Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 440 . mál.


1055. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt á l. um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

Frá 3. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Þegar frumvarp til laga um staðfestingu á EES-samningnum var afgreitt á Alþingi í janúar sl. lá fyrir að Sviss yrði ekki aðili að samningnum. Það var því fyrirséð að málinu væri ekki lokið og að á yfirstandandi þingi þyrfti að breyta lögunum til samræmis við veruleikann. Sú breyting er nú gerð með þessu frumvarpi og þó að fyrst og fremst sé um tæknilegar breytingar á samningnum að ræða má segja að frumvarpið marki engu að síður lokaafgreiðslu EES-málsins af hálfu Alþingis.
    Þau rök og þær forsendur, sem lágu til grundvallar umræðunni í janúar sl., eiga því enn við og sú afstaða, sem þingmenn tóku, stendur óhögguð. Á sömu forsendum og þá telur 3. minni hluti að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir verði að bera hina pólitísku ábyrgð á þeirri samningsniðurstöðu sem fyrir liggur og meðferð málsins gagnvart þingi og þjóð á undangengnum mánuðum.
    Þriðji minni hluti bendir á að mikil óvissa ríkir nú um afdrif EES-samningsins þar sem einstök aðildarríki EB, svo sem Spánn, hafa látið þá skoðun í ljós að örlög EES-samningsins ráðist m.a. af niðurstöðum í atkvæðagreiðslu um Maastricht-samninginn í Danmörku og Bretlandi. Mikilvægt er að þessari óvissu verði eytt hið fyrsta og tryggt að hún komi ekki niður á aðgangi íslenskra sjávarafurða að mörkuðum EB.
    Um afstöðu til samningsins að öðru leyti vísar 3. minni hluti í nefndarálit sitt frá því í janúar sl. sem birt var á þskj. 411.
    Með tilvísun til þess sem að ofan greinir mun 3. minni hluti sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps á Alþingi.

Alþingi, 29. apríl 1993.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.