Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 192 . mál.


956. Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlit með skipum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Pál Hjartarson frá Siglingamálastofnun ríkisins og Ólaf Steinar Valdimarsson, ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir á 115. löggjafarþingi frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Fiskifélagi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, siglingadómi og fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali:
    Breytingin á 6. gr. felur í sér að í reglum, er ráðherra setur um hæfniskröfur þeirra sem hanna og smíða skip, verði tekið mið af reglum í sambærilegum iðngreinum.
    Breytingin á 8. gr. felur í sér að felld verða niður ákvæði 2. og 3. mgr. um hámarksaldur innfluttra skipa. Í 1. mgr. 8. gr. kemur fram að skip, sem keypt eru eða leigð frá útlöndum til skráningar hér á landi, skulu uppfylla skilyrði íslenskra laga um styrkleika, búnað og haffæri. Þannig felur frumvarpið í sér nægilega tryggingu þess að ekki verði heimilaður innflutningur annarra skipa en þeirra sem eru vel búin og örugg. Er því lagt til að aldurshámark gildi aðeins um fiskiskip.
    Lögð er til sú breyting á 9. gr. að yfirvélstjóri falli brott úr hópi þeirra er ábyrgð beri á að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipum. Í núgildandi lögum er þessi ábyrgð á herðum eiganda skips, útgerðarmanns og skipstjóra og þykir ekki ástæða til að fjölga í þeim hópi. Þá er lagt til að samkvæmt nýrri málsgrein skuli starfsskyldum yfirmanna við skoðunargerð og verkaskiptingu hagað samkvæmt ákvæðum sjómannalaga því til áréttingar að ekki er ætlunin að raska skipan samkvæmt þeim.
    Lögð er til breyting á 2. mgr. 13. gr. um framkvæmd skyndiskoðunar. Að óbreyttu mætti ætla að varðskip Landhelgisgæslunnar yrðu að leita leyfis hjá Siglingamálastofnun í hvert skipti sem varðskipsmenn létu fara fram skyndiskoðun á hafi úti. Nú þegar er samkomulag milli þessara stofnana um framkvæmd skyndiskoðunar og er lagt til að stofnanirnar semji um tilhögun slíks eftirlits framvegis.
    Breytingin við 35. gr. varðar gildistöku og þarfnast ekki skýringa.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um meðferð þeirra mála sem þingfest hafa verið fyrir siglingadómi fyrir gildistöku laganna. Í frumvarpinu er lagt til að siglingadómur verði lagður niður. Tvö mál eru nú fyrir dóminum, annað nýhöfðað og liggur dómur í því máli væntanlega fyrir í júní á þessu ári. Eðlilegt þykir að um þessi mál fari samkvæmt gildandi lögum en hinir almennu dómstólar munu síðan taka við þeim málum er höfðuð verða eftir gildistöku laganna.
    Guðni Ágústsson og Stefán Guðmundsson skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara varðandi breytingartillöguna við 9. gr. þar sem þeir telja að yfirvélstjóri eigi að vera í hópi þeirra er ábyrgð skulu bera á að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipum svo sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Alþingi, 5. apríl 1993.



Pálmi Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Jóhann Ársælsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Árni M. Mathiesen,

Stefán Guðmundsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Guðni Ágústsson,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Sturla Böðvarsson.


með fyrirvara.