Ferill 287. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 287 . mál.


804. Nefndarálit



um frv. til l. um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem var fyrst flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Landbúnaðarnefnd fjallaði þá um málið og bárust nefndinni umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands og búnaðarþingi, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Páli A. Pálssyni, fyrrverandi yfirdýralækni, og Dýralæknafélagi Íslands.
    Að lokinni umfjöllun nefndarinnar afgreiddi hún málið til landbúnaðarráðuneytisins með ósk um að þar yrði frumvarpið endurskoðað, m.a. með hliðsjón af þeim umsögnum sem fyrir lágu hjá landbúnaðarnefnd. Frumvarpið er því endurflutt með tilliti til ábendinga er bárust frá fyrrgreindum umsagnaraðilum.
    Á fund nefndarinnar komu Jón Höskuldsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Páll A. Pálsson, fyrrverandi yfirdýralæknir, Sigurður Sigurðarson dýralæknir og Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir. Þá bárust nefndinni enn á ný umsagnir frá Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum og búnaðarþingi.
    Í frumvarpi þessu er öllum ákvæðum um varnir og útrýmingu sjúkdóma skipað í einn lagabálk í stað þess að áður giltu ákvæði ýmissa laga um varnir og útrýmingu ákveðinna sjúkdóma, t.d. berklaveiki, mæðiveiki og riðuveiki. Nefndin telur að þessar breytingar séu mikið til bóta og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á 3. gr. frumvarpsins. Rétt þykir að taka fram að varúðarskylda héraðsdýralækna vegna nýrra dýrasjúkdóma eigi ekki aðeins við um sjúkdóma erlendis frá heldur eigi sömu sjónarmið einnig við um smit á milli sóttvarnarsvæða.
    Breytingin á 7. gr. varðar aðeins orðalag greinarinnar og þarfnast því ekki skýringa.
    Lagt er til að 11. gr. verði orðuð upp nýtt. Breytingin felur í sér að yfirdýralæknir fær heimild til að takmarka eða banna flutning dýra og hluta, jafnt innan sóttvarnarsvæða sem á milli þeirra, ef hætta er á að smitefni eða aðrir sjúkdómsvaldar geti borist til ósýktra staða. Þá er lagt til að heimild yfirdýralæknis takmarkist við að hætta sé á útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra enda er erfitt að meta hvenær „stórfellt tjón“ geti átt sér stað.
    Lögð er til sú breyting á 12. gr. að í stað þess að þeir er fá afnotarétt af landi vegna uppsetningar nýrra varnarlína greiði bætur til þess er missir afnotaréttinn verði greiðsla bótanna á ábyrgð ríkissjóðs.
    Breytingin á 13. gr. felur í sér að aðeins skuli leita umsagnar hjá heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags eigi að urða þær afurðir er greinin tekur til.
    Breytingin á 15. gr. felur annars vegar í sér að bætt er við greinina nokkrum atriðum er kveðið skal á um í reglugerð varðandi sæðistöku o.fl. Hins vegar er lagt til að tekin verði af tvímæli um að ráðherra sé skylt, en ekki aðeins heimilt, að setja reglur um heilbrigðiskröfur sem eru gerðar varðandi þau dýr sem notuð eru sem fósturmæður.
    Lagt er til að orðið „sveitarsjóði“ í 19. gr. verði í fleirtölu til að taka af allan vafa um að fleiri en eitt sveitarfélag geti þurft að greiða kostnað við uppsetningu, rekstur og viðhald aukavarnarlína.
    Breytingin á 27. gr. felur í sér skilgreiningu á verksviði dýrasjúkdómanefndar. Auk þess er lagt til að efni 2. mgr., um svæðisnefnd, verði sameinað ákvæðum nýrrar 28. gr.
    Lagt er til að í stað 28. gr. frumvarpsins, sem fellur efnislega brott, komi ný grein annars efnis. Frumvarpið felur í sér að lög nr. 23/1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu á þeim, ásamt síðari breytingum, falla brott. Nokkur atriði þeirra laga eru ekki í frumvarpi þessu, svo sem ákvæði um fjárskipti og fjárskiptafélög. Eftir nánari skoðun og með tilliti til umsagna, er nefndinni bárust, er lagt til að í 28. gr. verði ákvæði, sem áður var í 2. mgr. 27. gr., um svokallaðar svæðisnefndir, enda er litið svo á að svæðisnefnd svipi í eðli sínu til þeirra fjárskiptafélaga sem störfuðu samkvæmt lögum nr. 23/1956. Hlutverk svæðisnefnda er betur skilgreint og kveðið er á um samstarf við dýrasjúkdómanefnd um framkvæmd niðurskurðar, endurnýjun bústofns o.fl. Í 2. mgr. er lagt til að áfram verði í lögum skylda til sölu líflamba, sbr. 32. gr. laga nr. 23/1956. Takmarkast ákvæðið við sauðfé enda gæti verið óhægt um vik að fá nægilegan fjölda líflamba kæmi til umfangsmikilla fjárskipta. Sömu sjónarmið eiga vart við um aðrar búfjártegundir.
    Breytingin á 31. gr. varðar gildistöku og þarfnast ekki skýringa.
    Breytingar á viðaukum við frumvarpið gera ráð fyrir að við tilkynningarskylda sjúkdóma í viðauka 1 bætist tveir nýir sjúkdómar og 13 tegundir sjúkdóma að auki sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði skráðir í viðauka 2. Við nánari skoðun þótti skipan þessi eðlilegri þar sem útrýming þessara sjúkdóma kynni að reynast erfiðari hér á landi en dæmi eru um erlendis.
    Eggert Haukdal og Ragnar Arnalds rita undir nefndarálitið með fyrirvara um skipan dýrasjúkdómanefndar samkvæmt frumvarpinu. Þeir styðja þá skipan að yfirdýralæknir hafi forustu nefndarinnar með höndum en telja eðlilegra að það samband sem er samkvæmt gildandi lögum á milli sauðfjársjúkdómanefndar og Alþingis, sbr. 4. gr. laga nr. 23/1956, hefði einnig haldist varðandi dýrasjúkdómanefnd.

Alþingi, 20. mars 1993.



Egill Jónsson,

Össur Skarphéðinsson.

Árni R. Árnason.


form., frsm.



Guðni Ágústsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Einar K. Guðfinnsson.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Eggert Haukdal,

Ragnar Arnalds,


með fyrirvara.

með fyrirvara.