Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 16:31:09 (3382)


[16:31]

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við getum verið sammála um það við hæstv. sjútvrh. að við viljum hafa gæðakröfur í lagi, það er engin spurning. En ég held því enn fram að kostnaður sjávarútvegsins hafi aukist, bæði með tilkomu Fiskistofu, með tilkomu Fjarskiptaeftirlits ríkisins, með tilkomu skoðunarstofa og fleira sem var sett á fót. Þrátt fyrir skoðunarstofur, sem settar voru á fót líka, þarf líka að vera til Ríkismat sjávarafurða í raun og veru vegna þess að margar þær þjóðir sem við verslum við með okkar fisk gera kröfu um að það sé opinbert vottorð líka þannig að það er ekki nægilegt að hafa vottorð frá skoðunarstofu. Það þarf líka að vera vottorð frá opinberu eftirliti og hvort það er nú frá Fiskistofu eða einhverju öðru, það skal ég ekki segja um á þessari stundu. Ég man nú ekki hvort Ríkismatið var sameinað í Fiskistofu en það minnir mig reyndar að hafi verið og ég held því enn fram að með öllum þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera í þessa veru, m.a. með Fiskistofu og öllu öðru sem ég hef hér nefnt, þá hefur kostnaður sjávarútvegsins aukist mjög mikið.