Samkeppnisstaða innlendrar garðyrkju

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:00:34 (3321)


[16:00]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans og fyrir þær yfirlýsingar að hann væri að reyna að gera eitthvað til þess að mæta þarna óskum garðyrkjubænda og skyldu ríkisvaldsins að jafna þessa stöðu.
    En bæði vegna þess hversu hægt hefur gengið og líka af reynslu á öðrum sviðum þá óttast ég að þetta muni hrökkva skammt til að skapa viðunandi rekstrargrundvöll en það á eftir að koma í ljós. Vonandi nær það sem lengst. En hæstv. landbrh. svaraði því ekki hvort það væri hugsanlegt að ákvæði í EES-samningnum um öryggisráðstafanir gætu náð til þessa tvíhliða samnings þannig að það væri þá hægt að grípa til annarra ráðstafana ef þær sem hann nær fram í sambandi við tolla hrökkva hvergi nærri til.
    Eins og ég benti á áður er hér um að ræða hættu ekki aðeins af atvinnuleysi fyrir stóran hluta garðyrkjubænda heldur líka eignaupptöku þar sem eignir þeirra verða verðlausar. Og ég hygg að þeir sem studdu þennan samning við atkvæðagreiðslu hér á Alþingi hefðu ekki gert það ef þeim hefði verið það nokkurn veginn ljóst að það mundi leiða til þess að hann svipti þá öllum eignum sínum. Ég tel því að þarna sé um mikla siðferðislega skuldbindingu Alþingis og ríkisstjórnar að ræða að láta ekki svo fara. En hér er ekki aðeins um að ræða einkamál garðyrkjubænda því að segja má að þetta sé prófsteinninn á það sem fram undan er. Um næstu áramót er gert ráð fyrir að nýgerður GATT-samningur gangi í gildi. Allir eru sammála um að við verðum að gerast aðilar að honum. Hins vegar var honum lokið þannig að í honum eru ákvæði um verslun með búvörur sem mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir flestar búgreinar ef ríkisvaldið heldur illa á málum við framkvæmd hans. Komi ríkisstjórnin ekki rækilega á móti kröfum garðyrkjubænda þá er það illur fyrirboði um framhaldið.