Setning bráðabirgðalaga og ummæli forseta

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:08:42 (3301)


[15:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að ég beitti mér fyrir því á síðustu klukkustund þinghaldsins fyrir jól að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann væri reiðubúinn að gefa þá yfirlýsingu að ef þyrfti að grípa til lagasetningarvaldsins þá yrði þingið kallað saman. Hæstv. forsrh. neitaði að gefa þá yfirlýsingu. Það leiddi síðan til þess að þingflokkur Alþb. greiddi ekki atkvæði með frestunartillögu sem ríkisstjórnin flutti hér. Það gerðu hins vegar, að ég held, allir aðrir flokkar á þinginu. Það er auðvitað mikilvægt að hafa það í huga þegar farið er yfir þessa sögu að Alþb. var eini flokkurinn sem ekki treysti sér til að greiða atkvæði með þingfrestuninni, fyrst forsrh. var að vísa til þeirrar samþykktar þingsins hér áðan, en aðrir flokkar gerðu það allir.
    Ég vil taka undir yfirlýsingu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að yfirlýsingar hæstv. forseta um að það skipti engu hvort bráðabirgðalög væru sett eða þingið kallað saman eru, svo vægt sé til orða tekið, furðulegar. Auðvitað á forseti þingsins að gæta þess að þegar breyting hefur verið gerð varðandi setutíma Alþingis þá sé fylgt þeirri reglu að kalla þingið saman.
    Nú hefur það gerst til viðbótar að einn af þm. Sjálfstfl., Einar K. Guðfinnsson, hefur lýst því yfir að hann sé andvígur setningu bráðabirgðalaga og hann hefur jafnframt lýst því yfir að það hafi ekki verið kannað í þingflokki Sjálfstfl. hvort stuðningur væri við þessi bráðabirgðalög. Engin annar þingmaður Sjálfstfl. hefur talið ástæðu til þess að bera ummæli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar til baka. Það er þess vegna algjörlega óljóst, í ljósi ummæla eins þingmanns Sjálfstfl., hvort meiri hluti er á bak við þessi bráðabirgðalög. Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta að hann taki þau þegar í stað til umræðu hér á Alþingi, en í dagskrá þingsins fyrir þessa viku og næstu viku er ekki gert ráð fyrir því að bráðabirgðalögin komi til umræðu.