Ferill 455. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 455 . mál.


1171. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á skipulagslögum, nr. 19/1964, ásamt síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn til viðræðna frá umhverfisráðuneytinu Jón Gunnar Ottósson skrifstofustjóra, Tryggva Gunnarsson hrl., Allan V. Magnússon héraðsdómara, Stefán Má Stefánsson prófessor og frá Náttúruverndarráði Arnþór Garðarsson formann og Þórodd F. Þóroddsson framkvæmdastjóra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Lagabreyting sú, sem frumvarpið felur í sér, gerir mögulegt að hefja skipulagsgerð á miðhálendinu. Nefndin leggur áherslu á að þau mörk, sem dregin verða um miðhálendið, munu á engan hátt breyta núverandi réttarstöðu hvað varðar eignarhald á svæðinu og lögsögu yfir afréttum og almenningum. Eðlilegt þykir að ákvæði þetta verði sett til bráðabirgða og er því ætlaður gildistími þar til ný skipulags- og byggingarlög verða samþykkt. Unnið hefur verið að mótun nýrrar löggjafar á þessu sviði. Frumvarp til skipulags- og byggingarlaga var lagt fram á þessu þingi en ekki náðist að afgreiða það. Frumvarpið verður væntanlega lagt fram og afgreitt á næsta þingi og verður þá ákveðið hver verður meðferð skipulagstillögu fyrir miðhálendi landsins.
    Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins vinnur um þessar mundir að því að kanna á hvern hátt skilgreina megi betur og ákvarða eignarrétt á miðhálendinu. Er þess vænst að frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir næsta löggjafarþing. Nefndin bendir á að hafa þarf hliðsjón af niðurstöðum nefndarinnar þegar ákvörðun verður tekin um meðferð skipulagstillögu fyrir miðhálendið.

Alþingi, 5. maí 1993.



Gunnlaugur Stefánsson,

Kristín Einarsdóttir,

Tómas Ingi Olrich.


form.

frsm.



Valgerður Sverrisdóttir.

Árni M. Mathiesen.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.



Árni R. Árnason.

Sigríður Jóhannesdóttir.

Hjörleifur Guttormsson.