Skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:05:31 (3348)


[17:05]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur borið fram fyrirspurn um skuldbreytingar sjávarútvegsfyrirtækja svohljóðandi:
  ,,1. Hve mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa fengið skuldbreytingar á lánum sínum í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að mæta aflasamdrætti frá 27. júní í sumar og hver er heildarupphæð þeirrar fyrirgreiðslu?
    2. Hve margir smábátaeigendur hafa sótt um slíkar skuldbreytingar, hve margir hafa fengið úrlausn sinna mála og hver er heildarupphæð þeirrar fyrirgreiðslu?``
    Lánum Atvinnutryggingarsjóðs var skuldbreytt í byrjun árs 1992 þannig að afborgarnir áranna 1992 og 1993 voru færðar aftur fyrir aðrar greiðslur á lánum og þau lengd um fjögur ár. Sl. sumar ákvað ríkisstjórnin að skuldbreyta lánum Atvinnutryggingarsjóðs aftur með sama hætti þannig að afborganir áranna 1994 og 1995 færast einnig aftur fyrir aðrar greiðslur af lánum og þau lengd um fjögur ár. Verið er að ljúka framkvæmd skuldbreytingarinnar.
    Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar verður afborgunum að fjárhæð um 500 millj. kr. á hvoru ári skuldbreytt eða samtals um 1 milljarði kr., 1.000 millj., hjá tæplega 100 aðilum. Á tímabilinu frá 1. júlí 1993 til 31. des. 1993 hefur Byggðastofnun gengið frá um það bil einum tug nýrra lána til fjárhagslegrar endurskipulagningar í sjávarútvegi og nemur heildarfjárhæð þeirra um 100 millj. kr. Endurlán vaxta og afborgana til 21 fyrirtækis nema á sama tíma um 82 millj. kr. Tekið skal fram að þegar vinnu við skuldbreytingu í Atvinnutryggingarsjóði lýkur er ætlun Byggðastofnunar að gera átak í skuldbreytingum sjávarútvegsfyrirtækja. Háum lánum til smábáta hefur verið skuldbreytt og er heildarfjárhæð þeirra ekki há. Ég hef hana hér ekki sundurgreinda. Byggðastofnun mun þó kanna möguleika á skuldbreytingum lána til smábáta þegar ráðist verður í það skuldbreytingaátak í sjávarútvegi sem fram undan er.