Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 15:27:18 (3372)


[15:27]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur hefur þó nokkra reynslu af því að taka þátt í kjarasamningum og eitt af því fyrsta sem ég lærði í slíkum eldskírnum var einfaldlega það sem hv. 2. þm. Vestf. var að nefna hér, að reyna að forðast yfirlýsingar í fjölmiðlum vegna þess að slíkar yfirlýsingar hafa eingöngu það upp á sig að menn festast í farinu og eiga mjög erfitt með að komast út úr spólfarinu að því loknu. Og þess vegna var það sá háttur sem menn höfðu a.m.k. ævinlega vestur á fjörðum þegar við stóðum þar í kjarasamningum, viðkvæmum kjarsamningum, að reyna að forðast fjölmiðlana eins og menn lifandi gátu því reynsla okkar var ævinlega sú sama að þegar menn höfðu komust í færi við míkrófóna útvarpsins og sjónvarpsvélarnar þá var eins og allt væri komið í mikið óefni. Þess vegna get ég vel tekið undir það með

hv. 2. þm. Vestf. að óheppilegar yfirlýsingar hafa örugglega orðið til þess að gera þessar kjarasamningaviðræður miklu erfiðari en ella. En ég get hins vegar ekki fallist á það með honum að það hafi verið ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að ljúka þessari kjaradeilu með lagasetningu og ég minni á það sem ég nefndi hér í ræðu minni áðan að hvað eftir annað hafði ríkisstjórnin atbeina og forustu um það á síðari stigum málsins að reyna að leysa deiluna með því að stefna aðilum saman, með því að greiða fyrir því að menn gætu komist að viðræðuborðinu og í þeim efnum er auðvitað hlutur hæstv. sjútvrh. mestur.