Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 303 . mál.


1018. Nefndarálit



um till. til þál. um tvíhliða samning við Evrópubandalagið.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin fjallaði um tillöguna, sem flutt er af Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni, í því ljósi að samningar höfðu tekist um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og að óvissu vegna brotthvarfs Sviss af svæðinu hafði verið eytt. Jafnframt lá fyrir við umfjöllun nefndarinnar að samningaviðræður væru hafnar milli EFTA-ríkjanna Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar og framkvæmdastjórnar EB um aðild þessara ríkja að bandalaginu. Því var talið eðlilegt að breyta hinni upprunalegu tillögu. Við gerð breytingartillögunnar töldu nefndarmenn mikils virði að ná sem víðtækastri samstöðu um afgreiðslu málsins. Breytingartillagan er flutt á sérstöku þingskjali.
    Að mati nefndarinar er ákaflega mikilvægt að enginn vafi sé um afstöðu Íslands til Evrópubandalagsins (EB). Verði niðurstaðan af viðræðum fyrrgreindra EFTA-ríkja við EB sú að þau gerist aðilar að bandalaginu er jafnframt mikilvægt að fyrir liggi sú afstaða Alþingis að stefnt skuli að tvíhliða samningi Íslands og Evrópubandalagsins. Álítur nefndin nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að geta stuðst við vilja Alþingis þegar hugað er að samskiptum Íslands og EB um leið og hún minnir á nauðsyn þess að nefndinni gefist kostur á að fylgjast náið með þróun málsins. Því er eðlilegt að Alþingi marki þá stefnu sem felst í breytingartillögu nefndarinnar. Leiði tvíhliða viðræður Íslands og EB í framhaldi af gerð EES-samningsins til þess að gengið verði á ný til samninga við bandalagið verður sú ákvörðun borin undir Alþingi. Við slíka tvíhliða samningsgerð yrði einkum litið á viðskiptahluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem stofnanahlutinn hlyti óhjákvæmilega að taka á sig allt aðra mynd.
    Innan nefndarinnar hefur töluvert verið rætt um það hvernig afskiptum Alþingis af framvindu mála á vettvangi EES skuli háttað. Jafnframt hefur nefndin rætt hvernig hún geti sem best fylgst með aðildarviðræðum EFTA-ríkja við EB. Þeim umræðum er ekki lokið, en nefndarmenn eru sammála um að utanríkismálanefnd gegni þar lykilhlutverki og verði að haga störfum sínum í samræmi við það.

Alþingi, 26. apríl 1993.



Björn Bjarnason,

Steingrímur Hermannsson.

Ólafur Ragnar Grímsson.


form., frsm.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Geir H. Haarde.

Páll Pétursson.



Árni R. Árnason.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Sigbjörn Gunnarsson.