Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 27 . mál.


904. Nefndarálit



um frv. til l. um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá fjármálaráðuneytinu Indriða H. Þorláksson, Bolla Þór Bollason, Bjarnveigu Eiríksdóttur, Maríönnu Jónasdóttur, Snorra Olsen, Jón H. Steingrímsson, Rúnu Soffíu Geirsdóttur og Ingibjörgu Þorsteinsdóttur. Frá ríkisskattstjóraembættinu komu Garðar Valdimarsson, Jón Guðmundsson og Steinþór Haraldsson. Einnig komu Sigfús Bjarnason og Ólafur Baldursson frá Bandalagi íslenskra leigubílstjóra, Gunnar Sveinsson og Þorvarður Guðjónsson frá Félagi sérleyfishafa, Þorsteinn H. Hilmarsson frá Globus hf., Runólfur Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Jónas Þór Steinarsson frá Bílgreinasambandinu, Þorleifur Jónsson og Guðlaugur Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Haukur Halldórsson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Baldvin Hafsteinsson frá Íslenskri verslun, Jónas Fr. Jónsson og Sverrir V. Bernhöft frá Verslunarráði Íslands, Gunnar Svavarsson, Víglundur Þorsteinsson, Páll Kr. Pálsson og Sveinn Hannesson frá Félagi íslenskra iðnrekenda og Pétur Óli Pétursson frá Bílaumboðinu hf. Þá bárust umsagnir frá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Bílgreinasambandinu, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi íslenskra iðnrekenda, Bifreiðastjórafélaginu Frama, Bílaumboðinu hf., Stéttarsambandi bænda og VSÍ. Einnig var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Verslunarráði Íslands, Samtökum landflutningamanna, Félagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Skeljungi hf., Bílgreinasambandinu, Neytendasamtökunum, Vegagerð ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Félagi sérleyfishafa.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:
    Lögð er til orðalagsbreyting á 1. gr. sem felur ekki í sér efnislega breytingu.
    Lagt er til að í 3. gr. verði horfið frá því að ákvörðun vörugjalds miðist við eigin þyngd ökutækis. Í stað þess mun ákvörðun vörugjalds eingöngu miðast við sprengirými aflvélar bifreiðar og vörugjaldið lagt á í fjórum gjaldflokkum. Breyting þessi mun hafa óveruleg áhrif á tekjur af innflutningi bifreiða.
    Lagt er til að 4. gr. verði breytt í sjö atriðum. Í fyrsta lagi beri dráttarvélar 10% vörugjald (þær bera almennt 10% toll nú). Í öðru lagi verði hópferðabifreiðar fyrir 18 farþega og fleiri settar í 15% gjaldflokk og í þriðja lagi beri hópferðabifreiðar fyrir 10–17 farþega 30% vörugjald. Er þetta gert til þess að koma til móts við ferðaþjónustuna. Í fjórða lagi er lagt til að ökutæki, sem knúin eru rafhreyfli, beri 30% vörugjald. Í fimmta lagi beri fjórhjól 70% vörugjald og í sjötta lagi verði í 70% gjaldflokki þau vélknúnu ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í II. kafla frumvarpsins. Loks komi heimild til ráðherra að samræma vörugjöld af vörum í II. kafla ef sams konar eða svipaðar vörur bera ekki sama vörugjald.
    Lagt er til að við 5. gr. bætist fjórir flokkar ökutækja sem ráðherra er heimilt að lækka eða fella niður vörugjald af: Í fyrsta lagi bifreiðar sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, búnar eru hjólastólalyftu og samþykktar eru af Tryggingastofnun ríkisins. Rétt þykir að koma til móts við þá sem vegna fötlunar sinnar eru tilneyddir til að kaupa sendiferðabifreið með hjólastólalyftu. Í öðru lagi bifreiðar sem sérstaklega eru útbúnar og notaðar til líkflutninga en það eru atvinnubifreiðar og því eðlilegt að heimilt sé að samræma gjald af þeim við aðrar atvinnubifreiðar. Í þriðja lagi dráttarvélar til nota við landbúnaðarstörf en þær bera hvorki toll né vörugjald samkvæmt gildandi lögum. Í fjórða lagi verði heimilt að lækka vörugjald af leigubifreiðum í 30%. Að baki tillögunni liggja þau sjónarmið að leigubifreiðar eru atvinnubifreiðar. Enn fremur verði ráðherra heimilt að setja skilyrði fyrir lækkun eða niðurfellingu vörugjalda af flokkum sem taldir eru upp í 2. mgr. 5. gr. Loks er lagt til að 2. tölul. 2. mgr. verði breytt og taki til ökutækja á beltum sem sérstaklega eru ætluð til flutninga í snjó eftir nánari skilgreiningu fjármálaráðuneytisins.
    Lögð er til viðbót við 6. gr. Í sumum tilvikum mun ökutæki ekki fá forskráningu hjá Bifreiðaskoðun Íslands hf. þar sem það geti þurft aðvinnslu til að fullnægja reglum um skráningu. Þá er óeðlilegt að synjun um forskráningu hamli innflutningi ökutækis, enda er í mörgum tilvikum verið að flytja úr landi þá vinnu sem þarf að inna af hendi við ökutæki til að það fullnægi reglum um skráningu.
    Lögð er til breyting á greinarfyrirsögn 8. gr. þannig að orðið „samsetning“ fellur brott, en það er óþarft þar sem orðið „aðvinnsla“ nær yfir merkingu þess.
    Lagðar eru til breytingar á 8. og 9. gr. sem fela ekki í sér efnisbreytingar. Framsetning greinanna er gerð skýrari vegna misskilnings sem ákvæðin hafa valdið.
    Lögð er til breyting á 10. gr. í samræmi við breytingartillögu við 3. gr., sbr. 2. tölul. hér að framan.
    Lagðar eru til tvær orðalagsbreytingar á 11. gr. sem fela ekki í sér efnisbreytingu.
    Lagt er til að ný grein komi á eftir 12. gr. þar sem ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða endurgreiðslu vörugjalds af ökutækjum sem eru seld eða leigð úr landi.
    Lagt er til að 13. gr. verði breytt þannig að vörugjald af bensíni verði 90%.
    Lagt er til að við 17. gr. bætist ákvæði um að gjaldskyldir aðilar skili vörugjaldsskýrslu til innheimtumanns ríkissjóðs og er ákvæðið til að taka af öll tvímæli þar um.
    Lagt er til að í 18. gr. verði notað orðið: gjöld í stað „tolla“ til þess að valda ekki misskilningi þar sem ætlunin er að fella niður tolla með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þrátt fyrir það geta lagst ytri tollar á bifreiðavarahluti sem ekki falla undir frumvarpið þegar ökutæki er flutt inn í hlutum og smíðað hér á landi.
    Lögð er til orðalagsbreyting á 20. gr., svo og lagfæring á tilvísun.
    Lagt er til að 22. gr. verði breytt þannig að öllum þeim, sem flytja inn ökutæki í atvinnuskyni, verði settur sami gjalddagi á vörugjaldi. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að þeir sem stunda innflutning skráningarskyldra ökutækja í atvinnuskyni geti greitt vörugjaldið fram að þeim tíma sem það er skráð.
    Lögð er til breyting á 23. gr. til að taka af öll tvímæli um að heimildin í ákvæðinu taki til vörugjalds af eldsneyti.
    Lagt er til að 24. gr. verði breytt svo að skýrt sé hverjir annist innheimtu, álagningu og eftirlit með vörugjaldi, hvort heldur um er að ræða innflutning eða innlenda framleiðslu.
    Lagt er til að 28. gr. verði breytt þannig að gildistaka laganna verði 1. júlí 1993.
    Loks er lagt til að við bætist ákvæði til bráðabirgða um að ákvæði laganna skuli ná til allra vara sem ekki hafa verið teknar til tollafgreiðslu við gildistöku þeirra.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Fjarstaddur afgreiðslu málsins var Ingi Björn Albertsson.

Alþingi, 31. mars 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Guðjón Guðmundsson.

Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Halldór Ásgrímsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.