Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 403 . mál.


697. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1992.

    Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í starfi sambandsins á árinu 1992 var með hefðbundnum hætti. Íslandsdeildin tók þátt í báðum reglulegum þingum sambandsins. Það fyrra var haldið í Yaounde í Kamerún (87. þing) og hið síðara í Stokkhólmi í Svíþjóð (88. þing). Þá sótti formaður Íslandsdeildar einnig samráðsfundi norrænu deildanna í Alþjóðaþingmannasambandinu sem haldnir voru fyrir þingin.
    Á þinginu í Stokkhólmi var Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, kjörinn formaður Vesturlandahópsins (12-plúshópsins) innan Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1993, en í hópnum eru nú þingmenn frá 30 ríkjum Vestur- og Mið-Evrópu, Norður-Ameríku auk Ástralíu og Nýja-Sjálands.

A. ÞINGIÐ Í YAOUNDE


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 87. þing í Yaounde í Kamerún dagana 6.–11. apríl 1992. Þingið sóttu fulltrúar frá 89 þjóðþingum, en á þinginu voru auk þess áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóðasamtökum, þar á meðal ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðinu. Forseti Kamerún, Paul Biya, var við setningu þingsins og flutti ræðu.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður deildarinnar, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Þ. Þórðarson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Þingið í Kamerún var haldið á mikilvægum tímamótum í sögu landsins því stuttu fyrir þingið fóru fram fyrstu fjölflokkakosningarnar í landinu síðan 1965.

II. Störf og ályktanir þingsins.


1.    Umræðuefni þingsins.
    Á dagskrá þingsins í Yaounde voru að vanda tvö aðalumræðuefni. Hið fyrra var afstaða þingmanna til málefna á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu í júní sama ár. Seinna umræðuefnið var lýðræði og þjóðernisminnihlutar. Fyrir þinginu lágu jafnframt tillögur um viðbótarumræðuefni, en þingið getur tekið á dagskrá eitt viðbótarumræðuefni sem ákveðið er á þinginu sjálfu. Samþykkt var tillaga Ástrala um að fjallað yrði um áhrif alnæmisfaraldurs á hagvöxt og pólitískan og félagslegan stöðugleika, einkum í þriðja heiminum, sem og hvernig bregðast skuli við vandanum. Þá voru einnig að vanda almennar stjórnmálaumræður.
    Íslenska sendinefndin tók þátt í umræðum þingsins um umhverfismál og fluttu bæði Geir H. Haarde og Anna Ólafsdóttir Björnsson ræðu í því sambandi.

2.    Nefndastörf og ályktanir þingsins.
    Fyrir þinginu lágu frá ýmsum þjóðdeildum fjölmargar álitsgerðir og drög að ályktunum um tvö áðurgreind aðalefni sem þingið fjallaði um. Þá lágu einnig fyrir drög að ályktun frá Áströlum um viðbótarumræðuefnið. Að loknum löngum almennum umræðum um aðalumræðuefnin var ályktunardrögunum og álitsgerðunum vísað til hlutaðeigandi nefnda. Með hliðsjón af þeim gögnum gengu nefndirnar frá ályktunartillögum sem samþykktar voru einróma á síðasta degi þingsins.
    Fyrir frumkvæði íslensku sendinefndarinnar var sett í ályktun þingsins um umhverfismál áskorun til ríkisstjórna um að taka upp skynsamlega nýtingu fiskstofna og vinna að verndun hafsins. Jafnframt samþykkti þingið að senda Bush Bandaríkjaforseta opið bréf þar sem látin var í ljós óánægja með niðurstöðu mála á fundum undirbúningsnefndar umhverfisráðstefnunnar í Ríó og á það bent að afstaða Bandaríkjanna mundi ráða miklu um árangur ráðstefnunnar í Brasilíu. Í bréfinu var Bandaríkjaforseti einkum beðinn að endurskoða afstöðu sína til „stefnuskrár í umhverfismálum“ (Earth Charter), „framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum jarðar“ (Agenda 21), og alþjóðasamnings um aðgerðir til að stemma stigu fyrir veðurfarsbreytingar af völdum umhverfisröskunar. Anna Ólafsdóttir Björnsson sat í þeirri nefnd þingsins er fjallaði um umhverfismál.
    Auk umhverfismála setti umræðan um alnæmi mestan svip á þingið en mikil útbreiðsla þess sjúkdóms er veruleg ógnun við öll þjóðfélög í Afríku. Ólafur Þ. Þórðarson sat í þeirri nefnd er fjallaði um þetta dagskrárefni og þar koma m.a. fram að hætta er á að á næstu tíu árum muni lífslíkur íbúa Afríku minnka úr 62 árum í 48 ár vegna þessa sjúkdóms. Athyglisvert er að þeir þjóðfélagshópar í Afríku, sem eru í mestri hættu vegna sjúkdómsins, eru mennta- og valdastéttir álfunnar.
    Auk ályktana þingsins um umhverfismál og alnæmi var ályktað um lýðræði og minnihlutahópa og sérstök ályktun var samþykkt vegna valdaráns forseta Perú sem átti sér stað meðan á þinginu stóð, en forsetinn leysti þingið upp og tók sér öll völd.
    Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessar ályktanir, sem og aðrar ályktanir og gögn frá þinginu, er bent á að hafa samband við ritara Íslandsdeildarinnar.

3.    Kosningar í framkvæmdastjórn.
    Framkvæmdastjórn sambandsins, sem skipuð er tólf þingmönnum auk forseta ráðs sambandsins, fundaði einnig meðan þingið stóð yfir. Sú breyting varð á skipan framkvæmdastjórnarinnar að tveir stjórnarmenn létu af störfum, þeir Martinez frá Spáni (sem nú er orðinn forseti Evrópuráðsþingsins) og Valkov frá Búlgaríu. Í stað þeirra voru kjörnir Lehel Gyorgy Papp frá Ungverjalandi og Ilko Eskenazi frá Búlgaríu.

II. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Ráðið er hin formlega stjórn sambandsins og eiga í því sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Ólafur Þ. Þórðarson í ráðinu. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu málum sem komu til umræðu og ákvörðunar ráðsins.

1. Aðild að sambandinu.
    Á fundi ráðsins var samþykkt að víkja Zaire og Dóminíska lýðveldinu úr sambandinu. Zaire var vikið úr sambandinu þar sem þing landsins starfar ekki lengur og þjóðdeild þingsins í Dóminíska lýðveldinu hafði ekki staðið í skilum með árgjöld sín til sambandsins. Þá staðfesti ráðið þá afstöðu framkvæmdastjórnar sambandsins að Rússland skyldi taka við öllum skyldum og réttindum Sovétríkjanna fyrrverandi innan Alþjóðasambandsins.

2. Viðurkenningartákn Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á fundi ráðsins kynnti framkvæmdastjórnin tillögu, sem flutt var að frumkvæði Sir Michael Marshall, forseta sambandsins, um að sambandið veiti árlega sérstaka viðurkenningu (Parliamentary Diplomacy/Democracy Award) til handa einstaklingi vegna sérstaks framlags hans til að efla og stuðla að framgangi lýðræðis og lýðræðislega kjörinna þinga í heiminum. Ákveðið var að taka afstöðu til tillögunnar á næsta þingi sambandsins í september í Stokkhólmi.

3. Mannréttindamál þingmanna.
    Á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins starfar sérstök fastanefnd sem hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Hefur verulegur árangur náðst í þessu efni á undanförnum árum.
    Í ráðinu var lögð fram ítarleg skýrsla þessarar nefndar og gerð grein fyrir fangelsunum, ofsóknum og morðum á þingmönnum í átta ríkjum sem nefndin hefur haft til rannsóknar. Ríkin, sem hér er um að ræða, eru Síle, Kólombía, Miðbaugs-Gínea, Haítí, Hondúras, Indónesía, Maldíveyjar og Myanmar (áður Burma). Þeim sem vilja kynna sér skýrslu mannréttindanefndarinnar, sem er 85 síður, er bent á að hafa samband við ritara Íslandsdeildarinnar.
    Þá kaus ráðið Ole Espersen, formann dönsku deildarinnar, sem varamann í mannréttindanefnd sambandsins að tillögu íslensku sendinefndarinnar.

4. Skýrsla framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins.     
    Framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins lagði að vanda fram ítarlega skýrslu um störf sambandsins frá síðasta fundi ráðsins. Skýrslan er fróðleg lesning fyrir alla þá er vilja kynna sér starfsemi sambandsins.

5.     Fjármál Alþjóðaþingmannasambandsins.     
    Á fundi ráðsins voru lagðir fram endurskoðaðir reikningar sambandsins fyrir árið 1991 og voru þeir samþykktir.

6. Skýrslur sérnefnda.
    Fyrir ráðinu lágu skýrslur ýmissa sérnefnda. Þar er um að ræða skýrslu um ástand mála á Kípur, skýrslu um ástand mála í Mið-Austurlöndum og skýrslu um umhverfismál. Þessar skýrslur má fá hjá ritara Íslandsdeildarinnar.

7. Túlkun á arabísku.
    Ráðið samþykkti að frá og með árinu 1993 skyldu umræður á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins vera túlkaðar á arabísku. Lengi vel voru aðeins franska og enska hin opinberu tungumál sambandsins, en á fundi þess í Santíagó í október 1991 var samþykkt að bæta spænsku við sem opinberu máli í öllum umræðum á þinginu. Þó að opinber tungumál sambandsins séu þannig orðin fjögur þá miðast slíkt aðeins við umræður á fundum sambandsins því enn verða skjöl og önnur gögn sambandsins aðeins gefin út á ensku og frönsku.

IV. Störf óformlegra hópa á þinginu.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi óformlegra hópa sem þingfulltrúar skiptast í. Verður hér gerð grein fyrir fundum þeirra hópa sem fulltrúar í íslensku sendinefndinni tóku þátt í.

1. Fundir Norðurlandahópsins.
    Þjóðdeildir Norðurlanda í Alþjóðaþingmannasambandinu hafa með sér náið samstarf og skiptast á um að stýra þessu samstarfi. Svíar höfðu á hendi formennsku í hópnum á árinu 1992. Sendinefndir Norðurlanda hittust, samtals um 40 manna hópur þingmanna og starfsmanna, tvívegis meðan þingið stóð yfir, en auk þess voru haldnir óformlegir fundir formanna sendinefndanna.

2. Fundir Vesturlandahópsins (12-plúshópurinn).
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum Vesturlandahópsins en aðild að hópnum eiga nú þingmenn frá 30 ríkjum Vestur- og Mið-Evrópu og Norður-Ameríku, auk Ástralíu og Nýja-Sjálands. Hópurinn fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samsráðsfundum var afstaða til einstakra mála og þátttaka í nefndastarfi rædd.
    Á fundum Vesturlandahópsins var einnig rætt um skipulag hópsins og m.a. samþykkt að frá og með þinginu í Stokkhólmi í september yrði formaður hópsins kjörinn samkvæmt tilnefningu en sú regla hefur gilt að aðildardeildir hópsins hafa skipst á að fara með formennsku í hópnum í eitt ár í senn og hefur þá stafrófsröð ráðið því í hlut hvaða lands formennskan hefur komið hverju sinni.

3. Fundir kvenfulltrúa á þinginu.
    Konur, sem sitja þing Alþjóðaþingmannasambandsins, hafa síðan 1975 haldið með sér sérstakan fund á þinginu til að ráða ráðum sínum. Hópur sá, sem stendur fyrir þessum fundum, hefur með árunum orðið æ betur skipulagður og látið meira að sér kveða í starfi sambandsins. Á þinginu í Yaounde hélt hópurinn tvo fundi til að ræða málefni þingsins, sem og nýútkomna skýrslu sem Alþjóðaþingmannasambandið hefur gefið út um þátttöku kvenna í stjórnmálum (Women and Political Power). Anna Ólafsdóttir Björnsson sótti báða þessa fundi.

4. Fundur fulltrúa frá RÖSE-ríkjum.
    Fulltrúar frá þeim ríkjum, sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum um öryggi og samvinnu í Evrópu, héldu einn fund meðan þingið stóð yfir og var á þeim fundi samþykkt að þetta yrði síðasti þingmannafundur RÖSE í tenglum við starf Alþjóðaþingmannasambandsins. Fundarmenn voru sammála um að eftir stofnun sérstaks RÖSE-þings væru þessir fundir orðnir óþarfir.

B. ÞINGIÐ Í STOKKHÓLMI


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 88. þing í Stokkhólmi í Svíþjóð dagana 7.–12. september 1992. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildar sambandsins þingmennirnir Geir H. Haarde og Svavar Gestsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Alls sóttu þingið fulltrúar 103 þinga og var þetta var eitt fjölmennasta þingið í sögu sambandsins. Þátttakendur, þingmenn, starfsmenn og annað fylgdarlið, voru rúmlega þúsund manns. Karl Gústav Svíakonungur var við setningu þingsins og flutti ræðu.
    Þinghaldið var mjög vel skipulagt af hálfu sænska þingsins og voru þátttakendur almennt sammála um að það hefði verið Svíum til mikils sóma.
    

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju voru tvö aðalumræðuefni á dagskrá þingsins. Hið fyrra var framlag þinga til að efla Sameinuðu þjóðirnar og seinna umræðuefnið var þörfin á róttækri lausn til að leysa skuldavandamál þróunarlandanna. Viðbótarumræðuefnið var sá alþjóðlegi vandi sem stafar af fjöldaflutningi fólks milli landa. Þingið ályktaði um öll þessi mál auk þess sem harðorð ályktun var sérstaklega samþykkt um ástand mála í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu.
    Þá voru einnig að vanda almennar stjórnmálaumræður á þinginu og tók Geir H. Haarde þátt í þeim umræðum og gerði einkum að umtalsefni skipulagsmál Alþjóðaþingmannasambandsins en mikil umræða fer nú fram um breytingar á starfsháttum sambandsins.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Svavar Gestsson fundi ráðsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu málum sem komu til umræðu og ákvörðunar ráðsins.
    
1. Aðild að sambandinu.
    Ráðið samþykkti að veita átta þingum aðild að sambandinu. Þar er um að ræða þingin í Súdan, Botswana, Benín, Malí, Úzbekistan, Slóveníu, Króatíu og Moldóvu.
    Fjórum aðildarþingum var vikið úr sambandinu. Afganistan og Perú var vikið úr sambandinu þar sem ekkert þing er þar lengur starfandi. Miðbaugs-Gíneu og Hondúras var vikið úr sambandinu þar sem þing landanna hafa ekki staðið í skilum með árgjöld sín til sambandsins. Ákvörðun um hvort víkja ætti Alsír úr sambandinu var frestað til næsta þings sambandsins þar sem óljóst var um stöðu þess þings sem þar starfar nú.

2. Ráðstefna um mannréttindamál.
    Ráðið samþykkti að Alþjóðaþingmannasambandið stæði fyrir ráðstefnu í Búdapest 12.–16. maí 1993 um hlutverk þjóðþinga sem verndara mannréttinda. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þátttöku Íslandsdeildarinnar í þeirri ráðstefnu.

3. Mannréttindamál þingmanna.
    Mannréttindanefnd Alþjóðaþingmannasambandsins lagði að vanda fram ítarlega skýrslu á þinginu þar sem gerð er grein fyrir fangelsunum, ofsóknum og morðum á þingmönnum í ellefu ríkjum sem nefndin hefur haft til rannsóknar. Ríkin, sem hér er um að ræða, eru Búlgaría, Síle, Kólombía, Miðbaugs-Gínea, Haítí, Hondúras, Indónesía, Maldíveyjar, Mayanmar (áður Burma), Tógó og Tyrkland.
    Í samræmi við aukna áherslu Alþjóðaþingmannasambandsins á mannréttindamál var ákveðið að gera tillögu til þingsins um lagabreytingu þar sem bætt er inn nýju ákvæði þar sem kveðið er á um að eitt af hlutverkum sambandsins sé að efla og standa vörð um mannréttindi.
    Á fundi ráðsins var Josi Meier, fyrrverandi formaður svissnesku sendinefndarinnar, kjörinn í mannréttindanefnd sambandsins í stað Neiman frá Kanada.     

4. Næstu þing sambandsins.
    Ráðið tók ákvörðun um næstu þing sambandsins og verða þau sem hér segir:
    89. þing: Í Nýju-Delhi 12.–17. apríl 1993.
    90. þing: Í Canberra 13.–18. september 1993.
    91. þing: Í París 21.–26. mars 1994.
    92. þing: Í Kaupmannahöfn 12.–17. september 1994.
    93. þing: Í Madríd í apríl 1995.

5. Skýrsla framkvæmdastjóra sambandsins.
    Framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins lagði að vanda fram ítarlega skýrslu um störf sambandsins frá síðasta fundi ráðsins.

6. Staða kvenna.
    Framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins lagði fram ítarlega skýrslu um störf kvennahópsins innan sambandsins, sem og þátt þess í að efla hlut kvenna í starfi sambandsins.
    Þá var lögð fram skýrsla um stofnun sérstaks vinnuhóps sem ætlað er að skila áliti um aðgerðir til að efla hlut kvenna í stjórnmálum. Vinnuhópurinn mun funda í Nýju-Delhi í apríl 1993.

7. Fjárhagsáætlun sambandsins.
    Á fundi ráðsins var lögð fram fjárhagsáætlun sambandsins fyrir árið 1991 og var hún samþykkt samhljóða. Samkvæmt áætluninni er framlag Alþingis til rekstrar sambandsins á árinu 1993 22.399 svissneskir frankar, sem næst 950 þús. íslenskra króna. Áætlað er að heildarútgjöld sambandsins á árinu 1993 verði sem næst 390 millj. íslenskra króna.

8. Skýrslur sérnefnda.
    Líkt og á undanförnum þingum lágu fyrir ráðinu skýrslur ýmissa sérnefnda sambandsins. Á þessum fundi var lögð fram skýrsla um ástand mála á Kípur og skýrsla um ástand mála í Miðausturlöndum.

9. Kjör í framkvæmdastjórn.
    Sú breyting varð á skipan framkvæmdastjórnarinnar að tveir stjórnarmenn létu af störfum þar sem kjörtímabil þeirra rann út. Það voru Morales frá Nikaragva og Megahed frá Egyptalandi. Í stað þeirra hlutu kosningu til fjögurra ára Mazhoud frá Túnis og Castillo Lopez-Acosta frá Venesúela. Þessi kjör voru síðan staðfest á þingfundi.

10. Ráðstefna um öryggi og samvinnu við Miðjarðarhafið.
    Lögð var fram skýrsla um ráðstefnu Alþjóðaþingmannasambandsins um öryggi og frið við Miðjarðarhafið sem haldin var í júní 1992 í Malaga á Spáni. Enginn fulltrúi Íslandsdeildarinnar sótti ráðstefnuna.

IV. Störf óformlegra hópa á þinginu.

    
    Eins og á fyrri þingum var mikið um fundi ýmissa óformlegra hópa í tengslum við þinghaldið. Íslenska sendinefndin tók þátt í fundum Norðurlandahópsins og fundum Vesturlandahópsins (12-plúshópurinn).
    Á fundinum í Stokkhólmi tók gildi nýtt skipulag varðandi formennsku hópsins eins og greint var frá í frásögninni af þinginu í Yaounde. Á fundi Vesturlandahópsins gerði breska sendinefndin tillögu um að Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildar sambandsins, yrði næsti formaður hópsins. Tillaga Breta var einróma samþykkt og mun því Íslandsdeildin hafa á hendi forustu fyrir Vesturlandahópnum til ársloka 1993 og m.a. stýra starfi hópsins á næstu tveimur þingum Alþjóðaþingmannasambandsins. Vesturlandahópurinn er best skipulagði og áhrifamesti hópurinn innan Alþjóðaþingmannasambandsins og ræður miklu um störf sambandsins. Með formennsku í hópnum hefur því Íslandsdeildinni verið sýnt verulegt traust sem ekki síst byggir á virkri og ábyrgri þátttöku íslensku sendinefndarinnar undanfarin ár.
    Á þinginu létu Svíar af formennsku í norræna samstarfinu og við tóku Norðmenn. Norrænu deildirnar hafa með sér náið samstarf innan Alþjóðaþingmannasambandsins og skiptast á um að stýra því samstarfi í eitt ár í senn.

Alþingi, 5. mars 1993.



Geir H. Haarde,

Ólafur Þ. Þórðarson.

Gunnlaugur Stefánsson.


form.



Margrét Frímannsdóttir.

Einar K. Guðfinnsson.