Setning bráðabirgðalaga og ummæli forseta

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 15:11:37 (3303)


[15:11]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að forsrh. getur sent þingið heim, þingrofsrétturinn er ótvíræður. En varðandi það hvort eðlilegt geti verið að taka ákvörðun um það að lengja jólafrí þingmanna eins og gert var, flytja slíka brtt. vitandi að verkfallið vofði yfir, hlýtur það ekki að segja manni að hæstv. forsrh. var það ljóst að það var ekki siðferðilega hægt að beita bráðabirgðalögum ef þingið átti að koma saman jafnsnemma og ráðgert var í upphafi? Voru það þess vegna ekki klókindi hrein og klár að lengja hléið til þess að hægt væri að réttlæta það að hægt væri að beita bráðabirgðalögum?
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. þeirrar spurningar: Var haft samband við stjórnarþingmenn og það tryggt að meiri hluti væri fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að styðja þetta frv.? Það er alvarlegt mál ef menn eru farnir að líta svo á að það sé allt í lagi að demba á bráðabirgðalögum eftir geðþótta.
    Ég hygg að það sé líka hollt fyrir hæstv. forsrh. að lesa ræðu hv. 1. þm. Reykn. um þessi mál á sínum tíma og rifja upp hvað þá var sagt. Ef til vill vill hv. 1. þm. Reykn. endurtaka sínar yfirlýsingar þegar þessi mál voru til umræðu og talað var um að verið væri að þrengja réttinn til útgáfu bráðabirgðalaga.
    Þetta er ekki svo einfalt að það sé bara hægt að snúa sé við og horfa til fortíðarinnar og segja: Þetta var gert, hitt var gert. Við erum að tala um atburð sem átti sér stað núna. Hann er á dagskrá og annað ekki.