Samkeppnisstaða innlendrar garðyrkju

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:03:29 (3322)


[16:03]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram fyrst að þeir rekstrarerfiðleikar sem garðyrkjan stendur nú frammi fyrir er ekki nýir af nálinni. Þetta er arfur frá fyrri tíma eða uppsafnaður vandi í mörgum tilvikum og ekki hægt að tala um hann með þeim hætti enda eru samningarnir um hið Evrópska efnahagssvæði nýgengnir í gildi og ekki hægt að rekja til þeirra þann uppsafnaða vanda sem það er, kemur m.a. inn á sjóðakerfi landbúnaðarins, lánamál, lánakerfi hans og fleiri þætti.
    Ég tek undir með hv. 4. þm. Suðurl., Margréti Frímannsdóttur, að auðvitað skiptir það miklu máli að hinn frjálsi rekstur standi ekki í samkeppni við ríkisstyrktan rekstur og kemur mér það út af fyrir sig ekki á óvart að þessi þingmaður Alþb. skuli öðrum fremur í þeim hópi vera sammála okkur sjálfstæðismönnum um þau efni. En þá er á hitt að líta að það fyrirtæki sem kannski munar mestu um og veldur vissulega erfiðleikum í þessu efni er fyrirtækið Barri sem byggt var upp að verulegu leyti með opinberu fé og má vera að reynslan verði sú að það forskot sem það fyrirtæki hefur þannig notið muni nýtast því vel í sambandi við þau útboð á trjáplöntum sem nú eru í gangi. Ég skal ekki um það segja. En á þessu ári verða boðnar út 800 þús. trjáplöntur sem er nýmæli. Síðan verða boðnar út eins og þetta dæmi er nú sett upp 400 þús. plöntur á ári sem á að þýða að 1.200 þús. trjáplöntur séu á hverju ári í ræktun hjá einkaaðilum fyrir skógræktina í heild sinni.
    Ég vil sem sagt taka undir það að nauðsynlegt er að styrkja rekstrargrundvöll garðyrkjunnar hér gagnvart ríkisreknum fyrirtækjum um leið og ég legg áherslu á að það er mjög brýnt að ljúka þeirri endurskoðun á rekstrarumhverfi garðyrkjunnar sem nú fer fram og beinist annars vegar að því að fella niður óeðlileg innflutningsgjöld á garðyrkjuna vegna hinnar hörðu samkeppni sem hún á við erlenda aðila og hins vegar að reyna að lækka ýmsa kostnaðarliði innlenda eins og orkuna og í þriðja og síðasta lagi að reyna að greiða fyrir almennri hagræðingu innan garðyrkjunnar og þróun í þeim efnum og ég er ekki í vafa um að þegar því verki er lokið þurfum við ekki að óttast um framtíð hennar.