Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 15:48:26 (3377)


[15:48]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það hefur verið farið rækilega yfir það af fyrri ræðumönnum að auðvitað skorti allar forsendur fyrir setningu bráðabirgðalaga þegar til þeirrar aðgerðar var gripið 14. jan. sl. En ég veit ekki í sjálfu sér hversu mikið það hefur upp á sig að ræða það hér. Þetta er í þriðja sinn sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar grípur til setningar bráðabirgðalaga. Í öll skiptin var með öllu tilefnislaust og ástæðulaust að beita því valdi. Hæstv. forsrh. hefur nú þegar viðurkennt að í eitt skipti a.m.k. hafi það verið hrein og klár mistök og eftir á að hyggja hafi það ekki verið réttlætanlegt þegar sett voru lög á Kjaradóm á miðju sumri, þegar samgöngur eru hvað greiðastar um landið, og í raun höfðu þau lög ekki áhrif fyrr en að mánuði liðnum því það var settur á dómur sem ekki átti að skila niðurstöðu fyrr en eftir mánuð.
    Það virðist bara liggja fyrir og ekki þurfa í sjálfu sér að fjölyrða mikið um það, að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ákveðið að hverfa í gamla farið hvað setningu bráðabirgðalaga snertir, beita því valdi að geðþótta og jafnvel af hinu minnsta tilefni. Jafnvel, að því er virðist, fyrst og fremst til þess að spara sér ákveðin pólitísk óþægindi, eins og t.d. á bersýnilega við þegar bráðabirgðalög voru sett vorið 1993. Þá var þing sent heim. Það lá fyrir að afla þyrfti heimilda í lögum til að uppfylla þá kjarasamninga sem voru í burðarliðnum. Engu að síður ákvað ríkisstjórnin að senda þingið heim og beita þá þess í stað bráðabirgðalagavaldinu.
    Í öðru lagi verður að rifja það upp hér að setning bráðabirgðalaga nú í lokin á þessari deilu er náttúrlega óvenjunöturleg niðurstaða þegar það er haft í huga að það er búið að liggja fyrir í meira en hálft ár að í þessa deilu stefndi. Í raun og veru lá alveg ljóst fyrir í hvað stefndi þegar tvíhöfða nefnd hafði skilað niðurstöðu og stjórnarflokkarnir að því er virtist ákveðið að gera hana að sinni og yfirlýsingar sjómannasamtakanna komu í kjölfarið um að þessari niðurstöðu gætu þeir ekki unað, fundahöld hófust o.s.frv. Og það sem ég hef verið mest hissa á allan þennan tíma er það að menn skuli hafa látið hálft ár líða án þess í raun og veru leggja neitt af mörkum til þess að reyna að leysa þessa deilu. Ég spyr mig að því: Var það vegna þess að einhver ákveðin öfl vildu ekki leysa hana? Þau vildu ekki gera málamiðlun um þetta atriði? Var það vegna þess að menn bundust strax á miðju síðasta ári samtökum um að það skyldu vera sjómenn sem brotnir yrðu á bak aftur í þessu máli af því að það væri trúaratriði og kennisetning, undirstaða þessa helga kerfis við stjórn fiskveiða að þetta brask með veiðiheimildirnar þyrfti að fara fram? Ég verð að segja alveg eins og er að þegar maður fer svo yfir gang mála, þá lyktar hann allur af því að frá upphafi hafi aldrei staðið annað til en að verja kerfið óbreytt og brjóta alla andstöðu á bak aftur, þess vegna með gerræðislegum bráðabirgðalögum ef á þyrfti að halda.
    Skoðum aðeins hvernig tíminn var notaður síðustu vikurnar áður en allsherjarverkfall á íslenska fiskiskipaflotanum skellur á. Ætti það þó að vera mönnum nægjanlegt tilefni til að hífa sig upp á afturendanum og reyna að gera eitthvað. En var það? Ekki aldeilis. Hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir að hann blandaði sér ekki í málið meðan það væri hjá sáttasemjara. Og hvernig notaði LÍÚ, eigendur útgerðarinnar í landinu, tímann? Þeir fóru í fáránlega málshöfðun fyrir félagsdómi og eyddu í það hálfum mánuði sem auðvitað setti deiluna í enn harðari hnút og fyrir séð og ljóst mátti vera að þeir mundu tapa. Þannig notuðu þeir tímann síðasta hálfa mánuðinn þangað til einn eða tveir sólarhringar voru í verkfall. Bendir það til þess að það hafi verið mikill vilji til að nýta tímann og reyna að leysa málið? Ég segi nei. Þessi aðdragandi

málsins allur lyktar af því að menn vildu ekki leysa það með þeim augljósa hætti sem þurfti að gera, þ.e. grípa inn í þessar afleiðingar af núverandi fyrirkomulagi stjórnar fiskveiða.
    Sjútvn. var bersýnilega haldið utan við málið. Hún þurfti sjálf að hafa frumkvæði að því að kalla deiluaðilana fyrir sig í desember til þess að kanna hvernig ástatt væri og lá það þó alveg ljóst fyrir að það voru áhrif laganna um stjórn fiskveiða á kjör sjómanna sem voru erfiðasti þröskuldurinn í deilunni. Menn voru síðan með heilagleikatal af því tagi að ekki mætti grípa inn í kjaradeilu. Hún væri milli deiluaðila og eftir að sáttasemjari hefði tekið málið að sér væri það ekki inni í myndinni að stjórnvöld blönduðu sér í það, sagði hæstv. sjútvrh. og fór svo til Færeyja. Eins og það hafi aldrei skeð á Íslandi að ríkisstjórn og Alþingi hafi komið nálægt kjaradeilu sem hafi verið til meðferðar hjá sáttasemjara. Það er eins og mig minni að flestar þjóðarsáttirnar undanfarin ár hafi einmitt gerst þannig að í lok deilunnar hafi ríkisstjórn og Alþingi komið að því með einum og öðrum hætti og lofað tilteknu framlagi til að leysa málið.
    En það mátti ekki núna. Hvers vegna? spyr ég. Ég tel að allur aðdragandi málsins og málsaðstæðurnar bendi til þess að einhver öfl sem hér höfðu mikil áhrif hefðu ætlað sér að láta þetta enda nákvæmlega svona og brjóta andstöðu sjómanna við þetta á bak aftur með lögum ef á þyrfti að halda til þess að geta síðan haldið áfram að reka kerfið óbreytt.
    Ég held, hæstv. forsrh., að ég hirði ekki um það að fara frekar yfir það hversu fráleit þessi málsmeðferð er og í hvaða far þetta er komið á nýjan leik með bráðabirgðalögin eftir umræður á þingi í tengslum við setningu nýrra þingskapalaga um það eitt hvort afnema ætti með öllu þennan rétt eða hafa eftir eitthvert ákvæði sem kæmi aldrei til greina að nota nema náttúruhamfarir eða einhver slík ósköp gengju yfir og setja yrði neyðarlög eða taka stofnanir eignarnámi eða gera annað því um líkt á stundinni. M.a. voru hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn einmitt talsmenn þess að í sjálfu sér ætti ekkert slíkt ákvæði að vera heldur ætti að fella þennan rétt burtu með öllu og fór þar fyrir hæstv. menntmrh. sem þá var formaður þingflokks Sjálfstfl. Út af fyrir sig liggur þetta fyrir. Menn eru sem sagt ómerkir þessara orða sinna og það verður að hafa það.
    Svo vil ég víkja að bráðabirgðalögunum sjálfum, hæstv. forseti. Það kemur mér þar á ofan á óvart að frv. sjálft sem hér er til staðfestingar bráðabirgðalögunum skuli vera jafnómerkilegur og gallaður pappír og það í raun og veru er. Því er ekki fyrir að fara að hæstv. ríkisstjórn reyni þá með einhverjum sanngjörnum hætti að setja lögin þannig að þau standi einhvers staðar miðsvæðis milli deiluaðilanna. Ó nei, ekki aldeilis. Í raun eru lögin einhliða á annan deiluaðilann, þ.e. sjómenn. Það er alveg morgunljóst. Allar aðgerðir þeirra eru bannaðar og þeir eru sendir á sjó undir nótt. Meira að segja tekið þannig til orða í 1. gr. laganna að það er bersýnilega óhagstætt sjómönnum miðað við þeirra kröfur. En þar stendur, með leyfi forseta, að nefndin, þriggja manna nefndin, snillinganefndin ráðuneytisstjóranna, þríhöfðarnir nýju, skuli gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi, --- innan gæsalappa minna, hæstv. forseti, ,,óeðlileg áhrif á skiptakjör`` og undirbúa o.s.frv. Með öðrum orðum festir lagasetningin sjálf í sessi þann skilning að til sé eitthvað sem heita eðlileg áhrif kvótaviðskiptanna á kjör sjómenn. Þeir eigi með öðrum orðum eftir atvikum að taka þátt í þeim innan einhverra tiltekinna marka sem einhverjir ætla svo að taka að sér að skilgreina sem eðlileg. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Það getur held ég enginn gert nema ef vera skyldi meiri hluti Hæstaréttar sem hefur eins og kunnugt er lag á því að lesa með sérkennilegum hætti út úr orðanna hljóðan.
    Ég held að þarna sé ósköp einfaldlega á ferðinni að ríkisstjórnin gengur algerlega í lið með LÍÚ að brjóta þetta á bak aftur og gerir það þannig að meira að segja sjálf bráðabirgðalagasetningin, sem ætti þó a.m.k. að vera hlutlaus, er það ekki.
    Svo vil ég spyrja, hæstv. forseti, hæstv. sjútvrh. um annað atriði sem er að það er ekkert sólarlagsákvæði í gildistíma þessara laga. Vill hæstv. sjútvrh. endilega reisa sér þann bautastein að hafa þetta frv. um aldur og ævi í lagasafni? Hvers vegna eru ekki lögin látin falla úr gildi sem slík um leið og kjarasamningarnir losna samkvæmt ákvæðum 2. gr.? Ég vona að þetta sé ósköp einfaldlega handvömm og til marks um hroðvirknisleg vinnubrögð en ekkert annað vegna þess. Menn hljóta að spyrja hvort til að mynda ákvæði 3. gr. gildi áfram eftir 15. júní úr því að ekkert sólarlagsákvæði er í lögunum, en í 3. gr. eru vinnustöðvanir, verkföll og verkbönn bönnuð o.s.frv.
    Ég bið um skýringar á þessu og verð svo að lokum að láta það koma fram, hæstv. forseti, að ég tel rökstuðninginn með bráðabirgðalögunum ákaflega ræfilslegan og ekki boðlegt að senda forseta Íslands til undirritunar bráðabirgðalög með svona hrákalegum hætti og lélegum rökstuðningi. Það er til stórkostlegrar skammar en afleiðing af því e.t.v. að ríkisstjórnin var að sjóða þetta saman undir nótt á föstudegi vegna þess að það lá svo mikið við að drífa sjómenn á sjó um nóttina þannig að þeir gætu ekki einu sinni fundað með morgni laugardagsins 15. um sín mál heldur væri stór hluti þeirra þegar kominn út á sjó. Og af því að svo vill til að hæstv. sjútvrh. er jafnframt dómsmrh., þá vil ég spyrja hann hvort það sé venjubundið að opna til að mynda lögskráningu með þeim hætti sem gert var að kvöldi föstudagsins, daginn sem lögin voru sett. Það verkar þannig á mann að menn hafi verið grunsamlega vel undirbúnir að rjúka á sjó þegar því er svo haldið fram í hinu orðinu að það hafi aldrei staðið til að setja bráðabirgðalög og hafi enginn haft neina tryggingu um það fyrir fram.
    Hvers vegna var flotinn búinn að taka olíu dagana á undan? Hvers vegna voru menn með veiðarfærin klár og tilbúnir að leggja úr höfn og voru jafnvel farnir að lögskrá áhafnirnar áður en bráðabirgðalögin tóku gildi, hæstv. sjútvrh.? Liggur eitthvað á bak við þennan framgangsmáta að kvöldi 14. jan.?
    Svo er það, hæstv. forseti, þannig að það úrræði sem hæstv. ríkisstjórn setti inn í bráðabirgðalögin að setja þriggja manna nefnd sérfræðinga, sem að því er virðist komst aldrei til þess að hugsa um neitt annað í þessu máli en þennan kvótamarkað sem búið var að skjóta á loft í umræðunni, er svo mislukkað framtak sem nokkuð getur verið því að blekið er varla þornað á þessum tillögum áður en nánast allir sem einhverra hagsmuna eiga að gæta í því sambandi eru búnir að afneita þeim. Fiskvinnslan er algerlega andvíg þeim. Útgerðarmenn eru algerlega andvígir þeim og sjómenn koma og segja: Þetta er engin lausn á okkar vanda. Og fyrir hvern er þá verið að gera þessar tillögur? Er það bara af því að ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, kom þessari hugmynd á framfæri í blaðagrein nokkrum dögum áður? Er veldi þessa ólaunaða ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum þvílíkt að þó að allir samanlagðir hagsmunaaðilarnir afneiti þessu skal þetta samt á pappír af því að hann kom þessari hugmynd í loftið? Það er von að spurt sé.
    Þar með sýnist mér, hæstv. forseti, alveg ljóst að sú yfirlýsing sem hæstv. forsrh. var að reyna að gefa í tengslum við setningu bráðabirgðalaganna og átti að heita einhver dúsa upp í sjómenn að í þetta yrði sett nefnd þriggja ráðuneytisstjóra, virðulegir og fjölfróðir sem þeir mega nú vera, og síðan yrði flutt hér frv. í byrjun febrúar til að taka á þessum viðskiptum með veiðiheimildir er algerlega upp í loft. Það liggur ekkert annað fyrir en þessar tillögur þremenninganna sem einskorða sig við það eitt að skoða hugmyndir um kvótamarkað, tillögur sem allir hafa raunar þegar hafnað.
    Ég gat heldur ekki heyrt á fundi sjútvn. Alþingis í gær þar sem þetta væri til umræðu að þetta vekti almenna hrifningu þar. Það er að vísu rétt að taka fram að einungis tveir stjórnarliðar voru á fundinum og lengi vel reyndar aðeins einn, formaður nefndarinnar, en hjá þeim sem tjáðu sig og voru til staðar fór lítið fyrir hrifningunni á þessum tillögum.
    Ég held að þetta mál sé þess vegna í hinu mesta óefni og langeðlilegast að fella þessi bráðabirgðalög og gera það strax þannig að málið sé þá aftur opið á nýjan leik. Ég tel að það hafi legið alveg fyrir strax frá því að Alþingi var sent heim að það vantaði samningsviljann a.m.k. öðrum megin frá. Öll framganga viðsemjenda sjómanna og ríkisstjórnarinnar lyktar af því að það hafi aldrei staðið til að láta þessa deilu leysast á grundvelli einhverra málamiðlana þessara ólíku sjónarmiða sem röskuðu í verulegum mæli grundvelli kvótakerfisins. Og forsvarsmaður útgerðarinnar í landinu missti það reyndar út úr sér í fjölmiðlum að það stæði ekki til að rústa kvótakerfinu í þessum samningum. Það væri ekki á dagskrá að láta það gerast og talaði þar sá sem valdið hafði en hann er eins og kunnugt er og hefur lengi verið einn mesti valdamaður í sjávarútvegi á Íslandi fyrir utan e.t.v. nýju stjörnuna, hinn ólaunaða ráðgjafa hæstv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum og varasjútvrh., sem hljóp í skarðið þegar hæstv. núv. var í Færeyjum eins og kunnugt er.
    Þetta eru, hæstv. forseti, allt hin sérkennilegustu mál svo ekki verði meira sagt. Ég veit eiginlega ekki hvað til ráða er eins og meðferðin á málefnum sjávarútvegsins hefur í reynd þróast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er allt með miklum ólílkindum svo ekki sé meira sagt hvernig þeir hlutir hafa gengið fyrir sig allt frá því að núv. hæstv. sjútvrh. tók við og átti að ljúka lögboðinni endurskoðun laga um sjávarútvegsmál fyrir árslok 1992. Nú er árið 1994 runnið upp og enn eru þessi mál í fullkominni upplausn og í raun og veru meiri upplausn en nokkru sinni fyrr. Stjórnarliðar ganga hver á fætur öðrum fram fyrir skjöldu og lýsa því að þeir hafi alla fyrirvara á þeim frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram af hálfu ríkisstjórnar. Þeir hafa þvegið hendur sínar af þessum bráðabirgðalögum, að vísu farið yfirleitt í hringi og sagt í lokin að þeir hafi samt verið píndir til að samþykkja þetta og ætla að gera það. Í reynd hafa þessi mál þróast með alveg ævintýralegum hætti. Eru vinnubrögðin sem ástunduð eru í þessu efni þannig að þau séu mönnum ekkert umhugsunarefni? Eða kveikir það t.d. ekki á neinun á Alþingi þegar það er upplýst að bráðabirgðalög séu sett af ríkisstjórn án þess að halda fundi í þingflokkunum, án þess að ganga úr skugga um hvort fyrir þeim bráðabirgðalögum sé meiri hluti á Alþingi? Er það ekkert tiltökumál lengur að fara þannig með þetta vald? Það er ekki svo að hæstv. forsrh. né hæstv. sjútvrh. hafi þegið vald sitt frá guði. Sú kenning er liðin í stjórnmálasögu heimsins. Hún var uppi á síðustu öld. Þá voru til konungar og einvaldar sem trúðu því að þeir hefðu fengið vald sitt frá guði. Ég hélt að þetta væri liðin tíð og komið á spjöld mannkynssögunnar en það mætti ætla að svo væri ekki og núv. ríkisstjórn teldi að hún hefði a.m.k. fengið löggjafarvaldið frá guði en ekki frá meiri hluta Alþingis. Þannig ber þetta nú að.
    Hvernig er það fyrir hv. stjórnarliða, óbreytta þingmenn í stjórnarliðinu, að sitja uppi með bráðabirgðalagasetningu af þessu tagi? Eru þeir allir sáttir við það að bera á þessu ábyrgð þegar svona er að málunum staðið? Hvað með samviskuákvæði stjórnarskrárinnar? Væri ekki vissara að gá að því fyrir fram, rétt fyrir siðasakir a.m.k., hvort svona meðferð á löggjafarvaldinu mæddi mjög samvisku þeirra þingmanna sem síðan eiga að bera ábyrgð á afgreiðslu laganna á þingi. Nema ríkisstjórnin leggi þann skilning í þetta að henni sé heimilt að setja bráðabirgðalög upp á von og óvon og það ráðist svo bara hvort þau séu samþykkt eða felld. Þá er það að vísu alveg nýr kafli í þingræðissögunni og verður auðvitað fróðlegt að vita hvort stjórnarþingmenn nota sér það frelsi. Og hvers vegna er hv. þm. Einar Guðfinnsson að láta handjárna sig úr því að ekki var leitað stuðnings fyrir fram við lögin áður en þau voru sett í því tilviki?
    Nei, hæstv. forseti. Um þetta mætti margt segja. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta heldur ömurlegur kafli á allan hátt í okkar löggjafarsögu og líka hvað varðar meðferð á málefnum

sjávarútvegsins. Og veitti þó ekki af eins og árar í þeirri grein og allar aðstæður eru að reynt væri að standa sæmilega að málum sem sjávarútveginn snerta á hinu háa Alþingi en svo er auðvitað ekki. Þeir hlutir eru allir í hinni mestu upplausn eins og ég þykist hafa sýnt fram á.
    Hæstv. forseti. Ég hef vonandi talað alveg skýrt. Ég er algerlega andvígur þessu frv. og legg til að það verði fellt. Ég legg til að það verði afgreitt fljótt og vel og fellt þannig að málið komist aftur á þann grundvöll sem það auðvitað á að vera að menn geti sest niður til viðræðna um þessi mál og reynt að leysa þau með eðlilegum hætti. Ég er sannfærður um það að ef menn hefðu vitað það fyrir fram að þeir yrðu að leysa þetta annars stæði verkfall þess vegna lon og don þá hefðu málin þróast öðruvísi. Ég held að lyktir þessa máls hafi ráðist hér á Alþingi í desember þegar hæstv. forsrh. neitaði að gefa tryggingu fyrir því að ekki yrðu sett bráðabirgðalög í jólahlénu. Sú yfirlýsing sem ekki var gefin öllu heldur fór ekki fram hjá sjómönnum. Þeir gengu til þessarar deilu með hana á bakinu og því fór sem fór.