Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 326 . mál.


1061. Nefndarálit



um frv. til skaðabótalaga.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hluti allsherjarnefndar styður þá grundvallarbreytingu sem lagt er til að gerð verði á greiðslum vegna varanlegrar örorku. Breytingin felst í því að greiðslur vegna varanlegrar örorku miðast við áætlað tekjutap í stað þess að miða við læknisfræðilegt mat. Þetta leiðir til þess að bætur munu yfirleitt hækka til þeirra sem lenda í alvarlegum slysum en í mörgum tilvikum lækka vegna minni háttar skaða. Vissulega er alltaf erfitt að leggja mat á hvað er mikill skaði og hvað er lítill skaði, en minni hlutinn vill til glöggvunar benda á eftirfarandi: Munur á bótum vegna mikils varanlegs miska, svo sem lömunar, og minni áverka, svo sem fingurmissis, hefur oft og tíðum verið of lítill að mati minni hlutans ef tekið er tillit til þess hve gífurlegur aðstöðumunur er á milli þess sem er bundinn hjólastól og hins. Samkvæmt ákvæðum 5. gr. frumvarpsins er auk þess tekið tillit til þess hvernig skaðinn snertir hvern og einn. Píanóleikari, sem missti fingur, mundi samkvæmt því vera metinn með mun meiri örorku en skrifstofumaður. Gera má ráð fyrir að munurinn gæti orðið allt að 40% (sjá kafla 4.1 í athugasemdum við frumvarpið). Handverksmaður mundi með sömu rökum vera metinn til hærri örorku en forstjóri. Samkvæmt núgildandi lögum væri varanleg örorka þeirra allra fjögurra sú sama (u.þ.b. 10%). Möguleikar þeirra til að stunda áfram fyrra starf sitt væru hins vegar mjög ólíkir og því má segja að skaði þeirra sé mismikill.

Ungt fólk og útivinnandi konur.


    Þær breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því það var lagt fram á 115. löggjafarþingi að grunnur bóta vegna örorku hefur verið hækkaður úr sexföldum árslaunum tjónþola í 7,5-föld árslaun en meira tillit er nú tekið til aldurs tjónþola. Skerðast bætur samkvæmt þessari gerð frumvarpsins nú frá og með 26 ára aldri í stað 56 ára aldri í fyrri gerð frumvarpsins. Þetta má styðja þeim rökum að tíminn, sem ungt fólk býr við örorku, er oftast lengri en hinna eldri. Unga fólkið á í flestum tilvikum eftir að fjárfesta í húsnæði og bera annan kostnað sem þeir eldri hafa oftar en ekki að baki. Minni hlutinn telur og að með þessari breytingu sé komið til móts við ábendingar um að ungt útivinnandi fólk hafi að öðru jöfnu ekki haft tíma til að vinna sig upp í sömu tekjur í starfi og hinir eldri. Hér er því tekið tillit til þess að ætla má að í framtíðinni muni ungt fólk hafa möguleika á að afla sér meiri tekna en þegar það er nýskriðið úr skóla. Hins vegar er ekki í þessu frumvarpi tekið tillit til framtíðarinnar hvað varðar tekjur kvenna. Grunnur bótagreiðslna eru tekjur næstliðins árs. Tekjur kvenna eru nú í flestum stéttum u.þ.b. 70% af tekjum karla og munurinn er því meiri sem um tekjuhærri stéttir er að ræða. Samkvæmt þessum grunni byggjast bótagreiðslur til kvenna á því að svona muni ástandið verða um aldur og ævi. Þótt tekjumunur milli kynja yrði að engu orðinn eftir 15 ár mundi konan sem slasaðist nú ekki njóta þeirra breytinga til jafns við kynsystur sínar. Þetta telur minni hlutinn alvarlegan ágalla á frumvarpinu. Minni hlutinn spurðist fyrir um möguleika á því að setja endurskoðunarákvæði í frumvarpið til að hægt væri að endurmeta tekjutap í ljósi breyttra aðstæðna, t.d. eftir ákveðinn árafjölda. Ekki reyndist vilji innan nefndarinnar til að kanna þá leið nánar þar sem slíkt var talið mjög erfitt í framkvæmd. Rétt er að benda á að unnt er að taka tillit til sérstakra aðstæðna þegar bætur eru ákveðnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins, en það mat miðast við tekjur áður en slys á sér stað en ekki mat á framtíðartekjum. Einnig er í 11. gr. kveðið á um að tjónþoli geti fengið miska sinn eða örorku endurmetinn, en þar er aðeins gert ráð fyrir að það sé hægt vegna læknisfræðilegra ástæðna, ekki fjárhagslegra. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að leita leiða til að koma inn í íslenskan skaðabótarétt ákvæðum um að hægt sé að fá fjárhagslegt tjón endurmetið í ljósi nýrra aðstæðna, ekki síður en læknisfræðilegt tjón. Nokkuð virðist skorta á að slíkt réttlætismál njóti skilnings eins og sakir standa og því þarf að finna viðunandi tæknilega útfærslu og vinna hugmyndunum stuðning ef unnt á að vera að leiðrétta þennan ágalla frumvarpsins. Það er mjög brýnt að mati minni hlutans.

Staða nema og heimavinnandi fólks.


    Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um bætur til þeirra sem ekki njóta vinnutekna. Stærstu hóparnir, sem falla undir þessa grein, eru börn, ungmenni í námi og heimavinnandi fólk. Í frumvarpinu er farin sú leið að hafa bætur til þessara hópa staðlaðar og miðaðar við miskastig. Þannig á ekki að vera hægt að ákvarða konum og körlum mismunandi bætur eins og væri ef miðað væri við áætlaðar meðaltekjur hvors kynsins fyrir sig á vinnumarkaði. Þetta telur minni hlutinn mjög mikilvægt. Því má segja að meira jafnræðis gæti milli kynja þegar í hlut á fólk sem ekki hefur atvinnutekjur en meðal útivinnandi fólks. Hins vegar geta komið upp nokkuð mismunandi aðstæður ef fólk er í hlutastörfum. Til glöggvunar birtir minni hlutinn nokkur dæmi til skýringar er hann fékk sérstaklega reiknuð í framhaldi af umræðum innan allsherjarnefndar. Þar eru bornar saman bætur sem 35 ára húsmóðir í 30% eða 60% starfi utan heimilis fengi samkvæmt núgildandi reglum og samkvæmt frumvarpinu. Dæmin eru reiknað út frá þrenns konar vinnutekjum. Hér er vitanlega um tilbúin dæmi að ræða en þau ættu að gefa nokkra mynd af veruleikanum. Í dæmunum er ekki tekið tillit til bóta frá lífeyrissjóðum. Ekki er getið um aðrar bætur en fyrir varanlega örorku, en við þetta bætast miskabætur o.fl., sjá fylgiskjal.
    Ljóst er að heimavinnandi fólk fær í sumum tilvikum hærri bætur en láglaunafólk. Minni hlutinn telur eðlilegra að meta heimilisstörf á þennan hátt en að miða við lágmarkstaxta eins og allt of oft er gert. Minni hlutinn styður því þá leið sem valin er í frumvarpinu. Hins vegar sýna þessi dæmi hvílík smánarlaun eru greidd á vinnumarkaði og ítrekar þá staðreynd að konur fylla láglaunahópana hvar í stétt sem þær standa.
    Í þessu frumvarpi er ekki tekið á því hvernig bætur skila sér til tjónþola. Möguleikar á innheimtu bóta eru mismunandi eftir því hvort tjónþoli lendir í bílslysi eða verður fyrir árás misindismanns sem ekki er borgunarmaður fyrir dæmdum bótum. Það hlýtur að vera næsta verkefni í skaðabótarétti að bæta úr þessum ágalla.
    Minni hlutinn styður frumvarpið í heild en telur rétt að benda á þessi atriði öðrum fremur við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. apríl 1993.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.





Fylgiskjal.

Samanburður á núgildandi venju á greiðslu bóta og þeirri


sem frumvarpið gerir ráð fyrir.



Slasaði: 35 ára húsmóðir í 30% starfi utan heimilis.
Örorka 100%.
Laun í kr. á mánuði. Aðrar fjárhæðir í þús. kr.

Núgildandi venja
Tekjugrundvöllur á mánuði     
70
.000 130 .000 200 .000
Árslaun     
840
.000 1 .560.000 2.400.000
Vinnutekjur og -tap (30%)     
21
.000 39 .000 60 .000
Tapaðar húsmóðurtekjur     
30
.000 30 .000 30 .000
Núvirði taps (í þús. kr.)     
8
.433 11 .409 14 .881
Frádráttur vegna skatta og eingreiðslu í %     
6
11 18
Frádráttur vegna skatta og eingreiðslu í kr.     
506
1 .255 2 .679
Til frádráttar örorkulíf. TR     
4
.490 4 .490 4 .490
Bætur frá hinum skaðabótaskylda     
3
.437 5 .664 7 .713

Frumvarp
Bætur skv. 8. gr.     
14
.400 14 .400 14 .400
(90% af 16.000.000, sbr. 4. og 9. gr.)


Slasaði: 35 ára húsmóðir í 60% starfi utan heimilis.
Örorka 100%.
Laun í kr. á mánuði. Aðrar fjárhæðir í þús. kr.

Núgildandi venja
Tekjugrundvöllur á mánuði     
70
.000 130 .000 200 .000
Árslaun     
840
.000 1 .560.000 2.400.000
Vinnutekjur og -tap (60%)     
42
.000 78 .000 120 .000
Tapaðar húsmóðurtekjur     
22
.000 22 .000 22 .000
Núvirði taps (í þús. kr.)     
10
.582 16 .535 23 .479
Frádráttur vegna skatta og eingreiðslu í %     
10
20 30
Frádráttur vegna skatta og eingreiðslu í kr.     
1
.058 3 .307 7 .044
Til frádráttar örorkulíf. TR     
4
.490 4 .490 4 .490
Bætur frá hinum skaðabótaskylda     
5
.034 8 .738 11 .946

Frumvarp
Bætur skv. 6. gr.
Tekjugrundvöllur á mánuði     
70
.000 130 .000 200 .000
Bætur 90% af 7,5-földum tekjugrundvelli     
5
.670 10 .530 16 .200
(Lækkun um 1% á ári frá og með 26 ára aldri til
35 ára aldurs, sbr. 9. gr.)