Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 396 . mál.


690. Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um 44. þing þess.

1. Inngangur.
    Störf 44. þings Evrópuráðsins (ER) einkenndust af því að þátttökuríkjum fjölgar og náið er fylgst með framvindu stjórnmála í ríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu. Þingmenn eru þeirrar skoðunar að samhliða því sem þjóðirnar, sem nú eru að þróa með sér lýðræðislega stjórnarhætti, fái góðar viðtökur hjá Evrópuráðinu megi ráðið ekki slá af hinum ströngu kröfum um mannréttindi, lýðræði og virðingu fyrir lögum og rétti í aðildarríkjunum.
    Boðað hefur verið til leiðtogafundar aðildarríkja Evrópuráðsins í Vínarborg 8. og 9. október 1993. Er þess vænst að í tengslum við fundinn verði teknar ákvarðanir um stjórnskipun Evrópuráðsins og stofnana þess sem auðveldi þeim að takast á við ný verkefni við breyttar aðstæður. Má í því sambandi geta þess að með samþykkt tillögu 1194 lagði þingið til við ráðherranefnd Evrópuráðsins að Mannréttindadómstóll og mannréttindanefnd Evrópu, þar sem fulltrúar ríkjanna gegna hlutastarfi, verði sameinuð í einn dómstól þar sem dómarar verði í fullu starfi.
    Átökin í Júgóslavíu fyrrverandi og þjóðernisdeilur víðar í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu hafa vakið miklar umræður á þingi Evrópuráðsins og aukið stuðning við tillögur um að samþykktur verði viðauki við Mannréttindasáttmála Evrópu um réttindi minnihlutahópa og vernd þeirra. Jafnframt er ljóst að huga verður betur að rétti og vernd þeirra sem hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín eða þurft að leggja á flótta. Nauðsynlegt er að snúast til varnar gegn þjóðernishroka og útlendingahatri sem brýst út í ofbeldisverkum.
    Umræður á þingi Evrópuráðsins bera þess skýr merki að þingmenn hafa fullan hug á því að auka hlut sinn í starfi ráðsins. Þingið og nefndir þess gegna miklu hlutverki við rannsókn á því hvort ríki, sem sækja um aðild að ráðinu, fullnægi skilyrðum samkvæmt stofnskrá þess. Þannig hefur t.d. verið fylgst náið með þróun mála í Eystrasaltsríkjunum með hliðsjón af umsóknum þeirra um aðild að Evrópuráðinu. Nú að loknum almennum kosningum í Eistlandi og Litáen er líklegt að ríkin verði aðilar að Evrópuráðinu í vor. Þess er beðið að kosið verði í Lettlandi. Þá hafa lög Eytrasaltsríkjanna um borgararéttindi verið könnuð sérstaklega.

Hlutur Íslands.
    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hefur starfað í samræmi við starfsreglur sem hún setti sér 16. janúar 1992. Framkvæmd á starfsreglunum ræðst af því fé sem Íslandsdeildin fær til ráðstöfunar hverju sinni. Á árinu 1992 voru útgjöld á vegum deildarinnar innan útgjaldarammans. Meginreglan er að fjórir þingmenn sæki hvert þing ráðsins, þ.e. þrír aðalmenn og varamaður, auk ritara. Þingmenn sitja í fleiri en einni nefnd og leitast við að sækja fundi í þeim eftir föngum.
    Aukin umsvif Evrópuráðsþingsins og nefnda á vegum þess gera ríkari kröfur til Íslandsdeildarinnar. Að mati hennar er brýnt að bregðast við þessum kröfum á þann veg að enginn geti dregið í efa áhuga Alþingis á því að rækta sem best tengsl við Evrópuráðið. Þetta er þeim mun mikilvægara þegar haft er í huga að aðild Íslands að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá. Þing Evrópuráðsins er vettvangur sem Íslendingar geta nýtt sér til að kynna viðhorf sín til þeirra mála sem snerta hagsmuni þeirra í evrópsku samstarfi eða ber hæst í samstarfi Evrópuríkja.

Efni skýrslunnar.
    Í skýrslunni er efni einstakra tillagna og ályktana 44. Evrópuráðsþingsins ekki rakið en hins vegar er birt sem fskj. I skrá um þessi mál. Er unnt að vísa til hennar ef áhugi er á því að kynna sér frekar mál og skýrslur sem samdar eru til rökstuðnings samþykktum þingsins. Með skýrslunni eru birtar frásagnir Íslandsdeildarinnar af fjórum fundalotum 44. þingsins, en þeim hefur áður verið dreift til þingmanna.

2. Almennt um Evrópuráðið.
    Stofnskrá Evrópuráðsins frá 5. maí 1949 er mótuð af þeirri von að Evrópuríkin geti með því að bindast fastari böndum staðið að því að varðveita lýðræði, mannréttindi og frið í heiminum. Í inngangi stofnskrárinnar segjast ríkin staðfesta á ný trú sína á þau verðmæti, andleg og siðferðileg, sem eru hin sameiginlega arfleifð þessara þjóða og hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar.
    Í 3. gr. stofnskrárinnar segir um skilyrði til þess að verða aðili að Evrópuráðinu að sérhvert þátttökuríki verði að viðurkenna grundvallarreglurnar um skipun laga og um að öllum einstaklingum innan umdæmis þess skuli tryggð mannréttindi og grundvallarfrelsi. Ríkin verði og í orði og verki að taka þátt í samvinnu til að ná markmiði ráðsins eins og það er skilgreint í fyrsta kafla stofnskrárinnar.
    Hinn 7. febrúar 1950 var þingsályktunartillaga samþykkt á Alþingi um að Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu og kom hún til framkvæmda 1951.
    Frá stofnun Evrópuráðsins hafa fjölmargir Evrópusáttmálar verið settir um ýmis svið þjóðlífsins og er mikilvægastur þeirra Mannréttindasáttmáli Evrópu sem var undirritaður árið 1950 og Ísland fullgilti 19. júní 1953. Evrópuráðið hefur því reynst kjörinn vettvangur til þess að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið þeirra til lýðræðis og breytts þjóðskipulags, laga og réttar.

Aðildarríki og gestaaðild.
    Aðildarríkin eru nú 26 (innan sviga er getið aðildarárs nýjustu ríkjanna): Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría (1992), Danmörk, Finnland (1989), Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Kípur, Liechtenstein (1978), Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland (1991), San Marínó (1988), Spánn (1977), Sviss, Svíþjóð, Tyrkland, Ungverjaland (1990) og Þýskaland. Tékkóslóvakía fékk aðild að ráðinu 1991, en við það að ríkið klofnaði í Tékkland og Slóvakíu 1. janúar 1993 hvarf það úr ráðinu. 11. maí 1989 var samþykkt á þinginu ályktun um að veita ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, að vissum skilyrðum uppfylltum, gestaaðild að ráðinu. Hefur slík aðild jafnan verið undanfari þess að ríkin fengju fulla aðild. Gestaaðild hafa nú Albanía, Eistland, Hvíta-Rússland, Króatía, Lettland, Litáen, Moldóva, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland, Rússland og Úkraína. Þar af hafa öll ríkin fyrir utan Hvíta-Rússland þegar sótt um fulla aðild að Evrópuráðinu. Auk þess hafa Armenía, Azerbajdzhan og Makedónía formlega sótt um gestaaðild.

Skipulag þinghaldsins.
    Evrópuráðsþingið starfar sem ráðgjafarþing fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins en í henni sitja utanríkisráðherrar allra aðildarríkja eða fulltrúar þeirra. Albert Guðmundsson, sendiherra í París, er nú fulltrúi utanríkisráðherra í ráðherranefndinni fyrir hönd Íslands. Almennt hafa aðildarríkin sérstaka sendiherra í Strassborg til að gegna starfi fastafulltrúa.
    Þingið er umræðuvettvangur Evrópuráðsins og því er falið að fjalla um þau mál sem heyra undir starfssvið þess samkvæmt stofnskránni og leggur það niðurstöður sínar fyrir ráðherranefndina í formi tillagna. Tillaga (recommendation) er skilgreind sem tillaga þingsins til ráðherranefndarinnar en framkvæmd hennar er í höndum ríkisstjórna aðildarríkjanna. Þingið getur og skilað ráðherranefndinni áliti á málefnum sem hafa verið borin undir það. Álit (opinion) þingsins geta einnig verið í formi ályktana. Ályktun (resolution) er skilgreind sem ákvörðun í mikilvægu málefni sem þingið hefur vald til að framkvæma eða álit sem það eitt ber ábyrgð á. Þingið getur gefið skrifstofu eða öðrum stofnunum þess fyrirmæli (order).
    Mikilvægastar þessara ákvarðana eru tillögur til ráðherranefndarinnar um að samþykkja ákvarðanir þingsins svo að fela megi ríkisstjórnum aðildarríkjanna að hrinda þeim í framkvæmd.
    Evrópuráðsþing hefur verið haldið þrisvar á ári í Strassborg auk sumarþings í einhverju aðildarríkjanna. Nú hefur verið ákveðið að þinghaldinu verði hagað þannig að hvert þing skiptist í fjórar lotur og verði þær allar í Strassborg.
    Skipan sendinefndar hverrar þjóðar á þinginu endurspeglar þingstyrk stjórnmálaflokka í heimalandinu. Á þinginu starfa þingflokkar þar sem tekin er sameiginleg afstaða til þeirra mála sem eru á dagskrá þingsins hverju sinni. Þessir þingflokkar eru Socialist Group, þ.e. jafnaðarmenn (Alþýðuflokkurinn), European Democratic Group, þ.e. hægri flokkar (Sjálfstæðisflokkurinn), Liberal Democratic and Reformers Group, þ.e. frjálslyndir (Framsóknarflokkurinn), European People's Party, þ.e. kristilegir flokkar, og United European Left, þ.e. flokkar til vinstri við jafnaðarmenn. Fulltrúar Alþýðubandalags og Kvennalista hafa ekki tekið þátt í störfum þingflokka á Evrópuráðsþinginu.

3. 44. þing Evrópuráðsins.
a. Fulltrúar Íslands á Evrópuráðsþinginu.
    Í samræmi við stofnskrá Evrópuráðsins eru þrír fulltrúar af hálfu Íslands á þingi þess og þrír til vara. Íslandsdeild Evrópuráðsins er skipuð til fjögurra ára og í henni eru nú: Björn Bjarnason formaður, Sjálfstæðisflokki, Guðmundur Bjarnason varaformaður, Framsóknarflokki, Sigbjörn Gunnarsson, Alþýðuflokki, Ragnar Arnalds, Alþýðubandalagi, Kristín Ástgeirsdóttir, Samtökum um kvennalista, og Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki.

b. Þingfundir á 44. þingi.
    Fyrsti hluti 44. þings Evrópuráðsins var haldinn 4.–8. maí 1992 í höfuðstöðvum þess í Strassborg. Það sóttu Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og ritari. Þá var kosinn nýr forseti Evrópuráðsþingsins, Miguel Angel Martinez, sósíalisti frá Spáni. Björn Bjarnason tók sæti í forsætisnefnd þingsins til eins árs. Forseti Frakklands, François Mitterrand, ávarpaði þingið og lagði hornstein að nýrri byggingu fyrir Mannréttindadómstól og mannréttindanefnd Evrópu. Búlgaría varð 27. aðildarríki Evrópuráðsins 7. maí.
    Sumarþing Evrópuráðsins var að þessu sinni haldið í Búdapest 28. júní til 1. júlí. Nefndir þingsins héldu einnig sérstaka fundi í Búdapest. Öll Íslandsdeildin sótti þingið ásamt ritara.
    Þriðji hluti 44. þingsins og jafnframt aðalþing ársins var haldið 29. september til 8. október 1992 í Strassborg. Björn Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og ritari sóttu þingið. Fyrir utan hefðbundin þingstörf og ávörp þjóðarleiðtoga voru mannréttindaverðlaun Evrópuráðsins veitt í þriðja skipti. Samhliða þinginu var haldin kvennaráðstefna 3.–4. október á vegum Alþjóðalýðræðisstofnunarinnar í Washington (Center for Democracy) og Evrópuráðsins. Sóttu Kristín Ástgeirsdóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir hana fyrir Íslands hönd.
    Fjórði og síðasti hluti þingsins var í Strassborg 1.–5. febrúar 1993 í Strassborg og sótti öll Íslandsdeildin þá fundi auk ritara.

c. Nýr forseti Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi 44. þingsins var kosinn nýr forseti Evrópuráðsþingsins í stað Lord Finsberg frá Bretlandi. Við embættinu tók Miguel Angel Martinez, sósíalisti frá Spáni.

d. Ný ríki og gestaaðild.
    Á vorþinginu í maí 1992 fékk Búlgaría fulla aðild að Evrópuráðinu og varð því 27. aðildarríki þess. En um áramótin fækkaði ríkjunum aftur um eitt með klofningi Tékkóslóvakíu. Tékkland og Slóvakía hafa hvort um sig sótt um aðild að ráðinu og eru umsóknir þeirra í athugun. Aðildarumsóknir Litáens, Slóveníu og Eistlands verða líklega samþykktar á næsta vorþingi. Króatía fékk gestaaðild að ráðinu í maí sl. og sendi þá í fyrsta sinn fulltrúa á fund Evrópuráðsins. Á haustþinginu bættust við fulltrúar frá gestaaðildarríkjunum Úkraínu og Hvíta-Rússlandi. Um áramótin fengu Tékkland og Slóvakía gestaaðild en eins og fyrr greinir er verið að kanna umsóknir þeirra um aðild. Á síðasta þingi Evrópuráðsins var gestaaðild Moldóvu samþykkt.

e. Ræður þjóðarleiðtoga á 44. þinginu.
    Venja er að á hverju reglulegu þingi Evrópuráðsins ávarpi þjóðarleiðtogar Evrópuríkja þingmenn og svari fyrirspurnum þeirra. Þá er umræðuefnið gjarnan málefni sem ofarlega er á baugi í því landi, svo og sameiginleg hagsmunamál Evrópuríkja. Vorþingið í apríl sóttu François Mitterrand, forseti Frakklands, og Salia Berisha, þá nýkjörinn forseti Albaníu. Á haustþinginu í október 1992 voru Carl Bildt, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Janez Drnovsek, forsætisráðherra Slóveníu. Í febrúar 1993 ávörpuðu þrír þjóðarleiðtogar þingið: Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, Franz Vranitzky, kanslari Austurríkis, og Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs.

f. Ályktanir og tillögur samþykktar á 43. þingi.

    Á 44. þingi Evrópuráðsins voru samþykktar 27 tillögur og 16 ályktanir fyrir utan álit og fyrirmæli. Í fskj. I er birt yfirlit yfir samþykktirnar. Í þingtíðindum Evrópuráðsins er unnt að kynna sér alla texta og ræður á þinginu.

4. Nefndastörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndum:
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:     Björn Bjarnason.
    Stjórnarnefnd:          Björn Bjarnason.
    Stjórnmálanefnd:          Björn Bjarnason.
    Laganefnd:          Ragnar Arnalds,
              til vara:               Björn Bjarnason.
    Efnahagsnefnd:          Guðmundur Bjarnason,
              til vara:               Ragnar Arnalds.
    Umhverfis-, skipulags- og
         sveitarstjórnarmálanefnd:          Guðmundur Bjarnason,
              til vara:               Kristín Ástgeirsdóttir.
    Þingskapanefnd:          Guðmundur Bjarnason.
    Fjárlaganefnd:          Sigbjörn Gunnarsson.
    Landbúnaðarnefnd:          Sigbjörn Gunnarsson.
    Vísinda- og tækninefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir,
              til vara:               Sigbjörn Gunnarsson.
    Mennta- og menningarmálanefnd:          Ragnar Arnalds,
              til vara:               Guðmundur Bjarnason.
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir,
              til vara:               Guðmundur Bjarnason.
    Nefnd um samskipti við lönd utan
         Evrópuráðsins:          Kristín Ástgeirsdóttir,
              til vara:               Björn Bjarnason.
    Flóttamannanefnd:          Kristín Ástgeirsdóttir.
    Nefnd um almannatengsl þingsins:          Lára Margrét Ragnarsdóttir.

b. Þátttaka í nefndarfundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga tóku fulltrúar Íslandsdeildarinnar þátt í eftirfarandi nefndarfundum:
    Guðmundur Bjarnason sótti fundi umhverfisnefndarinnar 5.–7. mars 1992 í Barcelona og fundi efnahagsnefndarinnar 25.–27. mars í Stokkhólmi og Tallinn og 14.–16. september í Berlín og Rostock.
    Sigbjörn Gunnarsson sótti fundi landbúnaðarnefndarinnar 1.–3. apríl 1992 í Sófíu og 17.–19. september í Dublin. Auk þess sótti hann fund undirnefndar landbúnaðarnefndarinnar, en þar gegnir hann nú formennsku, í París 14. desember vegna undirbúnings skýrslu sem nefndin hyggst leggja fyrir þingið á næstunni.
    Ragnar Arnalds sótti fundi menntamálanefndarinnar í Jerúsalem 16.–19. mars 1992 og í Madrid og Sevilla 29. ágúst til 2. september og í Feneyjum 11.–12. nóvember 1992.
    Kristín Ástgeirsdóttir sótti fund flóttamannanefndarinnar sem haldinn var í Valencia á Spáni 13.–15. apríl 1992.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir sótti fundi heilbrigðis- og félagsmálanefndarinnar í Biasca í Sviss 22.–24. júní þar sem undirbúin var skýrsla nefndarinnar um heilsufarslegar afleiðingar Tsjernobyl-slyssins en Lára Margrét var framsögumaður nefndarinnar um það mál. Auk þess var hún valin í eftirlitsnefnd Evrópuráðsins til að fylgjast með kosningunum í Litáen sem fram fóru í október 1992.

4. Störf fyrir nefndir.
a. Ráðstefna um sjávarspendýr.
    25.–26. maí 1992 hélt undirnefnd landbúnaðarnefndar Evrópuráðsþingsins, sem fjallar um fiskveiðar, ráðstefnu í Reykjavík um sjávarspendýr. Eins og fyrr greinir hefur Sigbjörn Gunnarsson verið kjörinn formaður undirnefndarinnar en Jóhann Sigurjónsson frá Hafrannsóknastofnun annaðist vísindalegan undirbúning fundarins af Íslands hálfu. Mikil þátttaka var á ráðstefnunni og sóttu hana meðal annars fulltrúar frá Alþjóðahvalveiðiráðinu, Alþjóðanáttúruverndarsjóðnum (World Wide Fund for Nature), La Rochelle haffræðisafninu í Frakklandi (Oceanographic Museum) og Greenpeace. Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra setti ráðstefnuna en aðrir Íslendingar, sem fluttu erindi, voru dr. Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Erlingur Hauksson frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ráðstefnugestir fóru í kynnisferð til Akureyrar og heimsóttu meðal annars Útgerðarfélag Akureyringa, Mjólkursamlagið og lúðueldisstöðina á Hjalteyri.

b. Tsjernobyl-kjarnorkuslysið.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var valin framsögumaður heilbrigðis- og félagsmálanefndar um heilsufarslegar afleiðingar kjarnorkuslyssins í Tsjernobyl. Var skýrslan rædd á þinginu í febrúar og einróma samþykkt tillaga að ályktun um málið.

5. Annað.
a. Tilnefning Íslands í mannréttindanefnd Evrópu.
    Í samræmi við 21. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sendi Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins forsætisnefnd þingsins tillögu um fulltrúa í mannréttindanefnd Evrópu til næstu sex ára. Íslandsdeildin lagði til að Gaukur Jörundsson, umboðsmaður Alþingis, yrði endurkjörinn og liggur tillaga um það nú fyrir ráðherranefndinni. Samkvæmt 26. gr. gerði Íslandsdeildin einnig tillögu um Arnljót Björnsson prófessor og Guðmund Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómara.
b. Annað þing Eystrasaltsþingsins.
    29.–31. maí 1992 var annað þing Eystrasaltsþingsins (Baltic Assembly) í Palanga í Litáen en það er sameiginlegt þing Eistlands, Lettlands og Litáens. Björn Bjarnason sótti þingið fyrir hönd forsætisnefndar Evrópuráðsins.

c. Eftirlit með kosningum í Mið- og Austur-Evrópu.
    Evrópuráðið sendi eftirlitsnefndir til þess að fylgjast með og gefa skýrslur um þingkosningar sem fram fóru í eftirtöldum ríkjum: Albaníu í mars 1992, Króatíu í ágúst 1992, Eistlandi í september 1992, Litáen í október og nóvember 1992 og Slóveníu í desember 1992. Lára Margrét Ragnarsdóttir var í eftirlitsnefnd vegna fyrri kosninganna í Litáen.

d. Norrænt samstarf.
    Fulltrúar Norðurlandanna hafa unnið að því að efla samstarf sitt á vettvangi Evrópuráðsins og á 44. þingi þess hafa sendinefndirnar efnt til samnorrænna funda til samráðs um sameiginleg hagsmunamál.

Alþingi, 4. mars 1993.



Björn Bjarnason,

Guðmundur Bjarnason,

Sigbjörn Gunnarsson.


form.

varaform.



Ragnar Arnalds.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.





Fylgiskjal I.


Samþykktir 44. þings Evrópuráðsins.


Tillögur:
Recommendation 1183: on access by European non-member states to institutions oper     ating under certain Council of Europe conventions relating to human rights,
     um aðild ríkja utan Evrópuráðsins að stofnunum sem starfa samkvæmt samþykktum ráðsins um mannréttindamál.
Recommendation 1184: on the work of the CSCE on the eve of the 3rd summit (Helsinki,     9th–11th July 1992),
     um starfsemi RÖSE fyrir þriðja leiðtogafundinn (Helsinki, 9.–11. júlí 1992).
Recommendation 1185: on rehabilitation policies for the disabled,
     um stefnu í endurhæfingarmálum fatlaðra.
Recommendation 1186: on the environment policy in Europe (1990–91),
     um umhverfisstefnu í Evrópu (1990–91).
Recommendation 1187: on relation between migrants and trade unions,
     um samskipti milli farandverkamanna og verkalýðsfélaga.
Recommendation 1188: on migratory flows in Czechoslovakia, Hungary and Poland,
     um fólksflutninga í Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi og Póllandi.
Recommendation 1189: on the establishment of an international court to judge war     crimes,
     um stofnun alþjóðlegs dómstóls fyrir stríðsglæpi.
Recommendation 1190: on European sports co-operation,
     um evrópska samvinnu á sviði íþróttamála.
Recommendation 1191: on exchanges involving young workers after the revolutionary     changes of 1989,
     um viðræður við unga verkamenn eftir byltingarkenndar breytingar árið 1989.
Recommendation 1192: on the United Nations Conference on Environment and Develop     ment, its outcome and implications for Europe,
     um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, niðurstöður hennar og afleiðingar fyrir Evrópu.
Recommendation 1193: on the future of European construction,
     um framtíð uppbyggingar Evrópu.
Recommendation 1194: on the reform of the control mechanism of the European Con     vention on Human Rights,
     um endurskoðun eftirlits með framkvæmd Mannréttindasáttmála Evrópu.
Recommendation 1195: on European economic and monetary union — consequences of     the European Community's Treaty on European Union,
     um evrópska efnahagssamvinnu og myntbandalag — afleiðingar samnings Evrópubandalagsins fyrir Evrópu.
Recommendation 1196: on severe poverty and social exclusion: towards guaranteed     minimum levels of resources,
     um alvarlega fátækt og félagslega einangrun: í átt að tryggri lágmarksframfærslu.
Recommendation 1197: on the demographic structure of the Cypriot Communities,
     um þróun byggðar og fólksfjölda á Kýpur.
Recommendation 1198: on the crisis in former Yugoslavia,
     um ástandið í Júgóslavíu fyrrverandi.
Recommendation 1199: on the fight against international terrorism in Europe,
     um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi í Evrópu.
Recommendation 1200: on the future of the Mediterranean forest,
     um framtíð skóglendis á Miðjarðarhafssvæðinu.
Recommendation 1201: on an additional protocol on the rights of minorities to the     European Convention on Human Rights,
     um viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um réttindi minnihlutahópa.
Recommendation 1202: on religious tolerance in democratic society,
     um trúfrelsi í lýðræðislegu samfélagi.
Recommendation 1203: on Gypsies in Europe,
     um sígauna í Evrópu.
Recommendation 1204: on the creation of a transitional mechanism for the protection of     human rights in European non-member states of the Council of Europe,
     um stofnun eftirlits til bráðabirgða til að vernda mannréttindi í ríkjum Evrópu utan Evrópuráðsins.
Recommendation 1205: on the situation of the refugees and displaced persons in several     countries of former Yugoslavia,
     um aðbúnað flóttamanna og uppflosnaðs fólks í nokkrum ríkjum Júgóslavíu fyrrverandi.
Recommendation 1206: on the integration of migrants and community relations,
     um aðlögun aðflytjenda og samskipti við samfélagið.
Recommendation 1207: on population movements between the states of the former USSR,
     um fólksflutninga milli Sovétríkjanna fyrrverandi.
Recommendation 1208: on the health effects of the Chernobyl nuclear accident and the     need for stronger international action,
     um heilsufarslegar afleiðingar Tsjernobyl-slyssins og þörfina fyrir auknar alþjóðlegar aðgerðir.
Recommendation 1209: on the nuclear power plants in Central and Eastern Europe,
     um kjarnorkuver í Mið- og Austur-Evrópu.

Ályktanir:
Resolution 981: on the new North-South relationship,
     um breytt samskipti milli norðurs og suðurs.
Resolution 982: on the follow-up to the 1988 European Public Campaign on North-South     Interdependence and Solidarity,
    um eftirmála evrópska átaksins 1988 um samskipti og samstarf milli norðurs og suðurs.
Resolution 983: on a concerted European preparation of the United Nations Conference     on Environment and Development (Brazil, June 1992),
     um sameiginlegan undirbúning Evrópu fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál (Brasilíu, júní 1992).
Resolution 984: on the crisis in the former Yugoslavia,
     um hættuástandið í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu.
Resolution 985: on the situation of human rights in Turkey,
     um mannréttindamál í Tyrklandi.
Resolution 986: on technological risks and society,
     um tæknimál og samfélagið.
Resolution 987: on climate change,
     um veðurfarsbreytingar.
Resolution 988: on the activities of the OECD in 1991,
     um starfsskýrslu OECD fyrir árið 1991.
Resolution 989: on national parliaments and the construction of Europe,
     um þjóðþing og uppbyggingu Evrópu.
Resolution 990: on the political consequences of the Maastricht Treaty,
     um pólitískar afleiðingar Maastricht-samkomulagsins.
Resolution 991: on the activities of the International Committee of the Red Cross     (1989–91),
     um starfsemi Alþjóða Rauða krossins (1989–91).
Resolution 992: on the incompatibility of the offices of President of the Assembly and     member of government,
     um ósættanleika þess að gegna embætti forseta Evrópuráðsþingsins og hins að sitja í ríkisstjórn.
Resolution 993: on the general policy of the Council of Europe,
     um stefnu Evrópuráðsins.
Resolution 994: on the massive and flagrant violations of human rights in the territory     of former Yugoslavia,
     um víðtæk og svívirðileg mannréttindabrot á landsvæðum Júgóslavíu fyrrverandi.
Resolution 995: on economic renaissance in the Baltic Sea Region,
     um efnahagsþróun í Eystrasaltsríkjunum.
Resolution 996: on population movements between the states of former USSR,
     um fólksflutninga milli ríkja Sovétríkjanna fyrrverandi.



Fylgiskjal II.

FRÁSAGNIR AF ÞINGUM 44. ÞINGS EVRÓPURÁÐSINS



Frásögn af I. hluta 44. þings Evrópuráðsins


4.–8. maí 1992 í Strassborg.


    Dagana 4.–8. maí 1992 var haldinn I. hluti 44. reglulegs þings Evrópuráðsins (ER) í höfuðstöðvum ráðsins í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Björn Bjarnason formaður, Guðmundur Bjarnason, Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Þóra Guðnadóttir, ritari Íslandsdeildarinnar.
    Í upphafi þingsins var kjörinn nýr forseti þess. Einróma kosningu hlaut Miguel Angel Martinez, sósíalisti frá Spáni. Ísland á nú sæti í forsætisnefnd þingsins og skipar Björn Bjarnason það.
    Aðildarríkjum Evrópuráðsins fjölgar jafnt og þétt og 7. maí sl. varð Búlgaría 27. þátttökuríkið og eru þingfulltrúarnir þá orðnir 210 (420 ef varamenn eru með taldir). Auk þess sækja sérstakir gestir fundi þingsins og að þessu sinni bættust Króatar í þann hóp með fimm gestafulltrúa. Meðal höfuðmálefna á vettvangi Evrópuráðsins á næstunni verður að ákveða framtíðarskipan stofnunarinnar með hliðsjón af umsóknum æ fleiri ríkja. Hefur ríkisstjórn Rússlands nú formlega sótt um aðild og sat Kozyrev, utanríkisráðherra Rússa, fyrir svörum á fundi stjórnmálanefndar Evrópuráðsins í Strassborg 7. maí sl. Umræður um landfræðileg mörk Evrópuráðsins verða meginviðfangsefni II. hluta 44. þingsins í Búdapest 30. júní 1992. Voru gögn um þetta mikilvæga mál og tillögur um breytingar á stofnskrá Evrópuráðsins lagðar fram á nefndarfundum sem haldnir voru í tengslum við I. hluta 44. þingsins og er Íslandsdeildin fús að miðla þeim til allra er hafa áhuga á að kynna sér málið.
    Tveir þjóðhöfðingjar ávörpuðu þingið að þessu sinni:
    François Mitterrand Frakklandsforseti lagði hornstein að nýrri byggingu fyrir Mannréttindadómstól og mannréttindanefnd Evrópu og ávarpaði síðan þingið.
    Salia Berisha, nýkjörinn forseti Albaníu, flutti ræðu og svaraði fyrirspurnum.
    Kosnir voru tveir dómarar fyrir Tékkóslóvakíu (Bohumil Repik) og Pólland (Jerzy Makarczyk) í Mannréttindadómstól Evrópu.
    Samþykkt var tillaga til ráðherranefndarinnar um að aðildarríkjum RÖSE (en þau eru nú 52), sem ekki eru aðilar að Evrópuráðinu, verði heimilað að leita álits Mannréttindadómstóls Evrópu og sérfræðinganefndarinnar er starfar á grundvelli félagsmálasáttmála Evrópu auk þess sem nefnd Evrópuráðsins, er fjallar um varnir gegn pyntingum, geti heimsótt fleiri lönd en þau sem eru aðilar að Evrópuráðinu.
    Á sameiginlegum fundum stjórnmálanefndar og nefndar, er fjallar um málefni Evrópuríkja utan Evrópuráðsins, voru málefni Balkanskagans mjög til umræðu og sátu m.a. fulltrúar Makedóníu, Kósóvu og Vojvodínu fyrir svörum.
    Björn Bjarnason flutti ræðu undir dagskrárlið um undirbúning undir leiðtogafund aðildarríkja RÖSE í Helsinki 9.–11. júlí nk. Lára Margrét Ragnarsdóttir flutti ræðu undir dagskrárlið um málefni fatlaðra. Guðmundur Bjarnason flutti ræðu undir dagskrárlið um umhverfismál. Ritari Íslandsdeildarinnar hefur eintak af ræðunum fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér efni þeirra. Hjá ritara er einnig unnt að fá allar nánari upplýsingar um þinghaldið, svo sem um sameiginlegan undirbúning Evrópuþjóða undir Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál.
    Dagana 25.–26. maí nk. heldur sú undirnefnd landbúnaðarnefndar þings Evrópuráðsins, er fjallar um fiskveiðar, kynningarfund um sjávarspendýr í Reykjavík. Sigbjörn Gunnarsson hefur verið kjörinn formaður undirnefndarinnar en Jóhann Sigurjónsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, hefur annast vísindalegan undirbúning fundarins af Íslands hálfu. Sjávarútvegsráðuneytið hefur veitt Íslandsdeildinni aðstoð og stuðning vegna nefndarfundarins.
    Björn Bjarnason hefur verið tilnefndur af forsætisnefnd þings Evrópuráðsins til að vera fulltrúi hennar á öðrum fundi Eystrasaltsþingsins (Baltic Assembly), þ.e. sameiginlegu þingi Eistlands, Lettlands og Litáens, sem haldið verður í Palanga í Litáen 29.–31. maí 1992.
    Sumarþing Evrópuráðsins verður í Búdapest 28. júní til 1. júlí nk. Í framhaldi af því munu aðalmenn í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins taka þátt í fyrsta RÖSE-þinginu sem einnig verður haldið í Búdapest 1.–4. júlí.
    Þóra Guðnadóttir, ritari Íslandsdeildarinnar, veitir frekari upplýsingar og gögn sé þess óskað.

Frásögn af II. hluta 44. þings Evrópuráðsins


28. júní til 1. júlí 1992 í Búdapest.


    Um nokkurt árabil hefur það tíðkast að nefndir þings Evrópuráðsins hittist samtímis á fundum í einhverju aðildarríkjanna. Að þessu sinni voru slíkir sumarfundir nefndanna haldnir í Búdapest 28. og 29. júní sl. og samtímis var þar efnt til II. hluta 44. þings Evrópuráðsins og stóð þingfundurinn í einn dag, þriðjudaginn 30. júní. Aðalmenn og varamenn í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins sóttu þessa fundi ásamt ritara Íslandsdeildarinnar.
    Í þessari frásögn verður ekki greint frá því sem gerðist á fundum einstakra nefnda en unnt er að fá yfirlit yfir það hjá ritara Íslandsdeildarinnar og þeim sem í nefndunum sitja.
    Ætlunin var að höfuðmál á þingfundinum í Búdapest yrði að ákveða hvernig staðið skuli að því að fjölga aðildarríkjum í Evrópuráðinu nú þegar Sovétríkin hafa liðast í sundur ásamt Júgóslavíu og sífellt fleiri ríki eru að verða til í Evrópu. Um þetta voru ekki teknar ákvarðanir á þingfundinum heldur var talið nauðsynlegt að ræða málið frekar á grundvelli skýrslu frá Þjóðverjanum Reddemann, formanni hinnar pólitísku nefndar þingsins. Í þeirri skýrslu er gert ráð fyrir að landfræðileg mörk Evrópu verði dregin við Úralfjöll en jafnframt að samvinna við ríki austan þeirra marka skuli þó ekki útilokuð af hálfu Evrópuráðsins. Meginvandinn í þessu efni er þó sá hvernig brugðist skuli við umsókn frá Rússlandi um aðild að Evrópuráðinu en Rússland sótti formlega um aðild að ráðinu í maí sl.
    Þar sem ákvörðun um stækkun Evrópuráðsins var frestað urðu umræður um málefni Júgóslavíu og stöðu mannréttindamála í Tyrklandi meginatriði þingsins og var ályktað um þau mál og einnig um málefni innflytjenda til Tékkóslóvakíu, Ungverjalands og Póllands. Tyrkir sættu sig illa við skýrslugjöfina um mannréttindi í Tyrklandi og gengu af þingfundi í mótmælaskyni við hana.
    Augljóst er að fjölgun aðildarríkja Evrópuráðsins gerir starfsemi þess æ viðameiri. Reynslan af því að halda reglulegan þingfund í Búdapest verður nú metin, en þetta var í fyrsta sinn sem slíkur fundur var haldinn utan Strassborgar. Er líklegt að reglulegir sumarfundir þingsins verði framvegis í höfuðstöðvum þess í Strassborg, þannig að þingið komi reglulega saman fjórum sinnum á ári en ekki þrisvar eins og til þessa og auk þess verði efnt til sameiginlegra nefndarfunda í einhverju aðildarlandanna.

Frásögn af III. hluta 44. þings Evrópuráðsins


29. september til 8. október 1992 í Strassborg.


    Dagana 29. septemer til 8. október 1992 var haldinn III. hluti 44. þings Evrópuráðsins (ER) í þinghúsinu í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu Björn Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Þóra Guðnadóttir, ritari deildarinnar, þingið.
    Fulltrúar frá Úkraníu (12) og Hvíta-Rússlandi (7) sátu þingið nú í fyrsta sinn en ríkin hafa fengið gestaaðild að Evrópuráðinu. Tíu ríki eiga nú gestaaðild að Evrópuráðinu. Sérstakar sendinefndir frá Armeníu, Azerbajdzhan og Bosníu-Herzegóvínu áttu viðræður við þingmenn í nefndum ráðsins.
    Carl Bildt, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Janez Drnovsek, forsætisráðherra Slóveníu, ávörpuðu þingið og svöruðu fyrirspurnum. Hið sama gerði Cornello Sommaruga, forseti Alþjóða Rauða krossins. Jean-Claude Paye, framkvæmdastjóri OECD, flutti þinginu ársskýrslu fyrir árið 1991 og tók þátt í umræðum um hana ásamt þingmönnum frá Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Japan.
    Owen lávarður, sem ásamt Cyrus Vance hefur forustu fyrir alþjóðlegum tilraunum til að koma á friði í fyrrverandi Júgóslavíu, flutti ræðu á þinginu og tók þátt í umræðum um styrjöldina í landinu.     
    Mannréttindaverðlaun Evrópuráðsins voru afhent í þriðja skipti. Að þessu sinni var þeim skipt á milli dr. Felix Ermacora frá Austurríki fyrir störf hans í þágu mannréttindamála, en hann á sæti í mannréttindanefnd Evrópu, og samtakanna „Médecins sans frontières“ (Læknar án landamæra).
    Ályktað var um framtíðarsamstarf Evrópuríkja, pólitískar afleiðingar Maastricht-samkomulagsins, stöðu ungs fólks í „nýrri Evrópu“, tækniþróun og hættur af henni, breytingar á andrúmslofti í gufuhvolfinu, umhverfismál, breytingar á stofnunum til eftirlits með Mannréttindasáttmála Evrópu, félagslega útilokun vegna fátæktar, þróun byggðar og mannfjölgunar á Kýpur og málefni Rauða krossins.
    Kosinn var dómari fyrir Búlgaríu í Mannréttindadómstól Evrópu, Dimitar Bonev Gotchev.
    Vegna fjölgunar ríkja, sem senda fulltrúa til þings Evrópuráðsins, er augljóst að starfshættir á þinginu munu breytast. Áform eru um að hverju þingi verði skipt í fjórar fundalotur í stað þriggja (vor, haust og vetur) og sumarþing verði í Strassborg um mánaðamótin júní–júlí ár hvert. Þá yrði unnt að stytta haustfundinn en hvarvetna finnst þjóðkjörnum þingmönnum of langt að vera um tvær vikur á þingfundum í Strassborg eins og nú tíðkast á haustin.
    Fjölgun fulltrúa á þinginu leiðir einnig til þess að störf nefnda og þingflokka verða mikilvægari en áður og einnig svæðisbundið samstarf ríkja. Hafa fulltrúar Norðurlanda unnið að því að efla samstarf sitt á vettvangi Evrópuráðsins.
    Formenn norrænu sendinefndanna sendu forseta þings Evrópuráðsins bréf þar sem þeir hvetja til þess að hugað verði að starfsháttum þingsins til að tryggja að það geti fljótt og af festu brugðist við ef um mannréttindabrot í Evrópu er að ræða eða hafðar eru uppi ásakanir um slíkt brot. Þessi mál eigi að hafa forgang á vettvangi þingsins þótt það sé á kostnað annarra málefna.
    Meðan á þinginu stóð (3.–4. október) var haldin kvennaráðstefna á vegum Lýðræðisstofnunarinnar í Washington (Center for Democracy) og Evrópuráðsins. Viðfangsefnið var lýðræðisþróunin í Mið- og Austur-Evrópu með tilliti til stöðu kvenna.
    Ráðgert er að efna til leiðtogafundar aðildarríkja Evrópuráðsins í Vínarborg í október 1993.
    Upplýsingar um samþykktir þingsins og ræður á því er unnt að fá hjá ritara Íslandsdeildarinnar.
    Þess má geta að íslensku þingmennirnir óskuðu eftir fundi með tyrkneskum þingmönnum og kynntu þeim örlög dætra Sophiu Hansen og tilraunir hennar til að fá forræði þeirra. Tóku tyrknesku þingmennirnir málflutningi um mikilvægi þessa mannréttindamáls af skilningi.

Frásögn af IV. hluta 44. þings Evrópuráðsins


1.–5. febrúar 1993 í Strassborg.


    Dagana 1.–5. febrúar 1993 var IV. hluti 44. þings Evrópuráðsins haldinn í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu Björn Bjarnason, Guðmundur Bjarnason, Sigbjörn Gunnarsson, Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Þóra Guðnadóttir ritari þingið.
    Störf Evrópuráðsins mótast um þessar mundir mjög af breytingum og átökum í Mið- og Austur-Evrópu. Aðildarríki ráðsins eru nú 26 en þeim fækkaði um eitt með klofningi Tékkóslóvakíu; er nú unnið að því að kanna aðildarumsókn Tékklands og Slóvakíu. Þá eru aðildarumsóknir frá Litáen, Slóveníu og Eistlandi til lokaafgreiðslu og er líklegt að þessi ríki verði fullgildir aðilar að ráðinu í vor. Gestaaðild Moldóvu hefur verið samþykkt.
    Að þessu sinni ávörpuðu þrír þjóðarleiðtogar þingið: Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, Franz Vranitzky, kanslari Austurríkis, og Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs. Er leiðtogafundur Evrópuráðsins ráðgerður í Vín í byrjun október.
    Helstu málefni á dagskrá þingsins voru réttindi minnihlutahópa og Mannréttindasáttmáli Evrópu, trúmál og trúfrelsi, staða sígauna í Evrópu, almenn umræða um stefnu Evrópuráðsins, mannréttindabrot í ríkjum Júgóslavíu fyrrverandi, efnahagshorfur í Eystrasaltsríkjunum, fólksflutningar í Sovétríkjunum fyrrverandi, kjarnorkuver í Mið- og Austur-Evrópu og heilsufarslegar afleiðingar Tsjernobyl-slyssins og aðgerðir í framtíðinni, en um síðasta málið hafði Lára Margrét Ragnarsdóttir framsögu af hálfu þingnefndarinnar.
    Evrópuráðið mun á þessu ári standa fyrir aðstoð við nýja og lýðræðislega kjörna þingmenn í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Verða þeim kynnt þingleg vinnubrögð og lýðræðislegir starfshættir. Að loknum námskeiðum í Strassborg munu aðildarríki Evrópuráðsins taka á móti þingmönnum og kynna þeim aðstæður á vettvangi. Alþingi hefur að tillögu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins samþykkt að taka á móti tveim Rússum í október á þessu ári.
    Eins og áður sagði setja viðfangsefni, er tengjast Mið- og Austur-Evrópu, mjög svip á þing Evrópuráðsins. Þar hafa m.a. verið uppi hugmyndir um að komið verði á sérstökum dómstól til að fjalla um mannréttindi og hryðjuverk í Júgóslavíu fyrrverandi.
    Af málum, sem sérstaklega snerta Ísland á vettvangi þingsins, er ástæða til að nefna störf undirnefndar landbúnaðarnefndar, undir formennsku Sigbjörns Gunnarssonar, um hvali og hvalveiðar. Var greinilegt í fyrirspurnatíma að lokinni ræðu Gro Harlem Brundtlands að þetta verður hitamál þegar það kemur á dagskrá þingsins.
    Á fundi norrænu sendinefndanna skýrðu fulltrúar Noregs frá því að norska ríkisstjórnin hefði lagt til að Johan C. Løken verði næsti aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins. Keppir hann væntanlega um það embætti við austurrískan starfsmann mannréttindanefndar Evrópu.
    Nú hefur verið ákveðið að skipta þinghaldi Evrópuráðsþingsins í fjórar lotur og verður haldið sumarþing í Strassborg í fyrsta sinn um mánaðamót júní–júlí, en fyrsta lota 45. þingsins verður 10.–14. maí í Strassborg.