Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 132 . mál.


1158. Nefndarálit



um till. til þál. um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis.

Frá félagsmálanefnd.



    Félagsmálanefnd hefur fjallað um tillöguna og fékk á fund sinn til viðræðna Stefán Ólafsson frá Félagsvísindastofnun Háskólans.
    Tillaga um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis fékk jákvæðar viðtökur þegar hún var rædd á Alþingi og í þeim umsögnum, sem bárust um tillöguna, var yfirleitt tekið undir markmið hennar. Hins vegar komu fram athugasemdir um að tillagan er mjög víðtæk og að sumir þeir þættir, sem rannsaka skal á skömmum tíma, hafi víða erlendis tekið mörg ár.
    Úrbætur á þeim sviðum, sem tillagan fjallar um, falla jafnframt undir ýmis lög sem eru til endurskoðunar á vegum ríkisstjórnarinnar. Má í því tilfelli sérstaklega nefna frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Þá má nefna að nýlega hefur verið skipuð nefnd til að endurskoða lög um vinnumiðlun (nr. 18/1985) en markmið endurskoðunarinnar er m.a. að gaumgæfa hvort tímabært sé að kveða á um sérstaka þjónustu fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma. Einnig er hlutverk nefndarinnar að athuga tengsl laga um vinnumiðlun við önnur lög sem snerta vinnumiðlun, svo sem lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, lög um málefni fatlaðra og lög um atvinnuleysistryggingar.
    Félagsvísindastofnun hefur nú lokið ítarlegri könnun á högum eitt þúsund atvinnulausra og hafa félagsmálanefnd verið kynntar niðurstöður hennar.
    Nefndinni finnst mikilvægt að fylgja eftir þeim upplýsingum sem þar koma fram og leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU

:

    Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna:
    hvaða stefnumörkun niðurstöður könnunar á högum atvinnulausra kalli á,
    hverjar séu takmarkanir bótakerfisins gagnvart þessum hópi og hvort og þá hvernig breyta skuli stuðningi hins opinbera við atvinnulausa, ekki hvað síst við þá sem búa við langvarandi atvinnuleysi,
    hvernig unnt er að bæta aðgang atvinnulausra að menntakerfinu, ekki síst starfsmenntun og starfsþjálfun,
    hver sé þjóðfélagslegur kostnaður vegna atvinnuleysis.
    Í upphafi næsta þings verði lögð fram greinargerð um málið.

Alþingi, 5. maí 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson,

Einar K. Guðfinnsson.


form.

frsm.



Gunnlaugur Stefánsson.

Kristinn H. Gunnarsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



Ingibjörg Pálmadóttir.

Jón Kristjánsson.

Eggert Haukdal.