Fob-tollun

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:13:03 (3351)


[17:13]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um er munurinn á þessum hugtökum sá að fob þýðir free on board, cif þýðir cost, insurance, freight, þ.e. kostnaður, tryggingar og fragt er inni í cif-verði. Það er munur á þessum hugtökum sem eru úr ensku.
    Samkvæmt verslunarskýrslum fyrir árið 1992 voru fluttar til landsins vörur fyrir tæplega 97 milljarða kr. að cif-verðmæti. Fob-verð þessara vara voru rúmlega 88 milljarðar kr. Samkvæmt þessu tölum er mismunur á fob-verði og cif-verði um að bil 10%. Þessi munur er nokkuð mismunandi eftir vöruflokkum og eftir því frá hvaða löndum flutt er inn. Mismunur á cif-verði og fob-verði innflutnings eftir svæðum er þessi:
    EFTA 8%, en frá EFTA-löndunum eru rúmir 24 milljarðar fluttir inn, frá EB eru rúmir 47 milljarðar fluttir inn, þar munar 10%. Önnur Evrópulönd, þar munar 9%, Bandaríkjunum 13%, Japan 10% og önnur lönd 13%. Eins og sést er minnsti munurinn í EFTA-löndunum, mestur er munurinn þegar svokölluð önnur lönd utan Evrópu, Bandaríkin og Japan, koma til sögunnar.
    Eins og þessar tölur bera með sér er stærsti hluti innflutningsins frá löndum sem eru aðilar að EES-samningnum, en engir tollar eru lagðir á vörur þaðan að frátöldum matvörum. Enn fremur eru stórir vöruflokkar frá öðrum löndum, svo sem ökutæki, eldsneyti og fjárfestingarvörur, án tolla. Tolltekjur fást því ekki nema af litlum hluta innflutnings.
    Samkvæmt fjárlögum fyrir 1994 eru beinar tolltekjur áætlaðar 1.200 millj. kr og tekjur af öðrum gjöldum sem lögð eru á sama stofn og tollur, svo sem fóðurgjald, kartöflugjöld og jöfnununartollar, eru áætlaðar um 175 millj. kr. Sú breyting að leggja toll á fob-verð í stað cif-verðs mundi þannig leiða til um 130--140 millj. kr. tekjutaps fyrir ríkissjóð ef ekki yrðu samtímis gerðar breytingar á tolltöxtum.
    Ekki þarf að reikna með að breyting á fob-verði hefði áhrif á aðrar tekjur. Vörugjöld eru lögð á heildsöluverð vöru sem eðli máls samkvæmt felur í sér flutningskostnað og annan mun á fob- og cif-verði. Með því að leggja vörugjaldið á fob-verð innflutnings væri innlendri framleiðslu mismunað gagnvart innflutningi, sem ekki getur talist æskilegt.
    Í GATT-samningnum, þar sem er að finna mikilvægustu skuldbindingar Íslands um tollverð og tollverðsákvörðun, er samningsríkjunum í sjálfsvald sett hvort þau nota cif eða fob sem tollverðsviðmiðun. Ísland, ásamt öðrum Evrópuríkjum, miðar við cif-verð vöru en Bandaríkin og ýmsar aðrar þjóðir við fob-verð. Þótt færa megi haldbær rök fyrir hvoru kerfinu fyrir sig þá tel ég, a.m.k. á þessari stundu, óráðlegt að breyta núverandi tollverði yfir í fob-viðmiðun.
    Þegar cif-verð var tekið upp hér á landi með lögum um tollskrá nr. 62/1939, voru lagaákvæði um þetta efni sniðin eftir fyrirmynd frá hinum Norðurlöndunum, einkum Danmörku og Noregi. Í áliti milliþinganefndar sem fjallaði um frumvarp laganna er það talið til mikilla bóta að falla frá fob-verðsviðmiðun og taka upp cif-verðsviðmiðun. Með því taldi nefndin að íslensk löggjöf yrði í meira samræmi við löggjöf nágrannaþjóðanna, auk þess sem eðlilegt þótti að miða tollverð við raunverulegt verð vörunnar þegar hún er tollafgreidd, fremur en að tína af henni flutningsgjöld og vátryggingarkostnað sem bæst hefur við verð vörunnar á leið til landsins. Þessi rök eiga reyndar enn við og við þau má bæta því sem síðar hefur gerst. Í fyrsta lagi að breytingar á tollverði kalla á umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á tölvukerfi. Í öðru lagi að allar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir í milliríkjasamningum miða við það að tollur sé reiknaður af cif-verði vara. Í þriðja lagi mundu breytingarnar hafa veruleg áhrif á álagningu vörugjalds til hins verra og eru þó vandamálin ærin fyrir. Vörugjaldi er almennt ætlað að leggjast á heildsöluverð vöru. Ef tollverðinu yrði breytt í fob-verð mundi það enn frekar auka á núverandi erfiðleika við að finna sambærilegan álagningargrunn fyrir innflutta og innlenda vöru.
    Það sem skiptir mestu máli er að sjálfsögðu, virðulegi forseti, að menn velji aðra stefnuna og innan GATT hefur alveg verið fallið frá því að reyna að samræma þetta á milli þjóða. Við förum hér eftir því sem gert er í okkar nágranna- og helstu viðskiptalöndum og teljum að það sé ekki rétt að tollar geti breytt verðhlutföllum þannig að þeim sé ívilnað sem flytja inn með dýrum og dýrari hætti. Það ætti að leiða til óhagkvæmni. Þegar á heildina er litið, virðulegi forseti, tel ég að óráðlegt sé að breyta þessari viðmiðun.