Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 363 . mál.


1101. Nefndarálit



um frv. til l. um framkvæmd útboða.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra, Finn Sveinbjörnsson skrifstofustjóra og Pál Ásgrímsson lögfræðing. Umsagnir bárust frá Innkaupastofnun ríkisins, Landsvirkjun, Vegagerð ríkisins, Verktakasambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi íslenskra iðnrekenda, Verkfræðingafélagi Íslands, Verslunarráði Íslands, Íslenskri verslun, Arkitektafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndin leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu:
    Lögð er til breyting á 8. gr. því að ekki er víst að bjóðendur eða fulltrúar þeirra séu alltaf viðstaddir opnun tilboða, sbr. 6. gr.
    Lagt er til að 14. gr. verði breytt þannig að ekki þurfi að senda öllum bjóðendum greinargerð með rökstuðningi fyrir vali á tilboðinu. Annað gæti orðið vandasamt því að í greinargerðinni gætu þurft að koma fram atriði sem sá sem hafnað yrði teldi að keppinautunum kæmi ekki við.
    Lagt er til að síðari málsliður 17. gr. falli brott en líta ber á gögn sem fylgja með tilboðseyðublaði sem hluta tilboðsins og nauðsynlegan þátt þess. Talið hefur verið eðlilegt að halda slíkum skjölum og varðveita þau eins og önnur gögn sem berast fyrirtæki. Endursending tilboðsgagna væri og lítil trygging fyrir því að kaupandi gæti ekki nýtt sér upplýsingar sem þar koma fram.
    Loks er lögð til breyting á 19. gr. því að samningur stofnast milli aðila við það að kaupandi tekur tilboði bjóðanda og er það því hluti samningsins.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. maí 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Guðjón Guðmundsson.

Einar K. Guðfinnsson.


form., frsm.



Halldór Ásgrímsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.