Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 14 . mál.


841. Nefndarálit



um frv. til l. um neytendalán.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá viðskiptaráðuneyti Björn Friðfinnsson, Finnur Sveinbjörnsson, Þórunn Erharðsdóttir og Páll Ásgrímsson, frá Verðlagsstofnun Sigurjón Heiðarsson og Guðrún Kristmundsdóttir, frá Neytendasamtökunum Jóhannes Gunnarsson og Sólrún Halldórsdóttir, frá Verslunarráði Íslands Jónas Fr. Jónsson og Pétur Steingrímsson, Björn Arnórsson frá BSRB, Guðlaugur Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Leifur Steinn Elísson frá Visa-Ísland og Unnur Gunnarsdóttir frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands. Þá bárust umsagnir frá ASÍ, bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, BSRB, Félagi íslenskra iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna, Iðnlánasjóði, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Tryggingastofnun ríkisins, Verslunarráði Íslands og Visa-Ísland.
    Nefndin leggur til að gerðar verði viðamiklar breytingar á frumvarpinu og eru þær eftirtaldar:
    Lögð er til sú breyting á 1. gr. að gildissvið laganna þrengist og nái aðeins til lána sem neytendur taka en ekki til lána sem tekin eru í tengslum við atvinnustarfsemi. Sú skipan, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, leggur of mikla upplýsingaskyldu á fyrirtæki. Í samræmi við þetta er lagt til að orðið „neytandi“ komi í stað orðsins „lántakandi“ alls staðar í frumvarpinu, sbr. 3. tölul. breytingartillagna.
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. að í d-lið verði tiltekin bæði hámarks- og lágmarksfjárhæð og verða lánssamningar lægri en 15.000 kr. og hærri en 1.500.000 kr. undanþegnir ákvæðum laganna.
    Lagt er til að 3. gr. verði breytt þannig að skylt sé að veita eigendum tékkareikninga upplýsingar um hvernig lánssamningi um yfirdráttarheimild skuli sagt upp. Enn fremur bætist við ákvæði um hvernig tilkynna megi eigendum tékkareikninga um breytingar á ársvöxtum eða viðeigandi gjöldum sem verða á samningstímanum.
    Lögð er til breyting á 4. gr. til þess að þrengja skilgreiningu á hugtakinu „neytandi“.
    Lagt er til að 6. gr. verði breytt þannig að „fjárhæð útborgunar“ í 2. tölul. verði skýrð sem höfuðstóll að frádregnum kostnaði.
    Lagt er til að hugtakanotkun 7. gr. verði lagfærð.
    Lögð er til sú breyting á 9. gr. að síðari málsgrein falli brott en þar er lögð mjög rík tilkynningarskylda á lánveitendur sem erfitt gæti reynst að uppfylla. Telja verður nægilegt að neytandi fái skýrar og ótvíræðar upplýsingar við samningsgerðina, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Enn fremur er lagt til að 3. málsl. fyrri málsgreinar falli brott en hann felur í sér takmörkun á heimild aðila til að semja um lánskjör.
    Lagt er til að 10. gr. verði breytt til þess að gera hugtakið „árleg hlutfallstala kostnaðar“ skýrara.
    Lagt er til að 12. gr. verði breytt þannig að vísitölubinding og verðlagsviðmiðun teljist til vaxtagjalda í ákvæðinu.
    Lögð er til breyting á 13. gr. þannig að ekki verði skylt að veita upplýsingar þær, sem greindar eru í ákvæðinu, í öllum auglýsingum um lán og lánafyrirgreiðslu heldur verði skyldan bundin við auglýsingar og tilboð sem liggja frammi á starfsstöð lánveitanda. Þá verði veittar upplýsingar um staðgreiðsluverð sé lánveitandi jafnframt seljandi vöru eða þjónustu.
    Lögð er til sú breyting á 14. gr. að miða skuli við vexti samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands, en það mun vera réttara orðalag. Þá er lagt til að II. og III. kafli verði sameinaðir.
    Lagt er til að 15. gr. verði breytt þannig að ákvæði hennar verði þrengd en hún getur gefið möguleika á óréttmætu málþófi við venjulega innheimtu kröfu.
    Lögð er til sú breyting á IV. kafla að aukið verði við efni 16. gr. en 17.–19. gr. falli brott. Nægilegt er að styðjast við almennar reglur kröfuréttar í þessum efnum.
    Lagðar eru til þær breytingar á 20. gr. að 2. mgr. falli brott en efni hennar felst í ákvæðum 1. mgr. Þá er lögð til orðalagsbreyting á 3. mgr. og loks að við bætist málsgrein þess efnis að ákvæðið nái ekki til viðskiptabréfakrafna enda sé trygging fyrir hendi, sbr. ákvæði 5. tölul. hér á eftir.
    Lagt er til að 21. gr. verði breytt þannig að efni hennar samkvæmt frumvarpinu falli niður. Í stað þess verði mælt fyrir um tryggingu sem lánveitandi skal eiga vegna hugsanlegra vanefndakrafna neytenda vegna viðskipta sem standa að baki viðskiptabréfum. Tryggingin er hugsuð sem vernd fyrir neytendur.
    Lagt er til að VI. og VII. kafli verði sameinaðir og 22. og 24.–29. gr. falli niður þannig að tvær greinar verði í kaflanum. Er þetta gert til þess að einfalda reglurnar, auk þess sem það þykir óþarft að hafa sérstakar reglur um lágmarksverð vöru, staðgreiðsluhlutfall, tilkynningar um innheimtu eða sérstakar aðfararreglur. Þá er lagt til að 2. mgr. 30. gr. falli brott en óeðlilegt þykir að kveða á um að kaupandi, sem ekki hefur staðið skil á skuldbindingum sínum og seljandi hefur endurheimt hlut frá, eigi kröfu á því að seljandi eigi við hann viðskipti aftur.
    Lagt er til að IX. kafli mæli fyrir um skaðabótaskyldu í stað refsinga.
    Lagt er til að lögin taki gildi 1. október 1993.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. mars 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Guðjón Guðmundsson.

Halldór Ásgrímsson.


form., frsm.



Ingi Björn Albertsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.