Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 439 . mál.


758. Breytingartillögur



við frv. til l. um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar (SJS).



    Við 1. gr. Á eftir orðunum „jafngildum hætti“ í fyrri málslið 1. gr. komi: svo sem með yfirtöku eigna eða útlána sem bæti stöðu bankans.
    Á eftir 2. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  29. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, orðast svo:
                  Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt að mati bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra.
                  Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að stunda tímabundið aðra starfsemi en þá sem um getur í 26.–28. gr. ef slík þátttaka er einungis í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum fyrirtækja við viðskiptabanka eða sparisjóð og sé liður í endurskipulagningu á starfsemi viðskiptaaðila þessara stofnana. Skýrsla hér að lútandi skal send bankaeftirlitinu.
    3. gr. orðist svo:
                  Í stað 1. mgr. 51. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, komi tvær nýjar málsgreinar er orðist svo:
                  Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag. Hlutverk hans er annars vegar að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að skv. 1. mgr. 47. gr. og hins vegar að veita viðskiptabanka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Áður en stjórn sjóðsins ákveður að veita víkjandi lán úr sjóðnum skal hún leita samþykkis viðskiptaráðherra og Alþingis.
                  Stefnt skal að því að heildareign Tryggingarsjóðs nái 1% af heildarinnlánum viðskiptamanna bankanna á innlánsreikningum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til Tryggingarsjóðs er nemi allt að 0,15% af heildarinnlánum samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.     
    Við 5. gr. Greinin orðist svo:
                  Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku Tryggingarsjóðs viðskiptabanka að fjárhæð allt að 1.000 m.kr.
    Við 6. gr. Greinin falli brott.