Fob-tollun

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:11:07 (3350)

[17:11]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 301 leyfi ég mér að leggja fram fsp. til hæstv. fjmrh. um svokallaða fob-tollun. Það er kannski rétt að útskýra fyrst hvað fob-tollun þýðir. Þetta er það orðalag sem innflytjendur nota um tollun sem ætti að vera þannig að aðeins varan er tolluð en ekki eins og er í dag, að inn í tollverð sé tekinn flutningskostnaður, pökkun, trygging og þar fram eftir götum. Til að þetta orðalag misskiljist ekki þá er þetta hugmyndin á bak við þetta orðatiltæki, að varan ein sé tolluð en ekki aðrir þættir sem á leggjast, þ.e. flutningur, trygging og annað slíkt.
    Ég hef leyft mér að spyrja hér, ef slík tollun yrði tekin upp, hversu mikið tekjutap ríkisins yrði við slíkt og í öðru lagi hvort til greina kæmi að taka upp slíka tollun. Við höfum verið að leita leiða til þess að lækka vöruverð í landinu og ég tel að hér sé fær leið ef vilji er til staðar. Ég tel ekki síður að menn eigi að horfa út frá því hvort skattlagning sé yfir höfuð réttlætanleg eða réttlát eða ekki. Það tel ég ekki vera. Ég tel eðlilegt að vara sé tolluð og beri gjöld, en að flutningur, trygging, pökkun og erlendur flutningskostnaður sé ekki tekinn inn í vöruna. Jafnvel þó að vara sé tollfrjáls, þá leggst virðisaukaskattur á hana til að mynda. Þess vegna hef ég leyft mér að bera þessa fsp. fram. Í fyrsta lagi hvort það komi til greina að taka upp slíka tollun yfir höfuð og ef svo er, hvert tekjutap ríkissjóðs yrði við slíkt.