Fundarstjórn forseta og stuðningur við setningu bráðabirgðalaga

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:55:06 (3342)


[16:55]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er æðioft sem afbrigði hafa verið veitt í þinginu fyrir því að taka mál á dagskrá og stundum eru slík afbrigði veitt í röðum þegar liggur á að koma málum í gegnum þingið. Ég tel alveg einsýnt að það þurfi að ræða frv. til laga um stöðvun verkfalls fiskimanna áður en frv. til laga um stjórn fiskveiða verður rætt af þeirri einföldu ástæðu að sú umræða mun ekki fara fram á eðlilegan hátt ef hún á að fara fram á morgun áður en þessi umræða verður tekin. Umræðan um stjórn fiskveiða á morgun mun þá snúast um það frv. sem hefur verið dreift í dag. Ég held að í því frv. séu ýmsir hlutir sem eiga að koma til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða líka til viðbótar þeim ákvæðum sem ríkisstjórnin hefur áður lagt fyrir þingið til breytinga á lögunum um stjórn fiskveiða. Auk þess held ég að það þýði ekkert að hefja hér umræður um sjávarútvegsmál fyrr en umræðu um bráðabirgðalögin er lokið. Ég held að allir sjái að slík umræða muni ekki ganga. Menn munu auðvitað fara að tala um frv. sem hér liggur fyrir. Þess vegna óska ég eindregið eftir því að hæstv. forseti taki þessar beiðnir þingmanna til greina og það verði gerð breyting á dagskrá þingsins á morgun.