Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 16:08:58 (3378)

[16:08]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða um frv. sem komið er fram vegna bráðabirgðalaga ríkisstjórnarinnar. Ég tel rétt að fara aðeins yfir það hvernig þetta mál bar að.
    Föstudaginn 14. jan. hélt hæstv. ríkisstjórn fund um morguninn og ræddi þessi mál og þá hefur örugglega verið tekin sú ákvörðun þó að hún ekki kæmi fram þá eftir fundinn að vinna að því að setja bráðabirgðalög á þessa kjaradeilu því að eftir því sem okkur var kunnugt, voru ráðuneytismenn sendir í þá vinnu strax eftir fyrri fundinn sem haldinn var þann dag, fyrri fund ríkisstjórnarinnar, að undirbúa þessi bráðabirgðalög. Það kvisaðist frá fjölmiðlum eða annars staðar frá að þetta væri í aðsigi og þar sem stjórnarandstaðan hafði lýst því yfir í blaðaviðtali daginn áður að það væri nauðsynlegt að kalla Alþingi saman, og raunar höfðu allir tekið undir það og kom hér fram að undir það taka stjórnarflokkarnir, alla vega einhverjir þingmenn þeirra, þá ákváðum við í stjórnarandstöðunni að fara þess formlega á leit við ríkisstjórnina að Alþingi yrði kallað saman og sendum bréf þess efnis til ríkisstjórnarinnar eða til hæstv. forsrh. Þar lýstum við því að við höfnuðum því alveg að sett væru bráðabirgðalög en færum fram á það að Alþingi yrði kallað saman og værum reiðubúin til að ræða setningu laga ef það mætti verða til að liðka fyrir lausn deilunnar og einnig að við værum reiðubúin að hraða afgreiðslu slíkra mála á Alþingi. Við töldum að sjálfsögðu, öll stjórnarandstaðan eða þeir sem ég hafði samband við, að með þessu værum við að tryggja það að ríkisstjórnin mundi hætta við það að setja bráðabirgðalög og kalla Alþingi saman sem ekki var neitt mál eins og margoft hefur komið fram í máli manna hér.
    En það var aðeins rúmum þrem klukkutímum seinna að okkur barst bréf í hendur frá Davíð Oddssyni, hæstv. forsrh. Ég hef í hyggju að lesa það bréf hér, með leyfi forseta, en það var svohljóðandi, stílað til stjórnarandstöðuflokka á Alþingi, c/o Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, og dagsett 14. jan.:
    ,,Ríkisstjórnin hefur móttekið bréf yðar dagsett í dag. Ákveðið hefur verið að stöðva þegar í stað verkfall sem staðið hefur í hálfan mánuð. Engar samkomulagshorfur eru í augsýn. Binda verður enda á hina miklu óvissu sem ríkt hefur í íslenskum sjávarútvegi. Undirbúnar verða tillögur sem lagðar verða fram á Alþingi og eiga að miða að því að koma í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir innan árs hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör. Þess er vænst að málefnaleg afgreiðsla geti orðið á þessu mikilvæga máli í þinginu, en vissulega má gera ráð fyrir að slíkar tillögur þurfi vandlega athugun og umræður í þinginu.``
    Og undir bréfið ritar Davíð Oddsson.
    Vissulega erum við í stjórnarandstöðunni að sumu leyti ánægð með það að fá skriflegt svar við okkar málaleitun en það hefði gjarnan mátt vera orðað á annan hátt.
    Í Kvennalistanum hittumst við morguninn eftir og mótmæltum harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að setja bráðabirgðalög til að stöðva verkfall sjómanna og teljum með því að ríkisstjórnin sé enn einu sinni að grípa inn í kjaradeilu á þennan hátt og svo sem ekki eina ríkisstjórnin sem það hefur gert. Þannig sýnir ríkisstjórnin launafólki í landinu að hún virðir verkfallsrétt þess einskis. Við nefnum það jafnframt í okkar yfirlýsingu að þarna sé ekki tekið tillit til óska sjómanna í þeim efnum að styrkja réttarstöðu þeirra með lagabreytingum eða skýrari lagasetningu því að þó að lofað hafi verið að setja á fót þessa þriggja manna nefnd, þá tel ég að ekki hafi falist í því nein lausn sem raunar hefur svo komið á daginn með þeim tillögum sem nefndin er í þann mund að senda frá sér.
    Fulltrúi Kvennalistans sem talaði hérna áðan, hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson, hefur lýst því hvaða tillögur við höfum endurflutt í formi frv. um það að fella niður þessa grein í stjórnarskránni sem gefur heimild til bráðabirgðalaga. Það hefur einnig komið hér fram í máli manna og ég er ekkert að endurtaka að í raun og veru sé þetta ákvæði orðið algerlega óþarft. Við höfum áður lagt fram þetta frv., það eru þrjú ár síðan og höfum ævinlega haldið því fram að þetta sé óþarft og það verður þeim mun óþarfara sem lengri tími líður.
    En til hvers hefði þá Alþingi átt að koma saman þar sem nú hefur komið fram í máli sumra hér

að ekki hafi verið annað til ráða en að setja lög á þetta verkfall? Það hefði verið hægt að ræða þær hugmyndir sem sjómenn höfðu uppi um það hvernig hægt væri að taka á þessu stærsta deilumáli sem var orsök verkfallsins, þ.e. þeirri aðferð útvegsmanna að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Það hefði mátt gera með því að setja ákvæði inn í fiskveiðilöggjöfina. Í 15. gr. laga nr. 3/1988, fiskveiðilaganna, er til ákvæði um samráðsnefnd þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum sjómanna og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna, auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi`` --- og það er talið upp hér --- ,,veiðileyfi, aflamark og sóknarmark samkvæmt lögum þessum og reglugerð settri samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.``
    Þarna hefði hugsanlega verið hægt að bæta inn ákvæði sem tæki á því ef menn misnotuðu þessi veiðileyfi sín eða það aflamark sem þeim hefur verið úthlutað og ég er ekki frá því að þar væri möguleiki á að koma því inn. Einnig er í 72. gr. sjómannalaga talað um lausn ágreiningsefna, og þar segir um ágreining út af starfsskyldum eða réttarstöðu sjómanna, með leyfi forseta:
    ,,Samgönguráðherra er heimilt að koma á fót föstum gerðardómi er skipaður sé einum eða fleiri óvilhöllum mönnum sem dæmi um ágreining út af reikningsgerð útgerðarmanns eða skipstjóra eða um ágreining sem rís af starfi skipverja ef báðir (eða allir) málsaðilar óska þess og verður þá úrskurður gerðardómsins um efnisatriði máls bindandi fyrir báða aðila eftir sömu reglum og almennt gilda um gerðardóma.``
    Þarna væri hægt að bæta inn líka að ef annar eða báðir aðilar óska þess, þ.e. það sé hægt að setja á fót gerðardóm sem sé skipaður einum eða fleiri óvilhöllum mönnum sem dæmi um ágreining út af reikningsgerð útvegsmanna eins og þarna stendur og það væri hægt að vísa þessu til gerðardóms ef annar eða báðir en ekki aðeins ef báðir aðilar vísa því þangað, en auðvitað vilja útvegsmenn ekki vísa þessu til gerðardóms því að þeir telja sig alltaf vera í fullum rétti þó að þeir séu að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. En það er eins og hæstv. ríkisstjórn sé ekki tilbúin að skoða þau mál þar sem tekið er á réttindum sjómanna, ef útvegsmenn eru ekki sammála því sem þar kemur fram þó að það sé greinilega réttlætismál að þetta sé einhvers staðar skýrt tekið fram í lögum.
    Samkvæmt því sem þetta frv. sem við erum hér að ræða segir átti að skipa þriggja manna nefnd ráðuneytismanna til þess að gera tillögur um hvernig mætti koma í veg fyrir óeðlilega verslun með aflaheimild sem hefði óeðlileg áhrif á skiptakjör. Þessi nefnd hefur eins og ég sagði áðan lagt það til að komið verði á fót einhvers konar kaupþingi eða verðbréfaþingi sem versli með kvótann, selji og kaupi, og raunar í einhverjum feluleik því að enginn má vita um annars nafn, það á að vera allt á huldu um það. Ég verð nú að segja að mér finnst þessi hugmynd sem hefur komið fram og er lýst í Morgunblaðinu á sl. laugardag þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt verður að færa aflamark á milli skipa í eigu sama aðila, en öll viðskipti með aflamark á milli útgerða önnur en jöfn skipti verða að fara um opinn tilboðsmarkað, kvótaþing, ef tillögur þær sem svonefnd þríhöfða nefnd hefur sent frá sér verða að veruleika. Sú krafa verður gerð til kvótaþings að kaupendur og seljendur viti ekki hverjir af öðrum svo að þeir geti ekki sammælst um undirboð.`` Svo segir hér síðar í greininni: ,,Viðskiptin eiga síðan að vera með líkum hætti og á verðbréfaþingi þannig að sá sem býður hæsta verðið fær fyrstur kvótann og þannig koll af kolli . . . ``
    Ég tel að ef fara ætti að setja kvótann á uppboðsmarkað, á kvótaþing, þá þurfi ekki að vera að setja upp eina stofnunina í viðbót. Það er til verðbréfaþing sem þá gæti líklega verslað með þessar aflaheimildir. Ég verð að segja að mér finnst nægilegt komið af þeim stofnunum sem búið er að setja á fót í kringum þennan atvinnurekstur og nægir þar að nefna Fiskistofu þar sem kostnaður og mannahald varð margfalt meiri heldur en gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu og í öðru lagi er hægt að nefna Fjarskiptaeftirlit ríkisins sem einnig hefur með að gera eftirlit í sambandi við sjávarútveg. Þar margfaldaðist, ég veit ekki hvort fimmfaldaðist eða sexfaldaðist sá mannafli sem þar var settur til vinnu í staðinn fyrir það sem hafði verið áður þegar þessi vinna var unnin hjá Pósti og síma. Þannig hefur verið haldið áfram að búa til sífellt meira og meira og stærra og stærra kerfi í kringum allt þetta kvótabrask og sjávarútveginn í heild. Ég held að það mætti alveg fara að draga úr því.
    Ég ætla ekki að lengja það mjög að fara yfir þetta frv. Það er örstutt og þarf ekki að ræða það. Við kvennalistakonur erum ósammála því, og mér heyrist margir vera það hér inni, að þessi bráðabirgðalög hafi verið sett. Ég tel að þau séu mistök og þau leysi ekki þann vanda sem þau áttu að leysa í fyrsta lagi vegna þess að það á yfirleitt ekki að vera að setja bráðabirgðalög. Það er engin þörf á því við þær aðstæður sem við búum við. Í öðru lagi er ekki réttlætanlegt að grípa sífellt inn í kjarasamninga með þessum hætti. Það á ekki að leysa kjaradeilur á þennan hátt og það leysir engan vanda í þessu tilviki. Það frestar honum aðeins um einhverjar vikur.
    Hugmyndin um kvótaþing og sölu á kvóta eins og verðbréf, eins og ég gat hér um áðan, tel ég vera algjörlega dauðadæmt fyrirtæki og leysi ekki þann vanda sem sjómenn eru að berjast við, síður en svo.
    Ég hef lýst því hér nokkuð hvaða hugmyndir gætu verið uppi um það að leysa það mál sem er orsök þeirrar kjaradeilu sem hér var ,,leyst`` með bráðabirgðalögum, að það eru ýmsar leiðir til sem ríkisstjórnin og Alþingi hefði getað rætt hér, gripið til til þess að stuðla að lausn deilunnar. Það hefur margoft

verið gert eins og menn hafa rakið hér á undan mér. Alþingi hefur orðið að koma inn í með ýmsum hætti til þess að ljúka gerð kjaradeilna úti í þjóðfélaginu, m.a. í sambandi við þá þjóðarsátt sem hér hefur stundum verið vitnað til og nærtækt dæmi eru síðustu aðgerðir Alþingis rétt fyrir jól þegar var verið að ræða um lækkun virðisaukaskatts á matvæli sem var liður í loforði í kjarasamningum þannig að það er ýmislegt hægt að gera. En ég lýsi því yfir að ég er algjörlega andvíg þessu frv. og algjörlega andvíg því að setja bráðabirgðalögin. Og ég skora á ríkisstjórnina að finna einhverja betri lausn heldur en virðist vera fyrirhuguð í framhaldinu með þessu kvótaþingi.