Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 276 . mál.


1011. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989, 70/1990, 124/1990, 130/1990, 24/1991, 47/1991 og 10.–12. gr. laga nr. 1/1992.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem greina má í þrjá meginþætti, breytingu á stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins, brottfall skyldusparnaðar og að tækni-og þjónustudeild stofnunarinnar verði lögð niður. Á fund nefndarinnar komu frá fjármálaráðuneytinu Halldór Árnason skrifstofustjóri og Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri, Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna Birgir Björn Sigurjónsson og Páll Halldórsson, frá Alþýðusambandi Íslands Hervar Gunnarsson, Guðmundur Gylfi Guðmundsson og Grétar Þorsteinsson, Rannveig Sigurðardóttir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hrafnhildur Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Hjörtur Eiríksson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og frá Húsnæðisstofnun ríkisins Yngvi Örn Kristinsson, Sigurður Guðmundsson og Hilmar Þórisson. Þá komu á fund nefndarinnar, sérstaklega vegna þess þáttar frumvarpsins er snertir stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar, Jón L. Arnalds héraðsdómari, Páll Hreinsson lögfræðingur, Ragnar Aðalsteinsson hrl. og frá Ríkisendurskoðun Sigurður Þórðarson og Jón L. Björnsson. Enn fremur bárust nefndinni umsagnir frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Alþýðusambandi Íslands, stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytinu.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Breytingar þær, sem lagðar eru til, eru flestar þess eðlis að ekki þarfnast skýringa. Þær efnislegu breytingar, sem lagðar eru til, miða að því að afmarka nánar valdsvið húnæðismálastjórnar annars vegar og ráðherra hins vegar. Helstu efnisbreytingarnar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að í nýrri málsgrein, er bætist við 2. gr., verði sérstaklega kveðið á um hvernig fara eigi með kostnað af rekstri Húsnæðisstofnunar ríkisins. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að fjallað verði um innra skipulag stofnunarinnar í reglugerð en ekki í lögum svo sem nú er. Talið er eðlilegt að kveðið verði á um skiptingu rekstrarkostnaðar Húsnæðisstofnunar í lögum. Þannig verði kostnaðinum skipt á milli þeirra sjóða sem stofnunin rekur, að teknu tilliti til umfangs í rekstri þeirra og útistandandi eigna.
    Við 3. gr. er lögð til sú breyting að þingkjörnum stjórnarmönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins verði fjölgað úr fimm í sjö.
    Breytingin á 3. tölul. 4. gr. felur í sér að á brott falli skylda Húsnæðisstofnunar til að leita staðfestingar ráðherra á forsendum lánveitingar og skiptingu lánsfjár milli útlánaflokka áður en ákvörðun um útlán er tekin.
    Breytingin á 8. gr. felur í sér áréttingu þess að húsnæðismálastjórn semur sjálf við lánastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, í stað þess að frumvarpið gerir ráð fyrir að slíkt sé bundið við reglugerðarsetningu ráðherra.
    Lögð er til sú breyting að við 9. gr. bætist nýr málsliður er kveði á um að fjárhagur húsbréfadeildar skuli aðskilinn frá öðrum þáttum í starfsemi Byggingarsjóðs ríkisins. Þá er lagt til að skv. 19. gr. verði byggingarsamvinnufélögum gert að greiða fyrir þá aðstoð er Húsnæðisstofnun veitir þeim vegna byggingarframkvæmda.
    Í umsögn, er nefndinni barst frá stjórn Húsnæðisstofnunar, kom m.a. fram að greiðslubyrði af lánum til almennra kaupleiguíbúða hafi reynst þung miðað við félagslegar kaupleiguíbúðir og að æskilegt væri að breyta lánafyrirkomulagi vegna slíkra íbúða þannig að veitt verði eitt lán sem svari til 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði til 43 ára. Þá benti stjórnin á mikilvægi þess að breyta lögum um Húsnæðisstofnun þannig að útreikningur á söluverði félagslegra íbúða, sem byggðar eru fyrir gildistöku laga nr. 51/1980, samrýmist ákvæðum núgildandi reglugerðar og að lagaheimildir verði veittar til veitingar lána til meiri háttar endurbóta á félagslegum íbúðum. Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að um mikilvægar ábendingar sé að ræða. Á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur starfshópur unnið að því undanfarna mánuði að meta reynsluna af lögum um félagslegar íbúðir og mun hann á næstunni skila niðurstöðum sínum og tillögum um breytingar grundvallaðar á fenginni reynslu. Á meðfylgjandi fylgiskjali er birt minnisblað sem formanni nefndarinnar barst frá Inga V. Jóhannssyni, húsnæðisfulltrúa og deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, sem sæti á í umræddum starfshópi. Þar kemur m.a. fram að starfshópurinn mun gera tillögur er varða fyrrgreindar athugasemdir um lán til almennra kaupleiguíbúða, lán til endurbóta á félagslegum íbúðum og lagfæringar vegna útreiknings söluverðs. Að mati meiri hluta nefndarinnar er æskilegt að niðurstaða starfshópsins varðandi breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu liggi fyrir áður en gerðar eru tillögur um breytingar hvað þessi atriði varðar.
    Eggert Haukdal skrifar undir álitið með fyrirvara og áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim er fram kunna að koma. Hann óskar þess einnig að fram komi sú afstaða hans að m.a. af háum vöxtum og atvinnuleysi leiði brýna þörf til að breyta húsnæðislögum áður en Alþingi lýkur störfum til að koma til móts við vandamál þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Alþingi, 20. apríl 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Össur Skarphéðinsson.


form., frsm.



Geir H. Haarde.

Eggert Haukdal,


með fyrirvara.




Fylgiskjal.


Ingi V. Jóhannsson:

MINNISBLAÐ



Tillögur húsnæðismálastjórnar um breytingar


á félagslega hluta húsnæðiskerfisins.


(25. mars 1993.)



    Meðfylgjandi eru atriði sem óskað var eftir að undirritaður fjallaði um á fundi félagsmálanefndar Alþingis 16. mars sl.
    Fyrst er rétt að vekja athygli á því að tillögur húsnæðismálastjórnar um breytingar á Byggingarsjóði verkamanna tengjast á engan hátt megintilgangi fyrirliggjandi frumvarps um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Á undanförnum mánuðum hefur á vegum félagsmálaráðuneytisins verið unnið að úttekt á framkvæmd og reynslu laga nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir. Félagsmálaráðherra skipaði starfshóp fjögurra embættismanna frá ráðuneytinu og Húsnæðisstofnun til að afla upplýsinga um reynsluna af lögum um félagslegar íbúðir og heimsækja húsnæðisnefndir sveitarfélaga í því skyni. Starfshópurinn hefur heimsótt nærri 30 húsnæðisnefndir og mörg félagasamtök sem vinna að húsnæðismálum. Á næstu dögum mun starfshópurinn skila niðurstöðum sínum og tillögum. Starfshópurinn mun setja fram beinar tillögur um lagabreytingar, ábendingar og hugmyndir til frekari athugunar. Í framhaldi af starfi nefndarinnar verður hafist handa um að athuga hvaða breytingar eru taldar nauðsynlegar á lánveitingum Byggingarsjóðs verkamanna með það fyrir augum að undirbúa frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir.
    Um einstakar tillögur er rétt að taka fram eftirfarandi:
     1. Lán vegna almennra kaupleiguíbúða. Starfshópurinn, sem vinnur að mati á framkvæmd laga um félagslegar íbúðir, hefur verið með athugasemdir og tillögur húsnæðisnefnda í þessu efni til athugunar og mun starfshópurinn leggja fram þrjár tillögur um breytingar á fyrirkomulagi lána til almennra kaupleiguíbúða.
     2. Lán til endurbóta á félagslegum íbúðum. Fram kom á fundum starfshópsins með húsnæðisnefndum að á nokkrum stöðum þarfnast fjölbýlishús með félagslegum íbúðum gagngerra endurbóta utan húss, að öðrum kosti liggja húsin undir skemmdum sem getur augljóslega haft í för með sér fjárhagstjón fyrir Byggingarsjóð verkamanna, enda er hér um veð sjóðsins að ræða. Auk þeirra húsa, sem nú liggja undir skemmdum, kemur í ljós að í ýmsum sveitarfélögum er um yfirvofandi úrlausnarefni að ræða. Starfshópurinn mun leggja fram tillögur í tveimur liðum, annars vegar um aðgerðir þegar í stað og hins vegar lagabreytingu um nýjan lánaflokk. Lögð er áhersla á skýrt afmarkað viðfang lánaflokksins og vandaðan undirbúning.
    Starfshópurinn lagði til í minnisblaði til ráðherra að gripið yrði til aðgerða þegar í stað, þ.e. án lagabreytinga, til úrlausnar þeim vanda sem steðjar að. Starfshópnum er ljóst að til þess er ekki skráð lagaheimild en telur að vel athuguðu máli hægt að rökstyðja lagastoð út frá eðli máls og neyðarsjónarmiðum. Félagsmálaráðherra óskaði með bréfi dags. 7. janúar 1993 eftir umsögn húsnæðismálastjórnar um þessa tillögu nefndarinnar og jafnframt að Húsnæðisstofnun meti lánsfjárþörf ef farið yrði að tillögum starfshópsins. Sem svar við þessu hefur húsnæðismálastjórn vísað til tillagna (dags. 4. mars) í umsögn um fyrirliggjandi frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem lagt er til að stofnaður verði sérstakur lánaflokkur í þessu skyni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um áætlaða lánsfjárþörf í þessu skyni.
     3. Lagfæringar vegna útreiknings á söluverði. Það sem hér um ræðir styðst við reglugerðarákvæði sem sett var fyrir tíu árum. Auðvitað er eðlilegt að samræma þetta og eðlilegt að það gerist í tengslum við þær tillögur er gerðar verða á grundvelli niðurstaðna starfshópsins.
    Með hliðsjón af því sem fram hefur komið hér á undan varðandi úttekt á framkvæmd laga nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir, sem mun liggja fyrir á næstu dögum, er bæði sjálfsagt og eðlilegt að vísa tillögum húsnæðismálastjórnar til samræmdrar tillögugerðar um lagabreytingar sem unnið verður að í kjölfar niðurstaðna starfshópsins. Samræmdar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi félagslegra íbúða eru í alla staði heppilegri en tíðar smábreytingar.