Fundarstjórn forseta og stuðningur við setningu bráðabirgðalaga

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:45:12 (3336)

[16:45]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um stjórn þingsins vegna þess að á fyrri fundi bað ég um orðið í umræðu um störf þingsins en fékk ekki. En í þingsköpum segir svo: ,,Umræður um athugasemdir mega ekki standa lengur en í 20 mínútur``, hæstv. forseti. Ég hef fengið tímamælingar af ræðum manna í þessum dagskrárlið. Þar kemur ljóslega fram að sá tími sem veittur var var rétt tæpar 13 mínútur til umræðunnar. Samtals fóru því í þessa umræðu rétt um 15 mínútur. Mér var hins vegar meinað um orðið þegar ég kvaddi mér hljóðs og finnst mér það nokkuð hart að verið hjá forseta vegna þess að ef ég veit rétt þá mun ég hafa verið síðastur á mælendaskrá.
    Ég harma þetta, virðulegur forseti. En ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér þá hljóðs var sú --- og ég kem því hér á framfæri við hæstv. ráðherra ég sé að hæstv. sjútvrh. er ekki hér inni en hæstv. forsrh. situr hér --- að ráðherra skuldar þinginu skýringu á því sem hv. þm. fóru fram á og báðu um svör við fyrr í dag: Hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar gengið úr skugga um það við þingmenn Alþfl. og við þingmenn Sjálfstfl. að stuðningur þeirra lægi fyrir við setningu bráðabirgðalaganna? Ég trúi ekki öðru en annar hvor þessara hæstv. ráðherra, forsrh. eða sjútvrh., vilji koma hér í þennan ræðustól og segja þingmönnum frá því hvort leitað hafi verið eftir því við þingmenn þessara stjórnarflokka. Nú hefur verið lagt fram frv. til laga um stöðvun á verkfalli fiskimanna, og vegna þess að hér er á dagskrá þingsins á morgun frv. til laga um stjórnun fiskveiða og vegna þeirra orða sem hér hafa fallið frá hæstv. ráðherra þá hníga öll rök að því að það sé eðlilegra að þetta mál verði tekið fyrir í upphafi fundar á morgun, staðfesting á bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar, fremur en um stjórnun fiskveiða þó vissulega sé það nauðsynlegt.