Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 504 . mál.


1125. Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46/1985, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar (EgJ, ÖS, ÁRÁ, EKG, EH, JGS, GÁ).



    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
    Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbúnaðarráðherra. Hið sama gildir um vörulíki þessara vara. Ráðherra skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni nema þegar um er að ræða innflutning á kartöflum, nýju grænmeti, sveppum og blómum. Ráðherra skal þá leita umsagnar nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum framleiðenda, tilnefndum af samtökum þeirra, tveimur fulltrúum innflytjenda þessara vörutegunda, tilnefndum af viðskiptaráðherra, og oddamanni, tilnefndum af landbúnaðarráðherra. Skal nefndin láta ráðherra í té rökstudda umsögn um hvort innflutnings sé þörf og hve mikils. Ráðherra getur að fenginni umsögn nefndarinnar ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera undanþeginn leyfisveitingu og skal þá kveða á um leyfilegan sölutíma varanna. Sama gildir um aðrar vörur sem greinin tekur til, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innflutningur garðyrkjuafurða skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
    Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að, enda sé verðjöfnunargjöldum beitt í samræmi við heimildir í milliríkjasamningum. Jafnframt getur ráðherra látið að öðru leyti koma til framkvæmda ákvæði í slíkum samningum, bókunum og viðaukum sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra. Samráð skal haft milli fjármálaráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins um framkvæmd verðjöfnunar, þannig að ekki verði raskað samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu landbúnaðarvara og vara sem unnar eru úr hráefnum úr landbúnaði, innan þeirra marka sem áðurgreindir samningar setja.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um til hvaða vara og vörulíkja ákvæði 1. og 2. mgr. tekur, þar með talið hlutfall hráefna í unnum vörum.
    Ráðherra ákveður með reglugerð af hvaða hráefni úr landbúnaði skuli vera heimilt að endurgreiða verðjöfnunargjald við útflutning og hver endurgreiðslufjárhæðin skal vera.