka þingleg áhrif hins norræna samstarfs með skýrari pólitískri stefnumörkun, breytingum á skipulagi starfs Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar og með því að ráðherranefndin skipuleggi samstarfið þannig að ráðið fái áhrif á ákvarðanatökuna,
—    að þau hafi frumkvæði um breytingar á Helsinki-samningum í ljósi samrunaþróunarinnar í Evrópu og nauðsynjar þess að styrkja og lífga norrænt samstarf og að þau hafi í því starfi að leiðar­ljósi að gera aðalmarkmiðin ljósari, styrkja stofnanirnar og að skapa umgjörð um framsæknara norrænt samstarf en raun hefur verið undanfarið,
—    að þau, vegna þeirra markmiða og verkefna sem ákveðin hafa verið, undirbúi breytingar á skipulagi stofnana hins norræna samstarfs,
—    að þau í tengslum við þetta og í samráði við Norðurlandaráð hugleiði mögulegar breytingar á skipulagi samstarfsins þar á meðal að halda fleiri en styttri árleg þing; að formennsku í ráðherra­nefnd fylgi aukin völd; að skipt verði um formann á hálfs árs fresti; að norrænt flokkspólitískt samstarf flokka með samsvarandi markmið verði styrkt; að stjórnmálamenn, sem sinna Evrópu­málum, skuli sitja í Norðurlandaráði; að Norðurlandaráð fái meiri áhrif á norrænu fjárlögin og að undirbúin verði eins skynsamleg samræming á störfum skrifstofa Norðurlandaráðs og nor­rænu ráðherranefndarinnar og unnt er,
—    að hagsmuna Vestur-Norðurlanda verði gætt við endurskoðun á skipulagi samstarfsins.
Framhald starfsins
—    að ráðherranefndin breyti og þrói drögin að áætlun í samræmi við tillögur ráðsins og í ljósi hugmynda forsætisráðherranna.

    Lögð voru fyrir þingið til atkvæða þrjú minnihlutaálit. Minnihlutaálit nr. 1 frá sósíaldemókrötum í efnahagsmálanefnd var samþykkt og fellt inn í tilmæli þau sem samþykkt voru (sjá fjórða lið tilmælanna hér að framan).

    Minnihlutaálit nr. 2
frá fulltrúa flokkahóps frjálslyndra í efnahagsmálanefnd, Carl I. Hagen, var fellt. Það er svohljóðandi:
    Minni hlutinn mælist til þess við Norðurlandaráð
    —    að starfsemi Norðurlandaráðs verði lögð niður fyrir árið 1996. Ráðið biður forsætisnefnd og skrifstofu forsætisnefndar að undirbúa áætlun um framkvæmdina sem lögð verði fyrir 41. þing ráðsins.
    —    Minni hlutinn mælist og til að ráðið samþykki að leggja til við ráðherranefnd Norðurlanda að hún haldi áfram að vinna að því að norrænt samstarf renni saman við samstarfið í Evrópubandalaginu.

    Minnihlutaálit nr. 3 frá fulltrúa flokkahóps vinstri sósíalista í efnahagsmálanefnd, Hjörleifi Guttormssyni, var fellt. Það er svohljóðandi:
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda og ríkisstjórnir Norðurlanda
     1 .     Að þær leggi áherslu á að styrkja norrænt samstarf án tillits til tengingar landanna við EB. Það getur ekki verið hlutverk Norðurlandaráðs að fella störf sín í aðalatriðum að Evrópubandalag­inu eða minnka hlutverk sitt í að verða norrænt útibú í Brussel.
     2 .     Að þær veiti eftirgreindum samstarfssviðum forgang innan vettvangs norræns samstarfs
        —    menningarmálum
         —    umhverfismálum
         —    atvinnumálum
         —    málefnum er varða réttindi norrænna borgara
         —    málefnum varðandi Evrópustefnu.
     3 .     Að þær auki áhrif þingmanna á norrænt samstarf með því að setja sér skýrari norræn pólitísk markmið. Ráðherranefndinni ber að skipuleggja samstarfið þannig að Norðurlandaráð fái raunveruleg áhrif á ákvarðanatökuna.
     4 .     Að þær geri norrænar samstarfsáætlanir á ýmsum pólitískt mikilvægum sviðum, m.a. atvinnumálasviði, varðandi innra skipulag samgöngumála, heilbrigðis- og félagsmálasviði og um samstarf við Eystrasaltsríkin og svæðin á Kolaskaga.
     5 .     Að þær styrki utanríkismálasamstarfið þar sem hagsmunir eru sameiginlegir.
     6 .     Að þær komi á þeirri skipan að ráðherranefndin safni stefnuáætlunum sínum í eitt skjal, t.d. C2-skjalið, til að auðvelda yfirsýn og setja pólitíska umræðu um þróun norræns samstarfs í brennidepil.
     7 .     Að þær kanni áhrif þess fyrir norrænt samstarf að fleiri norræn lönd gerist aðilar að EB en önnur standi samt utan við.
     8 .     Sem afleiðing þess að norrænt samstarf verði styrkt þarf að hækka fjárveitingar til samstarfsins á næstu árum og ráðið á að vinna að því að ábyrgð þess á fjárlagagerðinni aukist.

Yfirlýsingar Norðurlandaráðs.
1.    Yfirlýsing Norðurlandaráðs um ársskýrslu ráðherranefndar Norðurlanda um norrænt samstarf liðins árs (C1). (Fjárlaganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún veiti því athygli að þegar samstarfsáætluninni um efnahagsmál lýkur getur orðið erfiðleikum bundið að fjármagna jafnvel starfsemi sem nýtur forgangs, t.d. umhverfissamstarf við Austur-Evrópu, samstarf um atvinnumál og hluta starfsins að samræmingu staðla,
—    að hún hugleiði vel bæði fjárhagslegar og starfslegar afleiðingar þess að flytja frá skrifstofu ráðherranefndarinnar framkvæmd og umsjón með styrkveitingum og stuðningsaðgerðum,
—    að hún gefi Norðurlandaráði færi á að tjá sig áður en ákvörðun verður tekin um flutning á starfsemi Norræna menningarsjóðsins frá skrifstofu ráðherranefndar Norðurlanda,
—    að hún taki tillit til sjónarmiða fjárlaganefndar og annarra nefnda Norðurlandaráðs.


2.    Yfirlýsing Norðurlandaráðs um skýrslu ráðherranefndar Norðurlanda um starfsáætlun næstu ára (C2). (Fjárlaganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún vinni að því að menningarsamstarfið verði einnig eftirleiðis mikilvægur þáttur norræns samstarfs,
—    að hún gefi starfi að umhverfisvernd í víðri merkingu forgang og hugi sérstaklega að aðgerðum gegn mengun í Eystrasalti og Norðursjó,
—    að hún vinni að orkusparnaði heimilanna sem getur leitt til betri nýtingar á hinum endurnýjanlegu orkugjöfum,
—    að hún stefni að því að auka hagvöxt á Norðurlöndum í heild með því að bæta samkeppnishæfni þeirra og gefa sérstakan gaum að þýðingu rannsókna, einkum á sviði iðntækni,
—    að hún stuðli að sjálfbærri efnahagsþróun sem sé til þess fallin að tryggja og þróa velferð og velmegun á Norðurlöndum,
—    að hún stuðli að auknu norrænu samstarfi á alþjóðavettvangi,
—    að hún taki tillit til þess sambands sem er milli þess fjármagns sem er til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögunum og þeirra verkefna sem framkvæma á,
—    að hún taki tillit til þeirra sérstöku vandamála sem við er að stríða á Vestur-Norðurlöndum þegar ákvörðun verður tekin um nýtingu þeirra fjármuna af tekjuafgangi ársins 1990 sem ákveðið hef­ur verið að verja til styrktar Vestnorrænu samstarfi,
—    að hefja nú þegar skipulagningu samstarfs við Eystrasaltsríkin bæði sem heild og við þau hvert um sig,
—    að hún taki tillit til þeirra sjónarmiða sem nefndir ráðsins hafa sett fram þegar verkefnum verður forgangsraðað.

Ákvarðanir sem varða innra starf ráðsins.
1.    Starfsreglur fyrir fjárlaganefnd Norðurlandaráðs. (Fjárlaganefnd.)
    Norðurlandaráð felur fjárlaganefnd að rannsaka árlega ársuppgjör forsætisnefndar Norðurlanda­ráðs og skýrslu endurskoðenda ráðsins og leggja síðan uppgjörið og skýrsluna fyrir þing ráðsins til ákvörðunar.

2.    Fjármögnun samstarfsins á heimskautssvæðinu. (Forsætisnefnd.)
    Norðurlandaráð leggur til hliðar fjármuni til þróunar á samstarfi á heimskautssvæðinu.

3.    Fjölþjóðaráðstefna um samstarf á heimskautssvæðinu. (Forsætisnefnd.)
    Norðurlandaráð ákveður að halda fjölþjóðaráðstefnu sem fyrsta skref í átt að auknu samstarfi á heimskautssvæðinu.

Tilmæli samþykkt á 41. þingi Norðurlandaráðs.


Tilmæli nr. 33/1992 um fjárlög ráðherranefndar Norðurlanda árið 1993. (Fjárlaganefnd.)
    Með tilliti til þeirrar umfjöllunar sem farið hefur fram um norrænu fjárlagatillögurnar hefði verið eðlilegt að leggja til að tillögurnar yrðu endurunnar áður en þær kæmu til atkvæða, enda íhugaði fjárlaganefnd alvarlega tilmæli þess efnis. Niðurstaðan varð þó sú að ekki hefði verið möguleiki á að fá slíkt framkvæmt.

    Heildarmat á aðstæðum hefur því leitt til að fjárlaganefnd hefur neyðst til að taka við fjárlagatil­lögunni en byggir þá afstöðu sína á þeirri forsendu að næsta fjárlagatillaga verði í samræmi við það sem komið hefur fram í viðræðum við samstarfsráðherra.
    Með vísan til ofanritaðs leggur nefndin til að Norðurlandaráð samþykki eftirfarandi:
    Norðurlandaráð, sem lýsir sig samþykkt því sem að ofan greinir, afhendir ráðherranefnd Norð­urlanda nefndarálit fjárlaganefndar.

Tilmæli nr. 34/1992 um hagsmuni sama í tengslum við norrænt ferðamálaátak. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að tillit verði ætíð tekið til hagsmuna sama þegar efnt er til norræns ferðamálaátaks.

Tilmæli nr. 35/1992 um norrænt samstarf um stefnu í orku- og umhverfismálum. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til ráðherranefndar Norðurlanda
—    að láta gera norræna umhverfis- og orkumálaskýrslu um það hvað líði framkvæmd markmiða þeirra sem sett hafa verið fram. Jafnframt verði útskýrt í hverju erfiðleikarnir liggi og lagðar fram tillögur um aukið norrænt samstarf á þessu sviði, og sérstaklega greint frá, hver sé framtíð norræna raforkumarkaðarins og samstarfsins við önnur ríki sem liggja að Eystrasaltinu.

Tilmæli nr. 36/1992 um samstarf í þróunarmálum. (Efnahagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda og ráðherranefnd Norðurlanda
—    að þær vinni að aukinni samræmingu á norrænni þróunaraðstoð og auknu samstarfi norrænna hjálparstöðva,
—    að þær vinni að því að sendifulltrúar norrænu ríkjanna aðstoði fulltrúa norrænu hjálparstofnananna eftir þörfum þegar þess er óskað.

Tilmæli nr. 37/1992 um reiknilíkan til að meta ólaunuð störf. (Laganefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún sjái til þess að haldið verði áfram að vinna að því að gera innbyrðis sambærilegar rannsóknir á því hvernig fólk ver tíma sínum,
—    að hún setji á stofn vinnuhóp til að kanna möguleika þess að búa til reiknilíkan,
—    að hún samræmi ofangreind störf við þau störf sem unnin eru í Evrópubandalagsríkjunum,
—    að hún fylgist með þeirri þróun sem á sér stað í OECD og hjá SÞ varðandi mat á ólaunuðum störfum og samhenginu við þjóðhagsreikning,
—    að hún sjái til þess að sú þekking, sem fyrir hendi er í formi rannsóknaniðurstaða, nýtist og að metið verði hvernig reiknilíkanið gæti nýst,
—    að hún kynni fyrsta hluta rannsóknarinnar í tengslum við Nordisk Forum 1994.


Tilmæli nr. 38/1992 um kennslu í heimilisfræðum í Eystrasaltsríkjunum. (Menningamálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún feli Norræna heimilisfræðaháskólanum að skipuleggja verkefni um þróun kennslu í heimilisfræðum í Eystrasaltsríkjunum með fjárstuðningi norrænu Eystrasaltsríkjaáætlunarinnar.

Tilmæli nr. 39/1992 um stuðning við norrænt samstarf áhugamannasamtaka. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún styðji samstarf áhugamannasamtaka í því skyni að nýta það í hinu opinbera norræna samstarfi eftir 1992.

Tilmæli nr. 40/1992 um að gera NORDJOBB að föstu verkefni. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún taki tafarlaust ákvörðun um að gera NORDJOBB-verkefnið að föstu verkefni og tryggi grundvöll þess eftir lok reynslutímabilsins.

Tilmæli nr. 41/1992 um hækkun verðlaunaupphæðar bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. (Menningarmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að upphæð bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs verði hækkuð í 200.000 danskar krónur hver frá og með árinu 1993,
—    að verðlaunin verði í náinni framtíð hækkuð það mikið að þau samsvari því sem þau voru í upphafi.

Tilmæli nr. 42/1992 um aðgerðir til hjálpar þeim þjóðfélagshópum sem eru félagslega illa settir. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún láti kanna stærð og kjör þeirra þjóðfélagshópa á Norðurlöndum sem eru félagslega illa staddir og að hún kynni niðurstöðurnar í því skyni að gripið verði til aðgerða til að bæta kjör þeirra.

Tilmæli nr. 43/1992 um jafnrétti hvað varðar heilsufarsástand og lífskjör. (Félagsmálanefnd).
    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda
—    að þær grípi til aðgerða til að ná þeim markmiðum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett um jafnrétti hvað varðar heilsufarsástand og lífskjör.

Tilmæli nr. 44/1992 um norræna vinnuréttinn og Evrópubandalagið. (Félagsmálanefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda og ríkisstjórnar Norðurlanda
—    að þær stuðli að því að tryggja að meginreglur norræna vinnumarkaðarins og norræna vinnuréttarins standi bæði innan ramma EES-samningsins og innan Evrópubandalagsins í því falli að um aðild einstakra Norðurlanda að Evrópubandalaginu verði að ræða.

Tilmæli nr. 45/1992 um starfsáætlun um að gætur verði hafðar á að umhverfiskröfur séu virtar. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún samþykki starfsáætlun um að þróaðar verði sameiginlegar norrænar aðferðir og kerfi til að fylgjast með, þegar til lengri tíma er litið, að farið sé að umhverfiskröfum í samræmi við ráðherranefndartillögu B131/m og með tilliti til sjónarmiða umhverfisnefndar um þetta.

Tilmæli nr. 46/1992 um alþjóðlegar hegðunarreglur á sviði umhverfismála. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún undirbúi sameiginlega norræna tillögu og skipuleggi aðgerðir til að koma á alþjóðlegum hegðurnarreglum á sviði umhverfismála jafnframt því sem hún vinni að því á alþjóðavettvangi að dagskrárliður 21 og þeir alþjóðasáttmálar, sem samþykktir voru á Ríó-ráðstefnunni, komist til framkvæmda.

Tilmæli nr. 47/1992 um öryggi á sviði kjarorkumála á Norðurslóðum. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún fylgi eftir og samræmi norrænar aðgerðir og taki frumkvæði varðandi öryggi á sviði kjarnorkumála innan ramma þess alþjóðlega samstarfs sem er fyrir hendi,
—    að hún ljúki vinnunni við að minnka áhættu þá sem fylgir notkun kjarnorkuknúinna skipa; kjarnaefnum sem geymd eru í skipum og sem losuð er í Íshafið,
—    að hún haldi áfram að leitast við að koma á bindandi alþjóðlegum samningum um öryggi á sviði kjarnorkumála og meðferð kjarnorkuúrgangs frá hernaðarlegri og allri annarri starfsemi.

Tilmæli nr. 48/1992 um takmarkanir á útflutningi úrgangs sem er hættulegur umhverfi. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda
—    að þær banni þegar í stað útflutning úrgangs sem er hættulegur umhverfi án tillits til markmiðs og láti bannið taka bæði til endurvinnslu og til utflutnings til landa sem stand utan OECD,
—    að þær vinni innan ramma Basel-sáttmálans að því að koma á bindandi banni gegn útflutningi úrgangs sem er hættulegur umhverfi frá OECD-löndunum til þeirra landa sem standa utan OECD.

Tilmæli nr. 49/1992 um verndun friðaðra fuglategunda. (Umhverfisnefnd.)
    Norðurlandaráð mælist til þess við ráðherranefnd Norðurlanda
—    að hún stuðli að því að ríkisstjórnir Norðurlanda taki forustu um að tryggja að ákvæði alþjóðlegra sáttmála um villtar dýrategundir verði uppfyllt af staðfestingarlöndunum,
—    að hún stuðli að því að öll lönd fylgi ákvæðum alþjóðlegra sáttmála (sérstaklega Bern- og Bonn-sáttmálans) um veiðar á friðuðum fuglategundum,
—    að hún stuðli að því að reglum Evrópubandalagsins um fuglalíf verði fylgt,
—    að hún stuðli að auknum rannsóknum á alþjóðavettvangi á umfangi veiða á farfuglum á Miðjarðarhafssvæðinu og afleiðingum þeirra.



Fylgiskjal II.


Ályktun þingmannaráðstefnu um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu.


(Ósló, 24. apríl 1992.)





(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)