Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:17:44 (3325)


[16:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Ég held að það sé löngu fullreynt að hvort sem við ræðum það lengur eða skemur þá fáum við ekki botn í landbúnaðarstefnu þessarar ríkisstjórnar. Hitt er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að skýra þannig að ekki verði um það deilt hver er vilji Alþingis, hvaða lög Alþingi vill að gildi um þessi efni í landinu. Nú liggur fyrir sú niðurstaða Hæstaréttar að búvörulögin feli ekki í sér sem slík sjálfstæða og almenna heimild til þess að banna eða takmarka innflutning. Sú niðurstaða kann að koma ýmsum á óvart en hún gildir og þar með verður Alþingi að svara því: Er það sú skipan mála sem það vill hafa eða einhver önnur?
    Það verður ekki horft fram hjá því að þetta mál er nú þegar orðið mikill álitshnekkir fyrir stjórnsýsluna á Íslandi. Dómar ganga þannig að í undirrétti er utanrrh. dæmdur brotlegur og hans embættisgjörðir ómerktar en í Hæstarétti eru það landbrh. og fjmrh. Þetta ástand er óþolandi fyrir stjórnsýsluna í landinu og það kemur því miður líka við löggjafann.
    Alþingi verður nú að taka af allan vafa í þessu efni. Eftir það sem á undan er gengið er ekki nokkur leið að una því að minnsti vafi geti leikið á um réttarstöðuna í málinu. Það verður að afmarka það skýrt og afdráttarlaust í lögum hvar þetta vald liggur, hvert það er og hvernig það er afmarkað og virðing Alþingis að mínu mati er í húfi. Það er ekki hægt að una því áfram að hingað inn á þingið komi frv. sem feli í sér pólitísk hrossakaup dulbúin í óljósu orðalagi, en það er í raun og veru ógæfa þessa máls að pólitísk hrossakaup hafa verið dulbúin í óljósu orðalagi sem síðan hafa verið túlkuð og dæmd á víxl úti í þjóðfélaginu. Við getum ekki búið við það ástand lengur. Þess vegna tel ég að það stæði Alþingi sjálfu næst að leysa þetta mál og landbn. og efh.- og viðskn. þingsins ættu að hafa forustu um það og senda hins vegar til föðurhúsanna frumvörp sem samin eru af þremur ráðuneytum úti í bæ að manni skilst, (Forseti hringir.) öðrum en landbrn. sem eru auðvitað sérkennileg vinnubrögð í þessu sambandi, hæstv. forseti. En ég endurtek það að þessari óvissu verður að linna.