Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 208 . mál.


1014. Nefndarálit



um frv. til l. um viðskiptabanka og sparisjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá viðskiptaráðuneyti Finn Sveinbjörnsson skrifstofustjóra og Pál Ásgrímsson lögfræðing, Þórð Ólafsson, forstöðumann bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka Val Valsson, Svein Jónsson og Ólaf Örn Ingólfsson, frá Sambandi íslenskra sparisjóða Baldvin Tryggvason og Sigurð Hafstein, Jónas Fr. Jónsson frá Verslunarráði Íslands og Rúnar B. Jóhannsson frá Félagi íslenskra endurskoðenda.
    Í frumvarpinu er lagt til að aðskilin löggjöf um starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða verði sameinuð í einn lagabálk. Er lagt til að gildissvið laganna nái til viðskiptabanka í eigu ríkisins, viðskiptabanka sem reknir eru af hlutafélögum og sparisjóða. Stofnanir þessar hafa sömu starfsheimildir en tekið er tillit til mismunandi stjórnunarlegrar uppbyggingar og eignaraðildar að þeim í frumvarpinu. Frumvarpið felur í sér allnokkrar breytingar og nýmæli frá gildandi lögum sem eru þessi: Ákvæði um stofnun og starfsleyfi stofnananna eru ítarlegri (II. kafli), svo og ákvæði um synjun umsókna sem eru nýmæli (III. kafli), og enn fremur ákvæði um afturköllun starfsleyfa (XIII. kafli). Í IV. kafla er m.a. kveðið á um hæfi bankastjóra og nánari ákvæði eru um verkefni bankaráða og stjórna sparisjóða. Í V. kafla eru lögð til veruleg nýmæli er varða starfsemi sem viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt að stunda. Enn fremur eru ákvæði um laust fé og eigið fé og ársreikninga, endurskoðun og samstæðureikningsskil mun ítarlegri en í gildandi löggjöf (VI. og VII. kafli). Loks er gert ráð fyrir að ákvæði um Lánastofnun sparisjóðanna hf. verði felld brott og í stað hennar verði stofnaður sérstakur banki sparisjóðanna sem hafi fullar heimildir sem viðskiptabanki.
    Rætt var nokkuð um málskotsrétt ákvarðana bankaeftirlitsins í nefndinni. Í því sambandi er þess að geta að til meðferðar er á Alþingi frumvarp til stjórnsýslulaga, 313. mál, sem nýlega hefur verið afgreitt út úr allsherjarnefnd. Það hefur að geyma ákvæði um kæru ákvarðana lægra setts stjórnvalds til hins æðra (VII. kafli). Er meginreglan sú að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds ef því er á annað borð til að dreifa.
    Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem gerð er grein fyrir hér á eftir. Áður en það er gert er sérstaklega bent á ákvæði frumvarpsins sem varða Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða í X. kafla frumvarpsins og breytingartillögur nefndarinnar við þau ákvæði. Með lögum nr. 16/1993, um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana, var Tryggingarsjóði viðskiptabanka heimilað að veita viðskiptabanka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu sína enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Í framhaldi af því var gerð breyting á reglugerð um Tryggingarsjóðinn, þar sem m.a. stjórnarmönnum var fjölgað um tvo, annar tilnefndur af fjármálaráðherra og hinn af Seðlabanka Íslands. Í umræðum á Alþingi um frumvarpið, sem varð að lögum nr. 16/1993, kom fram að viðskiptaráðherra hygðist skipa nefnd til að semja tillögur um framtíðarfyrirkomulag á innstæðutryggingum og hlutverki og starfsheimildum Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og Tryggingarsjóðs sparisjóða. Í ljósi þessa varð það niðurstaða nefndarinnar að leggja til að ákvæðum X. kafla frumvarpsins yrði breytt með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 16/1993 og reglugerðinni um breytingu á reglugerð um Tryggingarsjóð viðskiptabanka en að öðru leyti gerir nefndin ekki athugasemdir við ákvæði X. kafla.
    Breytingarnar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, eru eftirfarandi:
    Lagt er til að síðari málsgrein 1. gr. falli niður en hún er óþörf vegna ákvæða 97. gr. frumvarpsins þar sem segir að viðskiptaráðherra fari með framkvæmd laganna.
    Lagt er til að í 8. gr. verði kveðið á um að samþykki Alþingis þurfi til þegar ríkisviðskiptabanki tekur víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu sína umfram það sem Tryggingarsjóður viðskiptabanka getur veitt, sbr. 76. gr. frumvarpsins. Í lögum um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana, nr. 16/1993, er sett þak á lántökur tryggingarsjóðanna en í 5. gr. segir að fjármálaráðherra sé heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku sjóðanna samtals að fjárhæð allt að 3.000 millj. kr.
    Lagt er til að 10. gr. verði breytt en í 4. mgr. er mælt fyrir um heimild bankaeftirlits Seðlabanka Íslands að hafna nýjum hluthöfum eða kaupum þeirra sem fyrir eru á viðbótarhlutafé. Enn fremur geti bankaeftirlitið, telji það ekki ástæðu til að hafna eignarhlut, ákveðið að hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur. Hér er um svo mikilvægar ávarðanir að ræða að réttara þykir að ráðherra taki ákvörðunina að fenginni tillögu bankaeftirlitsins.
    Lögð er til breyting á 12. gr. með vísan til breytingartillögu við 10. gr. sem skýrt á frá hér að framan. Í 12. gr. er kveðið á um úrræði ef aðili, sem á tiltekinn hlut í hlutafélagsbanka, fer þannig með hlut sinn að skaði rekstur bankans.
    Lagt er til að síðari málsgrein 18. gr. falli brott en þar er kveðið á um skattalega meðferð á stofnfé og arði stofnfjáreigenda í sparisjóði. Ákvæðið er þarflaust því að um þetta gilda sömu reglur og um hlutafélög, en sparisjóður er félag með takmarkaðri ábyrgð í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Enn fremur þykir heppilegra út frá lagatæknilegum sjónarmiðum og með tilliti til framkvæmdar að efnislegar reglur um skattlagningu þessara stofnana verði ekki í sérlögum um þær.
    Lögð er til breyting á 23. gr. í samræmi við breytingartillögu við 18. gr.
    Lögð er til breyting á 34. gr. og vísast um hana til 19. liðar hér á eftir.
    Lagt er til að 39. gr. verði breytt þannig að annars vegar verði í 5. tölul. 1. mgr. kveðið á um að bankaráð og sparisjóðsstjórn móti stefnu í vaxta- og gjaldskrármálum og setji almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir stofnunarinnar. Taki slíkar reglur til hámarks lána og ábyrgða til einstakra viðskiptamanna mega þær ekki ganga gegn almennum reglum um það efni sem ráðherra setur, sbr. 1. mgr. 46. gr. Hins vegar bætist við nýr töluliður er hafi að geyma ákvæði 52. gr. Í greininni er kveðið á um að bankaráði eða sparisjóðsstjórn skuli gerð grein fyrir ákveðnum upplýsingum árlega. Lagt er til að ákvæðið færist í 39. gr. þannig að bankaráð eða sparisjóðsstjórn setji leiðbeiningar um þessa árlegu upplýsingagjöf.
    Lögð er til breyting á 40. gr. og vísast um hana til 19. liðar hér á eftir.
    Lögð er til breyting á 43. gr. og vísast um hana til 19. liðar hér á eftir.
    Lögð er til breyting á 44. gr. til að taka af allan vafa og skapa ekki óeðlilega samkeppnisstöðu milli banka og sparisjóða annars vegar og verðbréfafyrirtækja hins vegar.
    Lagt er til að 45. gr. verði breytt þannig að heimild viðskiptabanka og sparisjóða skv. 2. mgr. verði rýmkuð þannig að stofnanirnar verði að uppfylla annað af tveimur skilyrðum ákvæðisins.
    Lögð er til sú breyting á 46. gr. að ráðherra, en ekki bankaeftirlitið, setji reglur um eignarhlut viðskiptabanka eða sparisjóðs og heildarskuldbindingar fyrirtækis gagnvart viðkomandi stofnun. Þá er lagt til að orðið „bókfærðu“ falli brott en því er ofaukið.
    Lagt er til að 52. gr. falli brott og vísast um það til 7. tölul. hér að framan.
    Lagt er til að 53. gr. verði breytt en í nefndinni var ítarlega rætt um samráð sparisjóða í vaxta- og gjaldskrármálum, sem er heimilt samkvæmt gildandi lögum um sparisjóði, í ljósi þess að samkeppnislög hafa nýlega tekið gildi. Í umræðum í nefndinni voru færð að því rök að með samstarfi sín á milli geti sparisjóðirnir veitt viðskiptabönkunum meiri samkeppni en ella. Það varð niðurstaða nefndarinnar að við ákvæði 53. gr. skyldi bætt því skilyrði að leiðbeinandi tillögur til sparisjóða um vexti og þjónustugjöld megi ekki brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga. Í því felst að í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði mun sparisjóðum ekki verða veitt afdráttarlaus undanþága frá meginreglu samkeppnislaga um bann við samráði.
    Lögð er til breyting á 54. gr. þar sem ekki þykir rétt að tiltaka binditíma nákvæmlega.
    Lagt er til að við 2. mgr. 55. gr. bætist nýr málsliður en hann mun hafa fallið niður miðað við gildandi lög.
    Lagt er til að 58. gr. verði breytt en þar er fjallað um gerð og framsetningu ársreikninga. Bent hefur verið á að löggjafinn hafi þegar ákveðið með hvaða hætti skuli staðið að mótun góðrar reikningsskilavenju hér á landi og útgáfu reglna þar að lútandi með lögum nr. 51/1968, um bókhald, sbr. lög nr. 95/1991, um breytingu á þeim lögum, þar sem reikningsskilaráð var sett á stofn. Er því lagt til að 1. og 2. mgr. verði sameinaðar í eina málsgrein. Á hinn bóginn verði kveðið á um að bankaeftirlitið skuli sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings og árshlutareiknings viðskiptabanka og sparisjóða. Skulu almennar leiðbeinandi reglur, m.a. um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings, liggja fyrir á aðgengilegan hátt.
    Lögð er til sú breyting á 61. gr. að hugtakið „skoðunarmaður“ falli niður en í stað þess komi starfsheitið endurskoðandi. Hugtakið kemur og fyrir í 62., 63. og 67. gr. Það þykir rétt í ljósi þess að ákvæði frumvarpsins gera miklar kröfur til þeirra sem standa að endurskoðuninni, t.d. að ársreikningar verði endurskoðaðir í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Jafnframt komi einn endurskoðandi í stað tveggja skoðunarmanna með hliðsjón af lögum um hlutafélög, nr. 32/1978. Í samræmi við þetta er lagt til að 3. mgr. greinarinnar falli brott. Enn fremur er lagt til að orðalag 4. mgr. verði breytt til að fyrirbyggja misskilning.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 62. gr. Annars vegar verði breyting á starfsheitum í samræmi við breytingartillögu sem skýrð er í liðnum hér að framan. Hins vegar falli 3. mgr. niður þar sem kveðið er á um að ráðherra ákveði þóknun skoðunarmanna ríkisviðskiptabanka í ljósi þess að ekki verði um skoðunarmenn hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum að ræða heldur endurskoðendur.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 63. gr. Í fyrsta lagi verði orðalag 1. mgr. lagfært. Þá verði breyting á hugtakanotkun í samræmi við þá breytingu sem gerð er grein fyrir í 19. tölul. hér að framan. Þá verði 7. mgr. breytt og bætt við nýrri málsgrein en í 7. mgr. er bankaeftirlitinu m.a. falið að setja reglur um stofnun innri endurskoðunardeilda í bönkum og sparisjóðum ef það telur þörf á því. Bent hefur verið á að með beitingu slíkrar heimildar væri bankaeftirlitið með beinum hætti farið að hafa áhrif á stjórnun og skipulag í bönkum og sparisjóðum. Er því lagt til að þetta ákvæði falli niður en þess í stað komi ákvæði sem mæli fyrir um að við viðskiptabanka og sparisjóði skuli starfa endurskoðunardeild sem annist innri endurskoðun. Getur bankaeftirlitið þó veitt sparisjóði undanþágu frá stofnun slíkrar endurskoðunardeildar. Loks verði bankaeftirlitinu falið að sjá til þess að við endurskoðun hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 64. gr. Annars vegar falli fyrri málsgreinin brott. Hins vegar verði gerð breyting á 2. mgr. en þar hefur bankaeftirlitið heimild til að láta endurskoða reikningsskil viðskiptabanka eða sparisjóðs á kostnað stofnunar þeirrar sem í hlut á. Með þeirri heimild er bankaeftirlitinu veitt það vald sem stofnunin þarf. Hætt er þó við að endurskoðandi gæti ekki fallist á þá leiðsögn bankaeftirlitsins um umfang slíkrar endurskoðunar sem felst í ákvæðinu og er því lagt til að því verði breytt.
    Lögð er til leiðrétting á tilvísunum í 67. gr. og breyting í samræmi við breytingu sem gerð er grein fyrir í 19. tölul.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 68. gr. Annars vegar verði 1. mgr. breytt en sú upplýsingaskylda, sem lögð er þar á endurskoðendur, er ekki í samræmi við hlutverk og skyldur endurskoðenda en þeir hafa m.a. ríkri upplýsingaskyldu að gegna. Er því lagt til að þessi upplýsingaskylda verði lögð niður. Á hinn bóginn komi ákvæði um að hafi endurskoðandi ástæðu til að ætla að stjórnendur fyrirtækis hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína við bankaeftirlitið skuli hann gera því viðvart. Eru þessar breytingartillögur sambærilegar við þær breytingar sem gerðar voru á upplýsingaskyldu endurskoðenda í frumvörpum um verðbréfamarkaðinn sem nýsamþykkt eru sem lög og áður hafa verið nefnd.
    Lagt er til að 69. gr. verði breytt í ljósi breytingartillagna við 2. mgr. 68. gr.
    Lagt er til að 76. gr., um Tryggingarsjóð viðskiptabanka, breytist í kjölfar samþykktar laga nr. 16/1993, um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana. Vísast til útskýringa um það í almennum athugasemdum hér að framan.
    Lögð er til breyting á 78. gr., um Tryggingarsjóð sparisjóða, með vísan til 23. tölul. og almennra athugasemda hér að framan.
    Lögð er til breyting á 84. gr. þannig að bankaeftirlitið krefji ekki erlenda eftirlitsaðila um upplýsingar heldur afli þeirra frá þeim.
    Lögð er til breyting á 85. gr. sem felur í sér leiðréttingu á tilvísun.
    Lagðar eru til þær breytingar á 93. gr. að annars vegar verði ákvæði fyrri málsliðar fyrri málsgreinar þrengt en það þykir of víðtækt í frumvarpinu. Hins vegar verði kveðið á um í síðari málslið fyrri málsgreinar að eftirlitið samkvæmt fyrri málslið fari eftir ákvæðum laganna og ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.
    Lagt er til að 98. gr. falli brott með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru á frumvörpum um verðbréfamarkaðinn sem samþykkt voru sem lög nr. 9/1993, nr. 10/1993 og nr. 11/1993.
    Lögð er til breyting á gildistökuákvæði laganna í 103. gr. Enn fremur bætist við ákvæði um að viðskiptabankar og sparisjóðir skuli samræma samþykktir sínar ákvæðum laganna á fyrsta aðalfundi eftir gildistökuna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Fjarstaddur afgreiðslu málsins var Ingi Björn Albertsson.

Alþingi, 26. apríl 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Halldór Ásgrímsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Steingrímur J. Sigfússon,

Sólveig Pétursdóttir.


með fyrirvara.