Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

75. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 17:32:19 (3358)


[17:32]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað ljóst, eins og hér hefur komið fram, að þegar grunnskólinn verður alfarið færður yfir til sveitarfélaganna eru ýmis álitamál sem þarf að skoða sérstaklega og nokkur þeirra hafa verið nefnd hér. Eðli málsins samkvæmt, varðandi þær fyrirspurnir sem lúta að fræðsluskrifstofunni, lífeyrisréttindum kennara o.s.frv., væri eðlilegra að beina þeim til þess ráðherra sem fer með þennan málaflokk, þ.e. menntmrh. Út af fyrir sig hefði verið eðlilegra að beina þessari fyrirspurn beint til hans. En ég tel alveg víst að báðir þessir þættir sem eru mikilvægir, fræðsluskrifstofunar og starfskjör kennara, þar á meðal lífeyrisréttindi, verði auðvitað sérstaklega skoðaðir. Samkvæmt því sem fram hefur komið hjá menntmrh. þá virðist málið vera nokkuð langt komið, ef vænta má tillagna um það á næstu vikum.
    Varðandi minni sveitarfélögin og hvort það verði til tvenns konar sveitarfélög við færslu grunnskólans alfarið til sveitarfélaganna, þá tel ég svo ekki vera. Það er nú svo, eins og þingmenn vita, að þetta verkefni, málefni grunnskólans, er nú að mestu í höndum sveitarfélaganna, nema laun kennaranna, og þau standa saman í mörgum tilvikum að rekstri grunnskólanna. Og ég hygg að þá þætti sem kalla fram breytingar vegna mismunandi kostnaðar á rekstri grunnskólans, sem hafa áhrif eins og stærð sveitarfélagsins eða stærð skólans réttara sagt og hvar hann er staðsettur, hvort það er í dreifbýli eða þéttbýli, það sé mjög auðveldlega hægt að bæta þann mismun sem þar verður á í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.