Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 379 . mál.


672. Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) fyrir árið 1992.

I. ALMENN STARFSEMI


    Á 114. löggjafarþingi í maí 1991 voru Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Páll Pétursson, Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson tilnefnd af þingflokkum til setu í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA á yfirstandandi kjörtímabili. Vilhjálmur Egilsson var kjörinn formaður deildarinnar. Þórður Bogason frá nefndadeild skrifstofu Alþingis var ritari Íslandsdeildarinnar fram til mánaðamóta september og október 1992, en þá tók við því starfi Belinda Theriault, einnig frá nefndadeildinni.
    Vilhjálmur Egilsson gegndi stöðu formanns þingmannanefndar EFTA fram í júní 1992 og hafði þá gegnt því embætti í eitt ár. Hann á nú sæti í forsætisnefnd þingmannanefndarinnar sem fráfarandi formaður.
    Hvert EFTA-ríki má senda fimm aðalmenn og tvo áheyrnarfulltrúa á fundi þingmannanefndarinnar þótt Íslandsdeildin nýti heimildina alla jafna ekki til fulls. Á vegum þingmannanefndarinnar starfa þrír vinnuhópar, auk dagskrárnefndar. Í vinnuhóp um fjármál situr Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og til vara Guðrún Helgadóttir. Í vinnuhóp um landbúnað og sjávarútveg situr Eyjólfur Konráð Jónsson og til vara Páll Pétursson. Í vinnuhóp um umhverfismál situr Páll Pétursson og til vara Össur Skarphéðinsson.
    Umsvif og starfsemi á árinu báru merki þess aukna vægis sem þingmannanefnd EFTA hefur öðlast innan EFTA á undanförnum árum. Meginverkefni nefndarinnar á árinu 1992 voru að fylgjast með framvindu mála varðandi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og vinna að undirbúningi að skipun þingmannanefndar EES í samvinnu við þingmenn Evrópuþingsins, auk þess að treysta og auka samstarf við þingmenn ríkja Mið- og Austur-Evrópu sem EFTA á samskipti við.
         
1.    Fundur dagskrárnefndar.
    Í dagskrárnefnd þingmannanefndarinnar mega sitja tveir fulltrúar frá hverju landi og er hlutverk nefndarinnar, eins og nafnið bendir til, að gera tillögur að dagskrá og verkefnum þingmannanefndarinnar. Dagskrárnefnd hélt sinn fyrsta fund á árinu 7. febrúar 1992 í Genf. Berndt Olof Johansson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, lýsti þar stöðu samningaviðræðna um Evrópska efnahagssvæðið. Í beinu framhaldi af framsögu hans lýstu einstakir þingmenn afstöðunni til samninganna í sínum löndum. Þá fjallaði Johansson um bréf þingmannanefndarinnar þar sem hún óskaði eftir að fá að ráða nýjan starfsmann með aðsetur í Brussel sem hefði það hlutverk að fylgjast með nefndastörfum Evrópuþingsins. (Þess má geta að síðar var Þórður Bogason frá nefndadeild Alþingis ráðinn til þessa starfs.) Hann skýrði frá því að til stæði að endurskipuleggja skrifstofu EFTA og senda hluta starfsliðsins sem verið hefði í Genf til Brussel.
    Síðan var rætt um nauðsyn þess að forsætisnefnd þingmannanefndarinnar færi á fund forseta Evrópuþingsins og leiðtoga helstu stjórnmálahópa skömmu eftir að samningar um EES yrðu undirritaðir. Því næst var rætt um samskipti við Pólland, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland og hugsanlega sameiginlega fundi með þingmönnum þessara landa.
    Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Þórður Bogason ritari.

2.    Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA með þingmönnum Evrópuþingsins.
    12. og 13. mars áttu formenn landsdeilda þingmannanefndarinnar viðræður í Strassborg við ráðamenn í Evrópuþinginu, m.a. Egon Klepsch, forseta þingsins, Willy de Clercq, formann utanríkisviðskiptanefndar, Enrique Baron Crespo, formann utanríkis- og öryggismálanefndar, og formenn stærstu stjórnmálahópa á Evrópuþinginu. Tilgangur ferðarinnar var að kanna afstöðu Evrópuþingmanna til EES-samningsins og að leggja áherslu á mikilvægi samningsins, bæði fyrir ríki EFTA og EB.

3.    26. fundur þingmannanefndarinnar, fundur í vinnuhóp um landbúnað og sjávarútveg og heimsókn til tékkneska þingsins.
    Þingmannanefnd EFTA hélt 26. fund sinn í aðalstöðvum EFTA í Genf 16. mars. Sérstakur gestur fundarins var Marcelino Oreja, formaður þeirrar nefndar Evrópuþingsins sem fjallar um málefni stofnana Evrópubandalagsins (Institutional Affairs Committee). Flutti hann erindi um Maastricht-samkomulagið, sérstaklega þá þætti þess er varða Evrópuþingið í Strassborg. Að lokinni framsögu svaraði Oreja fyrirspurnum og átti almennar viðræður við nefndarmenn, m.a. um hugsanlega aðild EFTA-ríkja að EB og vandkvæði þess að fjölga aðildarríkjum bandalagsins, áhrif og starfshætti Evrópuþingsins, áhrif héraðsstjórna innan EB og ófullnægjandi áhrif Evrópuþingsins á ákvarðanatökur innan EB.
    Á fundinum flutti Vilhjálmur Egilsson, formaður þingmannanefndarinnar, skýrslu um ferð formanna landsdeilda nefndarinnar til Strassborgar. Á fundinum var einnig rætt um dómstóla og réttarfar EES og um fund vinnuhóps þingmannanefndarinnar um landbúnaðarmál sem haldinn hafði verið fyrr um daginn. Að lokum var rætt um viðskipti EFTA og Tékkóslóvakíu. Fundinn sóttu fyrir Íslands hönd Vilhjálmur Egilsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Páll Pétursson og Össur Skarphéðinsson.
    Strax að loknum fundinum hélt sendinefnd þingmannanefndarinnar til Prag og dvaldist þar 16.–19. mars sl. í boði tékkneska þingsins. Ræddi sendinefndin við tékkneska þingmenn um samskipti EFTA-ríkjanna og Tékkóslóvakíu og hitti einnig Alexander Dubcek, þáverandi forseta þingsins. Fulltrúar Íslands voru Vilhjálmur Egilsson og Guðrún Helgadóttir.

4.    27. fundur þingmannanefndar EFTA, fundur vinnuhóps um landbúnað og sjávarútveg og 8. fundur með ráðherrum EFTA-ráðsins.
    Sú hefð hefur skapast að þingmannanefnd EFTA hittist jafnhliða því sem ráðherrar EFTA-ríkjanna hittast á vorfundi sínum. Við þetta tækifæri halda þingmenn og ráðherrar einnig sameiginlegan fund. Ráðherrafundur EFTA var að þessu sinni haldinn í Reykjavík 20. og 21. maí.
    Þingmannanefndin hélt sinn 27. fund 19. maí, sama dag og Alþingi lauk störfum. Á fundinum var fyrst rætt um samning varðandi þingmannanefnd EFTA sem EFTA-ríkin gerðu með sér vegna EES. Mælti þingmannanefndin með því að samningurinn yrði undirritaður en með tveimur breytingum, annars vegar er varðaði áheyrnarfulltrúa á fundum nefndarinnar og hins vegar varðandi skriflegar fyrirspurnir til ráðherra sem sitja í EFTA-ráðinu.
    Næst kynnti Arne Kjellstrand frá skrifstofu EFTA fjárhags- og kostnaðarhlið EES-samningsins fyrir árið 1993.
    Á fundinum var rætt um framtíðarverkefni nefndarinnar í ljósi samstarfs EFTA og EB. Formaður nefndarinnar, Vilhjálmur Egilsson, lagði í kynningu sinni áherslu á fimm meginverkefni nefndarinnar: Ráðgjafarhlutverk, umsögn um fjárhagsáætlun EFTA, samstarf við Evrópuþingið, samskipti við þingmenn í þeim löndum sem gert hafa fríverslunarsamning við EFTA og að tryggja upplýsingaflæði til þjóðþinga EFTA-ríkjanna. Ekki var tekin nein ákvörðun á þessum fundi um framtíðarverkefni.
    Þingmannanefndin bauð Enrique Baron Crespo, formanni utanríkis- og öryggismálanefndar, að koma á þennan fund til viðræðna um staðfestingu EES-samningsins innan EB. Fjallaði Crespo auk þess um ýmis innri vandamál EB og um hugsanlega aðild nýrra ríkja að bandalaginu.
    Daginn eftir hélt vinnuhópur um landbúnað og sjávarútveg fund, en strax að honum loknum hófst 8. fundur þingmannanefndarinnar með ráðherrum EFTA-ráðsins. Á fundinum var rætt um staðfestingu EES-samkomulagsins í ríkjum EB og EFTA og um þá samninga sem EFTA-ríkin hafa gert sín á milli vegna þátttöku þeirra í EES.
    Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar sóttu fundinn, auk ritara.

5.    Aðalfundur þingmannanefndar EFTA og 8. fundur þingmannanefndar EFTA með þingmönnum Evrópuþingsins.
    Aðalfundur þingmannanefndar EFTA, 28. fundur hennar, var haldinn í Linköping í Svíþjóð dagana 23.–25. júní. Í upphafi fundarins var Nic Grönvall frá Svíþjóð kjörinn formaður nefndarinnar en Inger Pedersen frá Noregi var kjörin varaformaður.
    Á fundinum var rætt um stöðu mála hjá EFTA-þingunum varðandi staðfestingu á EES. Einnig var rætt um þau tengsl sem þjóðþingin hafa við þingmenn Evrópuþingsins í Strassborg. Í nokkrum EFTA-ríkjanna hafa þingmenn tekið upp samskipti við skoðanabræður sína á Evrópuþinginu. Fram komu á fundinum nokkrar áhyggjur af því að ekki næðist tilskilinn fjöldi atkvæða er samningurinn yrði borinn undir atkvæði í Evrópuþinginu. Í því skyni að kynna EES fyrir þeim nefndum Evrópuþingsins, sem fjalla um samninginn, var samþykkt að efna til kynningar á samningnum í Brussel seinni hluta septembermánaðar með þátttöku fastanefnda EFTA-ríkjanna í Brussel.
    Fráfarandi formaður kynnti á fundinum hugmyndir að framtíðarskipulagi nefndarinnar og verkefnum er varða málefni sem fjallað er um í EES-samningnum. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að stofna tvo vinnuhópa til viðbótar við dagskrárnefnd og vinnuhóp um landbúnað og sjávarútveg, annan um fjármál en hinn um umhverfismál.
    Að morgni 24. júní hófst 8. fundur þingmannanefndar EFTA með sendinefnd þingmanna frá Evrópuþinginu í Strassborg. Willy de Clercq, formaður utanríkisviðskiptanefndar Evrópuþingsins, var formaður sendinefndarinnar. Opnunarávörp fluttu Nikolaus van der Pas frá framkvæmdastjórn EB og Georg Reisch, framkvæmdastjóri EFTA. Í þeim var fjallað um helstu vandamál sem fram komu við EES-samningagerðina og þá vinnu sem fram undan væri við staðfestingu samningsins. Þingmenn EFTA og EB skiptust á skoðunum um EES-samninginn og stækkun EB og áttu viðræður um marga þætti evrópskrar samvinnu.
    Þingmennirnir ræddu einnig um þingmannanefnd EES sem tekur við því samstarfi sem þingmannanefnd EFTA hefur átt við þingmenn Evrópuþingsins og þær reglur sem hún á að starfa eftir. Að lokum var rætt um hin efnahagslegu áhrif Maastricht-samkomulagsins sem koma fram í fjárhagsáætlun EB eða hinum svokallaða Delor II pakka.
    Auk venjulegra fundarstarfa var þingmönnunum boðið í kynnisferð til SAAB-SCANIA þar sem flugvélaframleiðsla fyrirtækisins var skoðuð. Einnig voru haldnir fyrirlestrar um iðnað og verktakastarfsemi í Evrópu síðasta fundardaginn.
    Allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar sóttu fundina, auk ritara.

6.    Fundur dagskrárnefndar.
    Sérstakur fundur dagskrárnefndarinnar var haldinn 7. september í Genf. B.O. Johansson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, skýrði frá stöðu mála varðandi EES-samninginn og stofnun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins. Einnig var rætt var um ástandið í Júgóslavíu fyrrverandi og ákveðið að biðja EFTA um skýrslu um viðskipti við Slóveníu og Króatíu. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sótti Vilhjálmur Egilsson fundinn.

7.    Kynningarfundir þingmannanefndar EFTA fyrir þingmenn Evrópuþingsins og fundur vinnuhóps um landbúnað og sjávarútveg.
    Í framhaldi af ákvörðun aðalfundar þingmannanefndarinnar voru haldnir þrír kynningarfundir í Brussel 22.–24. september um EES og sjónarmið EFTA fyrir þá þingmenn Evrópuþingsins sem sæti áttu í nefndum er fjölluðu um EES-samninginn. Tóku fastanefndir EFTA-ríkjanna í Brussel og skrifstofa EFTA þátt í kynningarfundunum ásamt fulltrúum í þingmannanefndinni. Vilhjálmur Egilsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Páll Pétursson og Þórður Bogason ritari sóttu fundina.
    Vinnuhópur um landbúnað og sjávarútveg hélt fund í Brussel 23. september. Rætt var um framtíðarstarf vinnuhópsins, landbúnaðarmál og EES-samninginn, fríverslunarsamninga við lönd utan EFTA og landbúnaðarþátt slíkra samninga, landbúnaðarstefnu EB og stöðu GATT-viðræðnanna. Eyjólfur Konráð Jónsson og Páll Pétursson sóttu fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar, auk ritara.

8.    Fyrsti fundur vinnuhóps um fjármál.
    Fyrsti fundur vinnuhóps um fjármál var haldinn í Genf 12. október 1992. Knut Almestad, formaður undirbúningsnefndar ESA, ræddi hlutverk stofnunarinnar, fjárhagsáætlun 1993 og starfsmannahald. B.O. Johansson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, ræddi við fundarmenn um fjárhagsáætlun EFTA-skrifstofunnar og kostnað vegna EES. Þá var lítillega rætt um fjárhagsáætlun EFTA-dómstólsins. Vinnuhópurinn samþykkti álit á fjárhagsáætlunum EFTA-skrifstofunnar, ESA og EFTA-dómstólsins. Rætt var um að skoða hugsanlegt samstarf við fjármálanefnd EB á næsta ári. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar.

9.    Fundur dagskrárnefndar.
    Dagskrárnefnd hélt fund 28. október í Strassborg. Rætt var um fjárhagsáætlanir ESA, EFTA-skrifstofunnar og EFTA-dómstólsins, lokaatkvæðagreiðslu um EES í Evrópuþinginu sem fara átti fram síðar um daginn, næsta fund þingmannanefndarinnar og undirbúning hans og þingmannanefnd EES og starfsreglur hennar. Ákveðið var að setja fram fyrstu tillögu þingmannanefndar EFTA á fundi með þingmönnum Evrópuþings í byrjun desember. Fundinn sótti fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson.

10.         Fundur dagskrárnefndar, 29. fundur þingmannanefndar EFTA, 9. fundur þingmannanefndar EFTA með þingmönnum Evrópuþingsins, fyrsti fundur vinnuhóps um umhverfismál og annar fundur vinnuhóps um fjármál.
    29. fundur þingmannanefndarinnar var haldinn mánudaginn 30. nóvember í Brussel. Dagskrárnefnd hélt stuttan fund áður en fundur þingmannanefndarinnar hófst. Formaður þingmannanefndarinnar, Nic Grönvall, sagði frá ákvörðun dagskrárnefndar um að beina því til ráðherraráðs EFTA að bjóða þjóðþingum EFTA að senda starfsmenn til þjálfunar hjá EFTA í sex til tólf mánuði þar sem þeir fengju tækifæri til að fylgjast með starfi Evrópuþingsins. Gert væri ráð fyrir að þingin tækju þátt í kostnaði af slíkri þjálfun. Umræður urðu um undirbúning starfsreglna þingmannanefndar EES. Skýrt var frá stöðu EES-samningsins í þjóðþingum EFTA-ríkja og í ríkjum EB. Rætt var um EFTA sem hugsanlega biðstofu fyrir ríki Mið- og Austur-Evrópu á leið inn í EB og komu fram misjafnar skoðanir á ágæti þeirrar hugmyndar. Samþykkti nefndin að fordæma grimmdarverk í Júgóslavíu fyrrverandi. Á þessum fundi minntist þingmannanefndin þess að 15 ár voru liðin frá stofnun hennar og af því tilefni voru nokkrir af fyrrverandi formönnum og varaformönnum hennar viðstaddir fundinn.
    9. fundur þingmannanefndar EFTA með utanríkisviðskiptanefnd Evrópuþingsins var haldinn mánudaginn 30. nóvember og þriðjudaginn 1. desember. Fyrri daginn var rætt um þær stofnanir sem tengjast EES annars vegar og um Maastricht-samkomulagið og hugsanlega stækkun bandalagsins hins vegar. Seinni daginn var rætt um starfsreglur þingmannanefndar EES og kynnti Vilhjálmur Egilsson sjónarmið EFTA. Síðan kynnti Björn Tore Godal, viðskiptaráðherra Noregs, samskipti EFTA-ríkja við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Fundina sátu allir fulltrúar Íslandsdeildarinnar, auk Belindu Theriault ritara.
    Þriðjudaginn 1. desember voru haldnir fundir í vinnuhópum þingmannanefndar EFTA um fjármál annars vegar og um umhverfismál hins vegar. Fyrrnefnda fundinn sóttu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðrún Helgadóttir og Belinda Theriault ritari. Síðarnefnda fundinn sóttu Páll Pétursson og Össur Skarphéðinsson.

II. ÖNNUR STARFSEMI


    Fulltrúar þingmannanefndarinnar tóku þátt í ýmsu samstarfi á árinu með svipuðum hætti og á síðustu árum.
    Innan Evrópuþingsins starfar svokallaður Kengúruhópur (The Kangaroo Group, The Movement for Free Movement) sem vinnur að frjálsum flutningum á sem flestum sviðum innan Evrópu. Hefur hópurinn boðið þingmönnum úr þingmannanefnd EFTA að sitja ráðstefnur sínar.
    Ráðstefnu Kengúruhópsins um stefnumótun í orkumálum, sem haldin var í París 2. og 3. apríl, sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Vilhjálmur Egilsson og Páll Pétursson.
    Ársfundur hópsins var haldinn í London 12. og 13. nóvember og sótti Vilhjálmur Egilsson þann fund.
    Þá átti þingmannanefnd EFTA áheyrnarfulltrúa á 40. þingi Norðurlandaráðs sem haldið var 3.–6. mars í Helsinki og á ráðstefnu þingmanna um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu sem haldin var í Ósló 22.–24. apríl.

Alþingi, 26. febr. 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Ey. Kon. Jónsson.

Guðrún Helgadóttir.


form.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Páll Pétursson.

Össur Skarphéðinsson.