Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 2 . mál.


1175. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin afgreiddi frumvarpið upphaflega frá sér með breytingum 5. nóvember sl. Ýmsar athugasemdir komu fram við málið við 2. umr. þess og tók nefndin því frumvarpið á ný til umfjöllunar. Nefndin leggur nú til breytingar á frumvarpinu sem miða að því að stytta það og gera það skýrara. Um leið kallar nefndin aftur fyrri breytingartillögur á þskj. 270. Þau atriði, sem lagt er til að felld séu brott, eru þess eðlis að annaðhvort er hægt að kveða á um þau í reglugerð eða þau má leiða af eðli máls.
    Nefndin vill leggja áherslu á mikilvægi þess að þingið afgreiði frumvarpið og bendir í því sambandi á að svæðislýsing smárása í hálfleiðurum er undirstaða hátækniiðnaðar í dag. Þó ekki séu hannaðar svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum hér á landi nú getur til þess komið innan tíðar að smárásir verði framleiddar hér, sbr. t.d. umræðu um fríiðnaðarsvæði hér á landi. Þá er nauðsynlegt að fyrir hendi sé raunhæf vernd og því er mikilvægt að vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum verði lögfest sem fyrst hér á landi. Önnur mikilvæg ástæða til þess að þetta frumvarp verði lögfest sem fyrst er vegna alþjóðaskuldbindinga okkar. Evrópubandalagið (EB) setti tilskipun 1986 um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum, sbr. tilskipun ráðherraráðs EB frá 16. desember 1986 (87/54/EBE). Sú tilskipun tók aðeins til ríkisborgara EB-ríkja. En með ákvörðun ráðherraráðsins, dags. 31. maí 1988, var verndin tímabundið einnig látin ná til ríkisborgara ákveðinna landa sem veittu ríkisborgurum EB vernd á þessu sviði eða þar sem unnið var að því að veita ríkisborgurum EB slíka vernd. Þessi ákvörðun ráðherraráðsins tók til íslenskra ríkisborgara. Hinn 21. desember 1992 var áðurnefnd ákvörðun ráðherraráðsins gerð ótímabundin af hálfu EB á grundvelli upplýsinga um að unnið væri að því að veita ríkisborgurum EB samsvarandi vernd á Íslandi.
    Nefndin vill einnig benda á að þörf er á sérlögum um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum þar sem hönnun þeirra telst ekki uppfinning í skilningi einkaleyfalaga og því ekki hægt að vernda hönnun þeirra samkvæmt þeim. Ekki er heldur unnt að vernda hönnun svæðislýsinga smárása með lögum um hönnunarvernd þar sem það er hluti af hugtakaskilgreiningu svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum að hún hafi ákveðna tæknilega virkni. Hönnunarvernd tekur hins vegar eingöngu til verndar á útliti vöru að því marki sem það ræðst ekki af tæknilegum tilgangi vörunnar.
    Þær breytingar, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu, eru eftirfarandi:
    Við 1. gr. Lagt er til að greinin verði stytt verulega. Efni 2. mgr., sem lagt er til að verði felld niður, leiðir af eðli máls og því er ekki þörf sérstaks ákvæðis. Sama gildir um efni 4. og 5. mgr. að því leyti sem lagt er til að þær verði felldar niður.
    Við 2. gr. Í frumvarpsgreininni er að finna hugtakaskilgreiningar sem byggðar eru á tilskipun EB um sama efni. Lagt er til að þessum skilgreiningum verði sleppt. Ef síðar verður talin þörf á slíkum skilgreiningum má setja þær í reglugerð.
    Við 3. gr. Í frumvarpsgreininni er kveðið á um hver sé rétthafi verndar og hvernig með skuli farið ef svæðislýsing er hönnuð í vinnusambandi eða samkvæmt annars konar samningi. Lagt er til að þessu ákvæði sé sleppt þar sem eðlilegra er að kveðið sé á um slíkt í sérlögum sem taki til allra hugverkaréttinda.
    Við 5. gr. Lagt er til að felld verði niður skilgreiningin í 2. tölul. á því hvað teljist hagnýting í atvinnuskyni. Einnig er breytt framsetningu 3. tölul. þar sem í upphaflegu frumvarpi var hugtakavilla, sbr. nefndarálit iðnaðarnefndar 5. nóvember sl. Að lokum er lagt til að meginefni þess sem áður var í 1.–4. tölul. 6. gr. frumvarpsins verði fellt inn í 5. gr. og verði 2. mgr. greinarinnar. Um er að ræða nýtt orðalag en ekki felst í því efnisbreyting.
    Við 6. gr. Lagt er til að efni 5. tölul. 6. gr. verði sérstök grein. Efni hennar tekur til hvernig með skuli fara ef einhver hagnýtir sér í atvinnuskyni smárás sem framleidd hefur verið andstætt þessum lögum án þess að hafa vitneskju um að svo sé. Þetta getur t.d. átt við þá sem flytja inn sjónvörp eða tölvur. Ef einhver lendir í því að kaupa tölvu fyrir atvinnurekstur sinn sem hefur í sér smárás sem er framleidd andstætt þessu frumvarpi má sá hinn sami halda áfram að nota tölvuna í atvinnurekstri sínum þótt svo sé ástatt um innviði tölvunnar. Hins vegar er rétthafa svæðislýsingarinnar, sem smárásin er framleidd eftir, heimilt að krefjast þess að viðkomandi greiði sér sanngjarnar bætur frá því tímamarki sem honum mátti vera ljóst að smárásin var framleidd í bága við lög.
    Við 8. gr. Lagt er til, sbr. nefndarálit 5. nóvember sl., að sérákvæði þau, sem er að finna í 3. og 4. málsl. greinarinnar, falli niður og venjulegur fyrningarfrestur gildi.
    Við 9. gr. Lagt er til að 2. málsl. greinarinnar falli brott þar sem hann er óþarfur.
    Við 11. gr. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Engin þörf er á sérstökum aðlögunartíma þar sem ekki verður um að ræða skráningu réttinda samkvæmt lögunum. Einnig er ljóst að hefjast þarf handa svo fljótt sem unnt er um að veita ríkisborgurum annarra þjóða, sem veitt hafa íslenskum ríkisborgurum réttarvernd, samsvarandi vernd. Slíkt verður gert með reglugerð.
    Kristín Einarsdóttir og Páll Pétursson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. maí 1993.



Össur Skarphéðinsson,

Pálmi Jónsson.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Svavar Gestsson.

Finnur Ingólfsson.

Vilhjálmur Egilsson.



Guðjón A. Kristjánsson.