Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 28 . mál.


1034. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Frumvarpið, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst flutt í þeim tilgangi að heimila ráðherra að setja reglugerðir á ýmsum sviðum samgöngumála í tengslum við samþykkt EES-samningsins. Ekki kemur fram í frumvarpinu nema í mjög takmörkuðum mæli í hverju þær reglugerðir eru fólgnar. Hér er því um að ræða mjög verulegt valdaframsal til ráðherra frá löggjafanum. Það skal tekið fram að samgöngunefnd óskaði skýringa og greinargerðar frá samgönguráðuneyti þegar frumvarpið kom fram snemma á þessu þingi. Minni hluti nefndarinnar hafði vænst breytinga á frumvarpinu í framhaldi af því. Svo varð þó ekki og kom það lítið breytt til baka.
    Löggjöf af þessu tagi er að mati undirritaðra óviðunandi með öllu. Það hlýtur að vera hlutverk Alþingis að sjá til þess að lög séu skýr og hægt sé að sjá efni þeirra. Svo er ekki í þessu lagafrumvarpi og í nefndarstörfum náðust ekki fram þær breytingar á því sem skýrðu innihald þess. Þessi málsmeðferð er öndverð við það sem gerst hefur við umfjöllun skyldra mála. Hefur almennt verið lögð áhersla á að hreinsa burt eftir föngum galopnar reglugerðarheimildir til ráðherra í málum tengdum EES-samningnum sem hafa verið til meðferðar á þessu þingi.
    Minni hlutinn er andvígur vinnubrögðum af þessu tagi og leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 23. mars 1993.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Stefán Guðmundsson.

Jóhann Ársælsson.


frsm.



Guðni Ágústsson.