Fundarstjórn forseta og stuðningur við setningu bráðabirgðalaga

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:49:54 (3339)


[16:49]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég met það við hæstv. forseta að sú yfirlýsing skyldi hér gefin að hér hefði verið um mistök að ræða.
    En það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á er að það ætti ekkert að vera að vanbúnaði að fara í umræðu um bráðabirgðalögin. Hin loðna yfirlýsing hæstv. forsrh. að þeir hefðu haft rökstudda vissu fyrir því að meiri hluti væri fyrir lögunum í þingliði ríkisstjórnarinnar leiðir hugann að því að nokkuð sérstæðar aðferðir hljóta að vera hafðar uppi til að komast að vilja þingmanna nema þá nokkrir séu skildir út undan og ekki taldir viðræðuhæfir þegar þarf að kanna það hvernig þeirra viðhorf séu.
    Ég verð að segja eins og er að það væri forvitnilegt að fá upp það njósnakerfi sem hæstv. forsrh. notar í þessu sambandi því það virðist ekki vera að það sé hringt beint á menn heldur fari athuganir fram og svo komi rökstudd niðurstaða. Satt best að segja efa ég ekki og hef aldrei efað vald hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar til að setja bráðabirgðalög. Ég efa ekki valdið. En ég tel vinnubrögðin gersamlega óhæf eins og að þessu hefur verið staðið og þá er það lágmark gagnvart Alþingi Íslendinga að málið verði þá þegar í stað tekið til umræðu, jafnskjótt og hægt er.