Skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:01:46 (3347)


[17:01]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 368 til hæstv. forsrh. um skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrirspurnin er í tveimur liðum og hljóðar svo:

  ,,1. Hve mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa fengið skuldbreytingar á lánum sínum í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að mæta aflasamdrætti frá 27. júní í sumar og hver er heildarupphæð þeirrar fyrirgreiðslu?
    2. Hve margir smábátaeigendur hafa sótt um slíkar skuldbreytingar, hve margir hafa fengið úrlausn sinna mála og hver er heildarupphæð þeirrar fyrirgreiðslu?``
    Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú að hæstv. ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu 27. júní 1993. Í þeirri yfirlýsingu, sem var um aðgerðir til að mæta aflasamdrætti, kom fram að það ætti að gera ýmsar ráðstafanir til að rétta hlut sjávarútvegsfyrirtækja sem færu illa út úr aflaskerðingu. Þar er í einum liðnum talað um afborganir af lánum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar til sjávarútvegsfyrirtækja. Með leyfi forseta stendur hér: ,,... árin 1994 og 1995 verði færðar aftur fyrir aðrar afborganir og lánstími lánanna lengdur um fjögur ár. Ríkisstjórnin mun beina þeim tilmælum til Fiskveiðasjóðs að hluti afborgana verði færður til á hliðstæðan hátt. Þá verði skuldbreyting lána hjá Byggðastofnun og Ríkisábyrgðasjóði einnig athuguð í þessu samhengi.``
    Það sem hefur vakið athygli mína er að það er ekki að sjá að um neinar ráðstafanir sé að ræða sem koma til móts við þarfir smábátaeigenda sem margir hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna aflaskerðingar. Þá er ég fyrst og fremst að tala um þá sem eru með sína báta á aflamarki og reyndar hina líka sem eru með krókaleyfin en þeir eru á öðrum kjörum en hinir gagnvart fiskveiðunum. En gagnvart lánafyrirgreiðslu og öðru slíku eru þessir smáútgerðarmenn í miklu erfiðari aðstöðu en stærri útgerðin í landinu. Þeim var á sínum tíma nánast sparkað út úr Fiskveiðasjóði og hafa ekki haft þar neina fyrirgreiðslu sem orð er á gerandi. Það verður þess vegna fróðlegt að sjá svör hæstv. forsrh. um það hve margir af þeim hafa fengið fyrirgreiðslu.
    Ég ætlaði að segja það til viðbótar að margir smábátaeigendur hafa látið það koma fram að þeir telja sína aðstöðu gersamlega óviðunandi. Þeir hafa orðið að hlíta kjörum í bönkum og hjá fjármögnunarleigum og öðrum slíkum fyrirtækjum vegna þess hvernig þeirra aðstaða er. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar hvort ekki hafi komið til neinnar umræðu um að koma með einhverju móti til móts við þessa útgerðarmenn í landinu þegar hæstv. ríkisstjórn var að fjalla um þessa hluti í sambandi við kjarasamningana á sínum tíma.