Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 372 . mál.


987. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Halldór Þorbjörnsson hæstaréttardómara frá réttarfarsnefnd. Umsagnir bárust frá fjármálaráðuneytinu, héraðsdómi Norðurlands eystra, héraðsdómi Reykjavíkur, héraðsdómi Suðurlands, héraðsdómi Vesturlands, héraðsdómi Norðurlands vestra, ríkissaksóknara, Sýslumannafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands og lögreglustjóranum í Reykjavík.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að ákæruvaldi lögreglustjóra verði breytt en það er skv. 28. gr. laganna takmarkað við tilteknar tegundir minni háttar brota. Það hefur í för með sér að embætti ríkissaksóknara hefur umtalsverðan fjölda af minni háttar málum til meðferðar sem ekki er unnt að afgreiða með öðrum hætti en útgáfu ákæru og síðan dómstólameðferð. Þessi mál hefðu mörg hver verið afgreidd með dómsátt án afskipta ríkissaksóknara samkvæmt eldri lögum um meðferð opinberra mála. Markmið frumvarpsins er að ákæruvald lögreglustjóra nái til þessara mála og enn fremur að réttaröryggi almennings verði bætt með því að mál gangi hratt og vel fyrir sig. Tilefni breytingarinnar er dómur Hæstaréttar 7. janúar 1993 þar sem túlkað var hvernig ríkissaksóknari mætti beita heimild 2. mgr. 28. gr. laganna til að fela lögreglustjórum ákæruvald. Meiri hluti nefndarinnar tekur hins vegar undir þá almennu ábendingu Lögmannafélags Íslands að viss hætta geti verið því samfara að einn og sami maðurinn annist rannsókn brotamáls, ákæri í því og sæki síðan málið.
    Í öðru lagi er lagt til að aðild að kröfugerð um kyrrsetningu á eignum sakbornings skv. 85. gr. laganna verði breytt þannig að sá sem stýrir rannsókn eða ríkissaksóknari geti gert kröfu um kyrrsetningu. Er breytingin lögð til í tilefni af úrskurði sem kveðinn var upp í héraðsdómi Reykjavíkur 17. september 1992. Þar var niðurstaðan sú að lögreglustjóri gæti aðeins krafist kyrrsetningar ef hann færi með ákæruvald í þeim brotaflokki sem brot heyrði til. Þörf er á að breyta ákvæðinu þannig að lögreglustjóri hafi heimild til þess að krefjast kyrrsetningar við rannsókn máls en nauðsynlegt getur verið að slík tryggingarráðstöfun sé gerð strax í upphafi rannsóknar.
    Í þriðja lagi er lagt til að ákvæðum um útgáfu fyrirkalls og ákæru skv. 120. gr. laganna verði breytt. Er miðað við að frestur til fyrirkalls miðist við móttöku dómara á ákæru og skuli hann eigi síðar en þremur vikum eftir móttöku ákæru gefa út fyrirkall á hendur ákærða. Samkvæmt gildandi lögum er fresturinn fjórar vikur eftir að ákæran er gefin út. Komið hefur fyrir að birting ákæru, sem gefin hefur verið út, hefur dregist þannig að ógerlegt hefur verið fyrir dómara að gefa út fyrirkall tímanlega. Komið hafa ábendingar um að 5. gr. frumvarpsins sé ekki nógu skýr þannig að óljóst sé hvort fresturinn byrji að líða þegar máli hefur verið úthlutað dómara til meðferðar eða þegar málið berst dómstólnum. Kemur vafinn upp þar sem um fjölskipaðan dómstól er að ræða. Til þess að taka af allan vafa er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt og fyrri skilningurinn verði lagður til grundvallar.
    Frumvarpið miðar að því, svo sem að framan er lýst, að sníða vankanta af nýlegum lagabálki og er í samræmi við þann tilgang sem ætlunin var að ná með samþykkt hans.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi, 16. apríl 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Helgason.

Sigbjörn Gunnarsson.


form., frsm.



Pétur Bjarnason.

Björn Bjarnason.





Fylgiskjal.


Fjárlagaskrifstofa,
fjármálaráðuneyti:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð


opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.


    Þær meginbreytingar frá gildandi lögum, sem felast í frumvarpinu, eru í 2. gr. þess og er þeim lýst í athugasemdum við greinina. Helstu ákvæði greinarinnar eru þessi:
    Umfang ákæruvalds lögreglustjóra byggist á almennri ákvörðun ríkissaksóknara og er það rýmkun á ákvæðum núgildandi laga þar sem lögreglustjórar fara með ákæruvald fyrir brot sem tilgreind eru í a–c-liðum 1. mgr. 28. gr. laganna, auk þess sem ríkissaksóknari getur falið þeim ákæruvald í öðrum málum skv. 2. mgr.
    Almenn heimild ríkissaksóknara til að fela lögreglustjórum ákæruvald er rýmkuð þannig að í stað þess að heimildin miðist við að brot varði sektum, upptöku eigna eða varðhaldi verði miðað við að brot varði sektum, upptöku eigna, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Auk brota þar sem refsimörk falla undir almenna viðmiðun í 2. lið hér að framan verði ríkissaksóknara heimilt að fela lögreglustjórum ákæruvald vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni, áfengislögum, tollalögum, lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda, lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun og 219. gr. almennra hegningarlaga ef brot á þeirri grein tengjast jafnframt umferðarlagabrotum og 1. mgr. 259. gr. sömu laga að því er tekur til nytjastuldar á bifreið og öðrum vélknúnum farartækjum, en þó ekki til nytjastuldar á skipi eða flugfari.
    Tilgangur þessarar lagabreytingar er að gera lögin skilvirkari, stytta málsmeðferð minni háttar mála með því að fela lögreglustjórum ákæruvald í þeim í stað þess að láta þau fara dómsmálaleiðina að undangenginni ákæru ríkissaksóknara. Sú leið er vafalítið lengri og dýrari í meðförum og má því segja að frumvarpið miði að því að koma í veg fyrir kostnaðaraukningu ríkissjóðs sem annars gæti orðið.