Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 26 . mál.


939. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið á fjölmörgum fundum. Mál þetta snýst um að breyta tollum í jöfnunargjöld til að fullnægja ákvæðum í viðskiptasamningum. Hvað það snertir er ekki um að ræða efnislega breytingu á gjaldtöku á innflutningi. Ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hefur hins vegar kosið að nota þetta tækifæri til þess að koma á ytri tollum gagnvart iðnaðarframleiðslu frá öðrum löndum en þeim sem mynda hið Evrópska efnahagssvæði. Þar er um að ræða pólitíska ákvörðun sem ekki er gerð krafa um í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Afleiðing af þessu er sú að vörur frá Evrópu lækka í verði á meðan vörur annars staðar frá hækka. Benda má á að í frumvarpi til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem lagðar eru til breytingar á tollum á bifreiðum og eldsneyti í jöfnunargjöld, er ekki lagt til að beitt sé ytri tollum sem staðfestir að engin krafa er gerð um að svo sé gert.
    Í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar er lagt til að vörugjöld á byggingarefni séu felld niður. Það verður að teljast til hagsbóta fyrir íslenskan byggingariðnað og styður minni hlutinn þá breytingartillögu. Þá er einnig í frumvarpinu nauðsynlegar heimildir til töku jöfnunargjalda í landbúnaði, en allt er óljóst um hvernig þeim verður beitt.
    Minni hluta nefndarinnar þykir rétt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þeirri pólitísku stefnumörkun sem felst í frumvarpinu og minni hlutinn á engan þátt í og mun hann því sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. apríl 1993.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Halldór Ásgrímsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

frsm.



Steingrímur J. Sigfússon.