Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 439 . mál.


756. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar er fylgjandi því að gripið sé til nauðsynlegra aðgerða til að styrkja stöðu Landsbankans og tryggja með óyggjandi hætti að hann standist allar þær kröfur sem til hans eru gerðar. Er hér bæði átt við hlutverk hans sem stærsta og langmikilvægasta viðskiptabanka atvinnuveganna í landinu, sérstaklega sjávarútvegsins, en einnig hinar nýju alþjóðlegu viðmiðunarreglur um eiginfjárhlutfall lánastofnana (BIS-reglur).
    Legið hefur fyrir um nokkurt skeið að staða Landsbankans væri tæp í þessu sambandi. Fátt hefði því átt að koma á óvart í þessu efni og má minna á athugasemdir bankaeftirlitsins undanfarin ár, svo og upplýsingar um eiginfjárhlutfall bankans þegar svonefndar BIS-reglur voru lögfestar á sl. ári. Tæpt eiginfjárhlutfall Landsbankans með tilliti til þess hlutverks sem hann hefur í íslenska bankaheiminum, svo og tilkoma BIS-reglnanna, er því ekkert sem er að koma til sögunnar nú. Á hinn bóginn má benda á að staða bankans um þessar mundir er að ýmsu leyti góð. Þannig er lausafjárstaðan ein sú besta í langan tíma og bankinn hefur ekki þurft að greiða Seðlabanka refsivexti upp á síðkastið eins og áður tíðkaðist.
    Það sem hefur breyst til hins verra, og það svo um munar, eru hinar almennu aðstæður í efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Bankinn deilir að sjálfsögðu kjörum með fyrirtækjum og heimilum í landinu hvað afkomu snertir og vaxandi erfiðleikar og áföll í atvinnulífinu og hjá heimilunum endurspeglast í stóraukinni afskriftarþörf bankanna.
    Minni hluti nefndarinnar telur hins vegar aðferðir ríkisstjórnarinnar í þessu máli stórlega ámælisverðar. Verulega skortir á að undirbúningur málsins hafi verið með þeim hætti sem skyldi í svo vandasömu og viðamiklu máli. Þannig er ýmislegt óljóst um útfærslu aðgerðanna, áhrif þeirra á innbyrðis samkeppnisstöðu lánastofnana og á orðstír bankakerfisins inn á við sem út á við. Athuga hefði þurft mun betur en gert hefur verið þær leiðir sem til greina koma í þessu sambandi. Annars staðar á Norðurlöndum hefur yfirleitt verið valin sú leið að ríkið hefur yfirtekið hluta af ótryggustu útlánum eða eignum bankanna og síðan séð um að koma þeim í verð eftir atvikum. Ríkið eða sjóðir á þess vegum taka þannig að sér hluta þeirra verkefna sem annars hefðu kallað á aukna afskriftarþörf bankanna. Þessa aðferð hefði að mati minni hlutans átt að skoða betur. Einnig hefur verið nefndur sá möguleiki að fjársterkir sjóðir yrðu sameinaðir bankanum og efnahagur hans þannig styrktur. Því fer fjarri að það hafi verið skoðað til fulls hvort ekki hefði verið réttara að fara a.m.k. að hluta til slíkar leiðir hér.
    Sú leið, sem ríkisstjórnin hyggst fara, hefur það í för með sér að færa verður geysiháar fjárhæðir gegnum rekstrarreikning bankans yfir í afskriftarreikning útlána og gera bankann upp að sama skapi með miklu rekstrartapi. Slíkt tap er að sjálfsögðu afar óheppileg útkoma fyrir bankann til að sýna út á við sem inn á við.
    Verst er þó það óðagot og hræðsluástand sem ríkisstjórnin skapaði sl. þriðjudag með flausturslegum vinnubrögðum. Enga brýna nauðsyn bar til þeirra taugaveiklunarlegu viðbragða og atburða sem urðu þennan eftirmiðdag. Því miður er næsta víst að þetta moldviðri hefur skaðað orðstír landsins út á við og getur orðið til þess að veikja lánstraust og gera lánskjör landsmanna erlendis óhagstæðari.
    Minni hlutinn telur að rétt sé að gera ákveðnar breytingar á frumvarpinu og eru fluttar um það breytingartillögur á sérstöku þingskjali og vísast til þess. Helstu atriði breytingartillagnanna eru annars þessi:
    1. Lagt er til að í 1. gr. verði skýrt tekið fram að hluti af þeim 2 milljarða kr. stuðningi, sem Landsbankinn fær frá eiganda sínum, ríkinu, geti komið til gegnum yfirtöku ríkisins á útlánum eða eignum bankans sem leiðir til þess að staða hans styrkist.
    2. Í öðru lagi verði teknar strax upp rýmri heimildir banka og sparisjóða til að yfirtaka eignir og taka þátt í rekstri, sem annars er ekki á þeirra verksviði, til að gæta hagsmuna sinna þegar svo ber undir, sbr. 45. gr. fyrirliggjandi frumvarps um viðskiptabanka.
    3. Þá eru fluttar tillögur um breytingar á 3. og 5. gr. frumvarpsins sem fela það í sér að um leið og hlutverki Tryggingarsjóðs viðskiptabanka er breytt og honum er heimilað að veita víkjandi lán til að aðstoða banka sem eiga í erfiðleikum er gert skýrt að til þurfi að koma samþykki ráðherra og Alþingis. Ákvæðum 5. gr. er breytt í samræmi við þetta í það horf að veitt er heimild til að ábyrgjast lántöku Tryggingarsjóðsins allt að 1 milljarði kr. sem er sú upphæð sem ákveðið hefur verið að veita Landsbankanum nú.
    4. Þá er loks lagt til að 6. gr. frumvarpsins falli brott. Engin ástæða er til að lögbinda ákvæði um slíka samningagerð. Ákvæði frumvarpsins eru í formi heimilda og ráðherrar hafa því öll tök á að tryggja, m.a. með samningum eftir því sem þurfa þykir, að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar samfara veittri aðstoð. Ekki verður séð að ástæða sé til að setja upp eitthvert viðbótareftirlit eða tilsjón umfram það sem þegar er heimilt samkvæmt lögum.
    Minni hlutinn mun styðja þær greinar frumvarpsins sem lúta beint að aðstoðinni við Landsbankann, eins þótt breytingartillögur minni hlutans varðandi þetta atriði nái ekki fram að ganga. Varðandi önnur ákvæði frumvarpsins mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu þeirra náist breytingarnar ekki fram og þá einnig við afgreiðslu frumvarpsins í heild.

Alþingi, 18. mars 1993.



Steingrímur J. Sigfússon.