Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 15:25:04 (3370)


[15:25]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til þess að upplýsa hvort hér hafi verið um launuð ráðgjafarstörf að ræða hjá hv. 1. þm. Austurl. en hafði nú raunar ekki reiknað með því. En varðandi deiluna sjálfa þá voru mál einfaldlega komin svo eins og við vitum að það virtist ekki vera sáttaflötur í þessu máli. Svo mikið bar þar á milli. Ég ætla ekki að fara að setja mig hér í eitthvert sérstakt dómarasæti um hvað hafi valdið því en þetta var einfaldlega staða málsins og ég held að það hafi verið rétt metið hjá hv. 1. þm. Austurl., sem hér hefur verið nefndur ráðgjafi í þessum efnum, að það hafi ekki verið hægt að leysa þessa deilu með eðlilegum hætti, því miður.