Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 25 . mál.


1083. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar .



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Um II. kafla frumvarpsins, um tryggingamál, komu Ingi R. Helgason, forstjóri Brunabótafélags Íslands, Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri Tryggingaeftirlitsins, frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga Ólafur B. Thors og Sigmar Ármannsson, Einar Sveinsson frá Sjóvá-Almennum, Eyþór Fannberg, forstöðumaður Húsatrygginga Reykjavíkurborgar, Jón G. Tómasson borgarritari og Magnús Óskarsson borgarlögmaður og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri. Þá komu til viðræðna um aðra kafla frumvarpsins Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytis, frá Læknafélagi Íslands Sverrir Bergmann formaður og Páll Þórðarson framkvæmdastjóri, frá Tannlæknafélagi Íslands Svend Richter og Jón Ásgeir Eyjólfsson formaður, Vilborg Ingólfsdóttir, formaður Hjúkrunarfélags Íslands, frá Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga Ásta Möller formaður og Sigrún Gunnarsdóttir, frá Apótekarafélagi Íslands Guðmundur Reykjalín, Ingólfur Benediktsson, Jón Björnsson formaður, Sigurður Jónsson og Benedikt Sigurðsson, frá lyfjahópi Félags íslenskra stórkaupmanna Birgir Thorlacius formaður og Sindri Sindrason, Eggert Sigfússon, aðstoðarlyfjafræðingur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, frá Hollustuvernd ríkisins Hermann Sveinbjörnsson stjórnarformaður og Daníel Viðarsson, forstöðumaður eiturefnasviðs, og Magnús Ólafsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins. Enn fremur bárust umsagnir frá Tryggingaeftirlitinu, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, borgarstjóranum í Reykjavík, Brunabótafélagi Íslands, sjávarútvegsráðuneytinu, Fasteignamati ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sambandi félaga sumarhúsaeigenda á Íslandi. Loks studdist nefndin við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Apótekarafélagi Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi íslenskra lyfjafræðinga, lyfjafræði lyfsala í Háskóla Íslands, lyfjahópi Félags íslenskra stórkaupmanna, prófessor í augnsjúkdómum við Háskóla Íslands, Félagi sjóntækjafræðinga, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Ljósmæðraskóla Íslands, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, Hjúkrunarfélagi Íslands, námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, Landssambandi sjúkrahúsa á Íslandi, Tryggingastofnun ríkisins, Tannlæknafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, læknadeild Háskóla Íslands, Umferðarráði, Stéttarsambandi bænda, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, VSÍ, BSRB, BHMR, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Brunabótafélagi Íslands, Íslenskri endurtryggingu, Tryggingaeftirlitinu, Húseigendafélaginu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Í fyrsta lagi verði orðalag 4. gr. leiðrétt, en hjúkrunarnám fer bæði fram í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.
    Í öðru lagi verði 11. gr. breytt, en þar er fjallað um brunatryggingar fasteigna. Hafa orðið miklar umræður um ákvæðið í nefndinni. Annars vegar er kveðið á um brunatryggingar í Reykjavík. Lagt er til að fasteignir þar verði brunatryggðar hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar til ársloka 1994 og skal húseigendum tilkynnt tímanlega að brunatryggingar þeirra falli niður. Skulu þeir hafa stofnað til brunatryggingar hjá öðru vátryggingafélagi frá 1. janúar 1995. Hins vegar er ákvæði um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Gilda sömu reglur þar og um brunatryggingar í Reykjavík. Húseigendur eru bundnir af vátryggingarsamningum sem sveitarfélag hefur gert til ársloka 1994 en eftir það geta þeir gert samninga við önnur vátryggingafélög. Ef þeir gera það ekki framlengist samningurinn við vátryggingafélagið sem sveitarfélagið hefur gert til eins árs í senn.
    Í þriðja lagi er lögð til sú breyting á 12. gr. að 20. gr. laga nr. 9/1955, um Brunabótafélag Íslands, falli ekki niður heldur verði þar kveðið á um heimild Brunabótafélagsins til að gera sérsamninga við einstök sveitarfélög um vátryggingarkjör húseigna. Með því gerist sveitarfélag félagi í Brunabótafélaginu en samningurinn bindur ekki alla húseigendur í umdæminu enda væri slíkt í andstöðu við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Loks er lagt til að 17. gr. falli niður. Fram hefur komið að ekki gafst tími til að koma þeim breytingum í frumvarpstexta sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur í för með sér varðandi eiturefni og hættuleg efni. Það mun hins vegar vera að meinalausu að ekki verði kveðið á um þau í frumvarpinu því að aðlögunartími varðandi eiturefni og hættuleg efni er til ársins 1995.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem tillaga er gerð um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. maí 1993.



Sigbjörn Gunnarsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Þuríður Pálsdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.