Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 406 . mál.


1056. Nefndarálit



um frv. til l. um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn til viðræðna frá Alþýðusambandi Íslands Láru V. Júlíusdóttur, frá Vinnuveitendasambandi Íslands Hrafnhildi Stefánsdóttur, frá Sambandi almennra lífeyrissjóða Hákon Kristjónsson og frá Landssambandi lífeyrissjóða Ólaf Gústafsson.
    Frumvarp þetta er flutt til að gera nauðsynlegar breytingar á reglum um ábyrgðasjóð launa til samræmis við lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sem gengu í gildi 1. júlí 1992. Engar efnislegar breytingar felast í frumvarpinu frá gildandi lögum heldur er um að ræða aðlögun að þeim breytingum sem urðu 1. júlí 1992 á löggjöf um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á d-lið fyrri málsgreinar 6. gr. Eftir að frumvarpið kom til umfjöllunar félagsmálanefndar barst formanni hennar ábending frá stjórn ábyrgðasjóðs launa varðandi rétt maka og barna gjaldþrota einstaklings til greiðslna úr sjóðnum. Samkvæmt ákvæðinu geta maki og skyldmenni í beinan legg ekki krafist bóta úr sjóðnum. Leiði þetta til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu má sjóðstjórnin þó heimila greiðslu til þessara launþega. Skilyrði þess að kröfur megi greiða úr ábyrgðasjóðnum er að þær hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum. Hin nýju lög um gjaldþrotaskipti koma hins vegar í veg fyrir að slíkar kröfur, sem hér um ræðir, geti hlotið viðurkenningu sem forgangskröfur. Því er lögð til viðbót við 6. gr. þannig að unnt verði að taka tillit til sérstakra mála er varða maka og börn þess er gjaldþrota verður enda þótt launakrafa þeirra hafi ekki verið viðurkennd sem forgangskrafa á grundvelli gjaldþrotaskiptalaga.
    Eggert Haukdal og Gunnlaugur Stefánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Jón Kristjánsson.


form., frsm.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.