Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 16:27:38 (3380)


[16:27]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að mér hafi orðið á mismæli í því að ég hafi sagt að kostnaður Fiskistofu sé farinn úr böndunum. Hitt er aftur annað mál að við að taka upp það fyrirtæki sem nefnist Fiskistofa, þá fór upprunalegur kostnaður mjög úr böndum frá því sem ákveðið hafði verið í fjárlögum þess árs þegar Fiskistofa var sett á fót.
    Hins vegar er það sem ég átti við, og hefur e.t.v. ekki komið nógu skýrt fram, það að kostnaður sjávarútvegsins hefur aukist mjög mikið. Kostnaður sjávarútvegsfyrirtækja hefur aukist með tilkomu Fiskistofu og með tilkomu allra þeirra vottorða sem sjávarútvegurinn þarf að fá m.a. frá Fiskistofu og fleiri fyrirtækjum eins og ég einnig nefndi hér áðan með Fjarskiptaeftirlit ríkisins. Það er hægt að nefna það að hjá smæstu bátum kostaði t.d. leyfi fyrir skoðun hjá Pósti og síma í kringum 2.000 kr. fyrir ári síðan en sama vottorð kostar í dag 6.500 kr. þannig að kostnaður sjávarútvegsins hefur aukist mjög mikið við þær breytingar sem gerðar hafa verið.