Fundarstjórn forseta og stuðningur við setningu bráðabirgðalaga

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:00:00 (3346)


[17:00]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég mun af drenglyndi og hreinskilni treysta mér til þess að ræða störf þingsins. Þar þarf engin viðkvæmni að koma til. Við gerum okkur grein fyrir því þegar við komum saman eftir jólafrí að ýmislegt hefur gerst í lagasetningunni og að þingið hefur verið misvirt og því verður ekki neitað að ummæli hæstv. forseta við einn fjölmiðilinn um bráðabirgðalögin á íslenska sjómenn voru vanvirðing við Alþingi Íslendinga. Þó ég ræði hér af fullri hreinskilni í mínum ræðutíma hef ég ekki verið með neinar aðdróttanir í garð hæstv. forseta. Ég hef í höndunum það viðtal sem einn fjölmiðill átti við forsetann. Hins vegar sagði ég réttilega og ég veit að hæstv. forsrh. er maður til að svara fyrir sig að auðvitað lægi hann undir þeim grun að hann hefði seinkað þinghaldinu til þess að það gæfist kostur að setja bráðabirgðalög á íslenska sjómenn og koma þeim á ný út á haf.