Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 397 . mál.


1051. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57/1988, um framhaldsskóla, sbr. lög nr. 107/1988 og nr. 72/1989.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Minni hlutinn flytur á sérstöku þingskjali breytingartillögu við frumvarp þetta. Minni hlutinn telur þó frumvarpið í raun óþarft því unnt er á grundvelli gildandi laga að framkvæma tilraun þá sem hér um ræðir, þ.e. í prentiðnaði. Minni hlutinn telur einnig að breytingartillaga meiri hlutans sníði ekki þá galla af frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem augljósastir eru. Telur minni hlutinn að verði frumvarpið samþykkt í núverandi mynd geti það beinlínis skaðað það samstarf atvinnulífs og skóla sem er forsenda jákvæðrar þróunar starfsnáms í framhaldsskólum.
    Breytingartillaga minni hlutans felur í sér eftirfarandi efnisbreytingar frá frumvarpi ríkisstjórnarinnar:
    1. Tillaga minni hlutans gerir ráð fyrir að ráðherra geti „ákveðið að efna til“ tilraunar en frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherrann efni til tilraunarinnar.
    2. Tillaga minni hlutans gerir ráð fyrir að tilraunin sé unnin í framhaldsskóla, en sú hætta blasir við að verknámið verði tekið út úr skólunum þannig að framhaldsskólarnir verði eingöngu bóknámsskólar. Slíkt er afturför.
    3. Tillaga minni hlutans gerir ráð fyrir að tilraunin verði unnin í samvinnu við skólastjórnendur.
    4. Tillaga minni hlutans gerir ekki ráð fyrir að tilraunin verði takmörkuð við tvö ár.
    5. Tillaga minni hlutans gerir ráð fyrir að fella úr greininni almenna og ótrúlega opna heimild til að víkja frá lögunum. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar er í raun heimilt að afnema framhaldsskólalögin „ef nauðsyn krefur“.
    Um aðdragandann að þessu máli verður nánar fjallað í framsögu.

Alþingi, 29. apríl 1993.



Svavar Gestsson.