Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 273 . mál.


768. Nefndarálit



um frv. til hjúskaparlaga.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar á tveimur þingum og fjallað ítarlega um það. Minni hluti nefndarinnar styður þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu á milli þinga, svo og breytingartillögur meiri hlutans, en þar er nánast eingöngu um minni háttar lagfæringar að ræða. Minni hlutinn styður efni frumvarpsins í meginatriðum en flytur breytingartillögu við tvær greinar frumvarpsins.
    Eðlilegt verður að telja að steypa lögum nr. 60/1972 og nr. 20/1923 saman í einn bálk og sömuleiðis að fella inn í hann lög nr. 39/1992 er einkum vörðuðu breytingar á ákvæðum laga um hjúskap vegna þeirrar stjórnkerfisbreytingar sem gerð var á sl. ári.
    Fyrri breytingartillaga minni hlutans er við 40. gr. frumvarpsins. Lagt er til að 1. mgr. greinarinnar endi á orðunum „krafist lögskilnaðar“ og niðurlag málsgreinarinnar falli brott. Þar er leitast við að skilgreina hvers konar ofbeldi telst nógu alvarlegt til að heimila lögskilnað án tafa. Ofbeldi er alltaf alvarlegt og því er slík flokkun óþörf og óæskileg. Í skýringum við greinina stendur m.a.: „Um líkamsárás er hér miðað við að hún sé allalvarleg . . . “ Enn fremur segir: „Minni háttar líkamsmeiðingar falla utan marka ákvæðisins.“ Flokkun ofbeldis í „minni háttar“ og „meiri háttar“ er bæði erfitt matsatriði og gæti vakið þá hugsun að stundum sé ofbeldi ekkert sérlega alvarlegt. Undir slíkt getur minni hlutinn engan veginn tekið. Hins vegar styður minni hlutinn þá breytingu, sem gerð hefur verið á frumvarpinu frá upprunalegri gerð þess, að taka sérstaklega fram að í 40. gr. sé bæði átt við kynferðislegt ofbeldi og annað ofbeldi.
    Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu, m.a. er varða sameiginlega ábyrgð hjóna á heimilishaldi, eignum og skuldbindingum. Þau styður minni hlutinn en telur of skammt gengið. Rétt hefði verið að kveða á um samráð hjóna hvað varðar aðrar fjárhagslegar skuldbindingar en veðsetningu eigna þeirra, sbr. 61. og 62. gr. frumvarpsins. Um það náðist hins vegar ekki samstaða í nefndinni. Verði þetta frumvarp að lögum óbreytt mun það t.d. merkja að ef annað hjóna er skráð fyrir fasteign getur það tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar, svo sem með því að skrifa upp á lán, án vitundar eða samþykkis hins. Kröfuhafar geta gengið að eigninni til greiðslu slíkrar skuldar án þess að það hjóna, sem ekki er skráð fyrir fasteigninni, geti rönd við reist. Þetta er óbreytt frá núgildandi lögum en minni hluti allsherjarnefndar telur það allsendis óviðunandi að annað hjóna geti skert hjúskapareign hins með því að gangast í ábyrgð fyrir aðra. Fram kom hjá fulltrúum dómsmálaráðuneytis o.fl. að ákvæði 59. gr. frumvarpsins um tilhlýðilega meðferð á hjúskapareign gerðu slíkt athæfi ekki ólöglegt. Minni hluti allsherjarnefndar ákvað að fara þá leið að flytja breytingartillögu við 54. gr. laga til að tryggja að hjón væru bæði skrifuð fyrir allri hjúskapareign þannig að annað þeirra gæti aldrei ráðstafað meiru en sínum helmingi hjúskapareignar. Tillagan er á þskj. 762 (2. liður). Minni hlutinn leggur til að greinin orðist svo: „Eign maka verður hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars og skal skrá hana á nöfn beggja. Á þetta við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hverjum hætti eignar er aflað að lögum.“
    Í umræðum um frumvarpið í allsherjarnefnd komu upp nokkur álitamál en minni hlutinn lætur að sinni nægja að flytja þær tvær breytingartillögur sem á undan eru nefndar. Reynslan mun án efa skera úr um hvernig lögin reynast, bæði þau nýmæli sem í þeim er að finna og eldri ákvæði sem misjafnlega vel hefur gengið að framfylgja.

Alþingi, 19. mars 1993.



Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Kristinn H. Gunnarsson.


frsm.