Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 458 . mál.


1143. Nefndarálit



um till. til þál. um að styrkja stöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið en þar er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sem styrki stöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála.
    Nefndin telur að tillagan hreyfi við mikilvægu máli sem vert er fela ríkisstjórninni að kanna og leggja fram tillögur um svo fljótt sem auðið er. Sérstaklega er athyglisverð hugmynd sem reifuð er í greinargerð með tillögunni á bls. 2. Snýr hún að því að þolendur kynferðisbrota öðlist fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð máls lýkur.
    Nefndin bendir þó á að ýmislegt hefur áunnist í því að styrkja stöðu brotaþola kynferðisbrota. T.d. var nýlega samþykkt í nefndinni tillaga til þingsályktunar um ríkisábyrgð á bótagreiðslum vegna kynferðisbrota, 352. mál.
    Samt sem áður er rík nauðsyn á að athuga þessi mál og í trausti þess að svo verði gert leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 6. maí 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.



Ólafur Þ. Þórðarson.

Kristinn H. Gunnarsson.

Sigbjörn Gunnarsson.